Útvarpslög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég stend nú upp einungis til þess að leiðrétta það sem ég ætla að hafi verið misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Ég gerði mjög að umtalsefni að það væru ekki bein ákvæði um það í frv. hver bæri ábyrgð á endanlegri ákvörðun um dagskrárefni. Hæstv. ráðherra vék að þessu og sagði að í 7. tölul. 3. gr. væri tekið fram að útvarpsstjóri beri ábyrgð á þessu. En það segir um þetta í 7. tölul.:
    ,,Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu ábyrgðarmenn hennar tilkynna menntmrh. hver sé útvarpsstjóri, sem beri ábyrgð á útvarpsefni skv. V. kafla laga þessara.``
    Þetta er það sem stendur í 7. tölul. Það er vitnað í V. kafla en V. kaflinn fjallar aðallega um refsi- og fébótaábyrgð sem stofnunin getur orðið fyrir. Hér er um aðra ábyrgð að ræða en ég var að tala um. Ég veit að þetta er bara misskilningur en ég vildi leiðrétta þennan misskilning.
    Hæstv. ráðherra vék nokkuð að grundvallarspurningu sem varðaði eignarhald og stjórnun á slíku fyrirtæki sem Ríkisútvarpið er. Það mátti næstum heyra það á ráðherra að hann væri talsmaður frjálshyggjunnar í þessu efni og stæði á verði gagnvart hvers konar hugmyndum sem væru í andstöðu við hana hvort sem hún kæmi frá mér eða öðrum. Það er ágætt að hafa hæstv. menntmrh. með sér í þessum grundvallarsjónarmiðum. En við verðum að líta á hvert mál eins og það er í raun og veru. Hæstv. ráðherra sagði að ef starfsmennirnir stjórnuðu Ríkisútvarpinu þannig að illa tækist til kæmi það bara fram í því að Ríkisútvarpið missti áhorfendur og hlustendur. En það verður að gæta þess að Ríkisútvarpið er ríkisfyrirtæki og með lögum er lögð skylda á alla að greiða til þessa fyrirtækis og þeir verða að greiða hvort sem þeim líkar dagskráin betur eða verr þannig að lögmál hinnar frjálsu samkeppni sem er svo ofarlega í huga hæstv. ráðherra koma ekki að gagni í þessu efni. Um þetta mætti ræða miklu meira en ég ætla að neita mér um það. Eins og ég sagði stóð ég hérna upp fyrst og fremst til þess að leiðrétta misskilning sem greinilega kom fram hjá hæstv. ráðherra.