Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans og fagna því að hann skuli sýna viðleitni til endurskoðunar á þessum ráðstöfunum. Það er vert að geta þess að eftir að tilvísanakerfið svonefnda var afnumið hafa sjúklingarnir átt frjálst val um að leita sér læknishjálpar og aðsókn að sérfræðingsþjónustu hefur aukist. Væntanlega telja menn að fleiri sjúklingar fari til sérfræðinga en þurfi og sú þjónusta er álitin dýrari fyrir heilbrigðiskerfið en heilsugæsluþjónusta þó það sé engan veginn nægilega skýrt.
    Á dögum aðhalds og sparnaðar er líklegt að áðurnefndar áherslur hafi verið lagðar í reglugerðarsmíðinni í því skyni að hvetja fólk til að leita fremur til heilsugæslu- og heimilislækna en sérfræðinga og draga þannig úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Þetta er skiljanleg viðleitni heilbrigðisyfirvalda en hins vegar hafa þeim orðið á glöp, þeim hefur orðið á í messunni.
    Í fsp. sem hér var mælt fyrir var ekki gagnrýnd sérstaklega þessi áherslubreyting út af fyrir sig en ég gagnrýni harkalega það óréttlæti sem sá hópur er beittur sem ég hef lýst og ég vil undirstrika að þetta er ákveðinn skilgreindur hópur sem verður sérstaklega hart úti við þessa reglugerðarbreytingu. Enda hefur það sýnt sig að margir sjúklingar eru farnir að fella niður nauðsynlegar komur til eftirlits og meðferðar vegna þess hversu dýrt þetta er. Og mér er spurn: Hvernig ætluðu heilbrigðisyfirvöld í raun og veru að meta það hvernig reglugerðarbreytingin reyndist? Hvernig ætluðu heilbrigðisyfirvöld að meta fjárhagsþrengingarnar sem fólkið lenti í eða áhrif vanrækslunnar á gang sjúkdómanna?
    Ég hlustaði grannt eftir þeim tillögum sem hæstv. ráðherra lagði fram. Það er auðvitað möguleiki í stöðunni að setja þak eða hreinlega fella niður gjaldtöku fyrir rannsóknir. Ég vona að hann íhugi alvarlega báða þessa möguleika en ég verð að ljúka orðum mínum með því að leggja fast að ráðherra að hafa í
framtíðinni meiri samráð bæði við samtök sjúklinga og starfsfólk á heilbrigðisstofnunum þegar verið er að gera róttækar breytingar. Mér hefur fundist skorta á það við samningu frv. og þegar verið er að gera breytingar hjá heilbrigðisyfirvöldum að nægjanlegt samráð sé haft við viðkomandi stofnanir eða hópa sem eiga síðan að taka þessum breytingum. Ég held að sú valddreifing sem felst í því að hafa samráð hljóti að verða til verulegra bóta og gera allar breytingar af hálfu heilbrigðisyfirvalda mun farsælli, bæði fyrir neytendur og fyrir stjórnvöld. En ég legg áherslu á það og mun fylgja því eftir að tekið verði á málunum á nýjan leik, þau endurskoðuð og þá í samræmi við óskir sjúklinga og samtaka þeirra sjúklinga sem hér er um að ræða.