Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til þess að víkja hér nokkrum orðum að þeirri tillögu sem hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur flutt og gert grein fyrir. Það kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir að þm. Alþfl. skuli flytja tillögu af þessu tagi. Talsmenn Alþfl. hafa bæði í þessu máli og öðrum lagt á það áherslu að þeir væru sérstakir aðhaldsmenn að því er varðar ríkisábyrgðir. Nú flytja þeir brtt. um yfirstjórn þessara ríkisábyrgðalána sem beinlínis miðar að því að draga úr nauðsynlegu og eðlilegu aðhaldi fjmrh. á hverjum tíma.
    Ég legg áherslu á að hér eru menn að fjalla um embætti en ekki þá menn sem um stundarsakir gegna þeim. Þær persónur eru aukaatriði við skipan löggjafar af þessu tagi. En ég lít svo á að ríkisábyrgðir séu býsna vandmeðfarið mál og það hefur komi fram hér í þessari umræðu að í þeim efnum beri að gæta ýtrasta aðhalds. Ég hygg á hinn bóginn að þær breytingar sem samkomulag varð um milli einstakra nefndarmanna í hv. fjh.- og viðskn. og hæstv. fjmrh. hafi verið til bóta og gert þetta frv. sveigjanlegra á þann veg að líklegra sé að það þjóni sínum tilgangi. En það má ekki draga úr því grundvallaratriði að fyllsta aðhalds sé gætt og eðlilegt er að fjmrh. á hverjum tíma sé líklegastur til þess að gæta þar mests aðhalds. Hans er fyrst og fremst ábyrgðin í þessum efnum. Aðrir ráðherrar eru meira og minna fulltrúar þrýstihópa sem gæta annarra hagsmuna en ríkissjóðs. Í þessu efni tel ég eðlilegt að í yfirstjórn þessara mála sé fyrst og fremst gætt hagsmuna ríkissjóðs sjálfs og þess vegna eigi fjmrh. að skipa þessa menn og hin upphaflega tillaga frv. að standa óhögguð.
    Ljóst má vera að sá fagráðherra sem fer með þessi mál kann að hafa af því hagsmuni að þrýsta á um aðra niðurstöðu en eðlilegt er að verja með tilliti til hagsmuna ríkissjóðs. Og ekki draga úr varnaðarorðum þau ummæli sem hv. 5. þm. Norðurl. v. hafði hér um tengsl viðskiptabankanna við þær væntanlegu ákvarðanir sem teknar verða í þessari stjórnarnefnd. Hv. þm. færði það fram sem rök fyrir því að viðskrh. skipaði hér einn fulltrúa. Einmitt þetta atriði, að líklegt megi telja að hér komi til sérstakra samskipta við bankana, hlýtur að vekja upp spurningarnar hvar og hverjir eru líklegastir til þess að gæta aðhalds í þessum efnum. Eðlilegt er að fulltrúi viðskrh. taki sjónarmið viðskiptabankanna fram yfir hagsmuni ríkissjóðs. Ég hygg að það dæmi sem hv. þm. nefndi hér tillögu sinni til stuðnings sýni í raun og veru þvert á móti að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að brtt. nái fram að ganga. Einmitt þau tengsl sem hann varpar þarna ljósi á að fyrirsjáanleg eru gera það að verkum að ástæða er enn ríkari en áður til þess að gæta þess að þarna fari fulltrúar fjmrh. einir með ákvarðanir.
    Ég vil þess vegna ítreka það sem mína skoðun að upphafleg tillaga frv. í þessu efni á að standa óbreytt og tek heils hugar undir þau sjónarmið sem hv. 1. þm. Reykv. reifaði hér fyrr í umræðunni um þetta

efni.