Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég á von á að það hafi verið fleiri en ég sem hrukku við þegar fluttar voru um það fréttir í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi af fréttaritara útvarpsins í Bandaríkjunum, Jóni Ásgeiri Sigurðssyni, að hér á landi væri starfrækt sérstök deild úr Öryggismálastofnun Bandaríkjanna. Orðrétt, svo að ég leyfi mér að vitna í fréttina, sagði fréttaritarinn:
    ,,Dagblaðið Washington Post telur að á Íslandi sé deild úr Öryggismálastofnun Bandaríkjanna sem er sjálfstæð njósnastofnun. Hlutverk hennar er að hlera fjarskipti, ráða dulmálslykla og tryggja öryggi í fjarskiptum bandarískra stjórnvalda og stofnana. Hjá Öryggismálastofnun, National Security Agency, starfa 160 þús. menn og stofnunin hefur úr milljörðum dollara að moða. Til njósnastarfseminnar eru notuð gervitungl, loftnet af öllum gerðum, geysiöflugar tölvur og annar hátæknibúnaður.`` Síðar segir: ,,Öryggismálastofnun hefur alla tíð farið huldu höfði og var tilvist hennar árum saman ekki viðurkennd fyrir Bandaríkjaþingi. Stofnunin komst fyrst í sviðsljósið árið 1975 þegar upplýst var að hún hafði hlerað millilandasímtöl og lesið bréf bandarískra borgara.`` Einnig segir fréttaritarinn: ,,Dagblaðið Washington Post segir að Öryggismálastofnun geti nú orðið hlerað símtöl hvert sem er, hvar sem er og fylgst með telex- og telefaxskeytum og jafnvel bankaviðskiptum um allan heim. Öflugar tölvur vinni úr því gífurlega magni upplýsinga sem stofnunin safni.``
    Nánari lýsing var síðan á þessu gefin og tekið er fram að margar deildir þessarar njósnastofnunar séu starfræktar af dulmálsdeildum Bandaríkjahers og aðrar af njósnahópum í bandarískum sendiráðum. Þeim hópum tilheyri bæði menn frá Öryggismálastofnun og frá leyniþjónustunni, CIA.
    Síðan er vitnað í heimildarmenn, ,,George Lardner sem skrifaði greinarnar í Washington Post sagði mér``, sagði fréttaritarinn, ,,að á Íslandi starfræki Bandaríkjafloti njósnadeild Öryggismálastofnunar. Hún héti Naval Security Group og væri staðsett á Miðnesheiði. Þess vegna væri Ísland merkt inn á kortið í Washington Post en það byggðist á upplýsingum úr bók Geoffrey Richardson um bandarískar njósnastofnanir. Richardson sagði mér að hann vissi fyrir víst að á Miðnesheiði væri hlerunarloftnet sem nefndist AFRD-10 og væri það sérstaklega ætlað til að hlera fjarskipti skipa á Norður-Atlantshafi. Richardson sagði að njósnadeildin á Miðnesheiði heyrði beint undir Öryggismálastofnun sem hefur höfuðstöðvar nálægt Washington hér í Bandaríkjunum. Hún annast, eins og áður segir, hleranir á hvers kyns fjarskiptum um allan heim sem og úrvinnslu upplýsinga úr þessum fjarskiptum.``
    Þetta eru kaflar úr fréttinni sem lesin var í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Ég hef síðan farið yfir blöð á Norðurlöndum þar sem mál þessi hafa komið upp nú síðustu daga og umræða farið fram í norska Stórþinginu þar að lútandi. Ég vil hér leyfa mér að

spyrja hæstv. utanrrh. af tilefni þessa máls:
    1. Hvaða upplýsingar getur hæstv. utanrrh. veitt Alþingi Íslendinga um meinta njósnastarfsemi hérlendis á vegum deildar úr svonefndri Öryggismálastofnun Bandaríkjanna?
    2. Hefur utanrrn. haft vitneskju um slíka starfsemi?
    3. Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa vegna frétta um þessi efni?