Yfirstjórn öryggismála
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ekki skal ég draga í efa að hv. flm. þessarar tillögu gangi gott eitt til með flutningi hennar. Á því er ekki nokkur minnsti vafi. Ég verð hins vegar að játa það að mér finnst þessi tillaga ekki mjög skynsamleg. Skal ég nú leitast við að færa fyrir því nokkur rök.
    Við höfum búið við kerfi í þessum efnum sem ég hygg að hafi reynst nokkuð vel. Hér hefur verið skipulagt almannavarnakerfi. Við höfum öfluga og góða landhelgisgæslu, sem vissulega mætti vera miklu öflugri og hafa betri aðstöðu, en sem hefur sýnt og sannað ágæti sitt við erfiðar aðstæður í mörgum tilvikum. Ég veit ekki til þess að neinir þeir annmarkar hafi komið fram á núverandi kerfi sem réttlæti að því verði breytt og yfirstjórn þess flutt til annarra.
    Þá kem ég að því sem er meginandstaða mín við þetta mikla miðstýringarfrv., eitthvert mesta miðstýringarfrv. eða tillögu sem ég hef séð hér í þinginu nú langalengi. Þar segir beinlínis, með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að með yfirstjórn allra öryggis- og löggæslumála fari forstjóri eða öryggismálastjóri sem heyrir undir dómsmrh.``
    Ég átti satt að segja ekki von á því að hv. þm. Sjálfstfl. mundu flytja frv. af þessu tagi. Ég hygg að svona kerfi hafi verið við lýði í ýmsum löndum Austur-Evrópu um langt árabil þar sem öll miðstýring öryggismála hefur verið sett undir einn hatt. Það kerfi er hrunið og það kerfi er verið að afnema. Það er því undarleg tímaskekkja að upplifa það að á Alþingi Íslendinga árið 1990 skuli flutt tillaga þar sem í greinargerð er þessi orð að finna.
    Eins og ég sagði áðan, þá efast ég ekki um góðan tilgang hv. flm. en þeir hafa einhverra hluta vegna lent inni á röngum brautum. Og ég spyr --- mér þykir leitt að ekki skuli fleiri hv. sjálfstæðismenn vera hér í salnum --- styðja þeir þær miklu miðstýringarhugmyndir sem koma fram í þessu frv.? Ég held þær séu í rauninni andsnúnar þorra fólks hér og því skipulagi sem við höfum unnið við í þessum efnum. Mér leikur nokkur forvitni á að vita það. Ég segi það alveg hreinskilnislega og hispurslaust. Mér leikur forvitni á að fá svör við því.
    Ég endurtek það að kerfið sem við höfum haft hefur reynst okkur vel. Ég minni á það að í landinu er starfandi mjög öflugt kerfi björgunarsveita sjálfboðaliða. Þar eru hjálparsveitir skáta, þar eru flugbjörgunarsveitir og síðast en ekki síst björgunarsveitir Slysavarnafélagsins. Þessar sveitir hafa haft með sér mjög náið og vaxandi samstarf. Það kom mjög vel í ljós í erfiðri leit fyrir skömmu í Öræfum þegar leitað var að ungum Englendingi sem ætlaði sér að ganga á Hvannadalshnjúk. Þá kom í ljós að þessar sveitir unnu vel saman. Það eru ekki samskiptavandamál á milli þeirra. Svo var fyrir einhverjum árum en það er að baki og þær hafa starfað mjög vel saman. Er það meiningin að þessi

frjálsu samtök borgaranna, þessar björgunarsveitir, sem hafa unnið svo stórkostleg afrek, leyfi ég mér að segja, eiga þær nú að missa sjálfræði sitt undir einhvern ríkisskipaðan forstjóra eða öryggismálastjóra? Ef svo er þá lýsi ég mig algerlegan andvígan þeim hugmyndum sem hér koma fram. Ég held einfaldlega að við eigum að bæta núverandi stofnanir en við eigum ekki að auka miðstýringuna. Ég sé enga þörf á því að koma á fót slíku allsherjaryfiröryggismálastjóraembætti ríkisins eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held að það sé hreinlega alrangt. En nú bíð ég fullur eftirvæntingar eftir að heyra hver er afstaða annarra þingmanna Sjálfstfl. til þessarar miklu miðstýringartillögu.