Bifreiðastyrkir til fatlaðra
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 713 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um breytingu á reglugerð um bifreiðastyrki til fatlaðra. Árið 1987 voru settar reglur um þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra. Þar er frá því greint hversu oft og hve háa styrki má veita fötluðum til bílakaupa og einnig hversu gömul sú bifreið, sem styrkur fæst út á, má vera. Í 5. gr. þessarar reglugerðar segir að styrkirnir skuli vera skv. 1. tölul. 80 þús. kr., sé um að ræða fötlun, og skv. 2. tölul. 250 þús. kr., sé um að ræða mjög hreyfihamlað fólk sem notar hjólastóla, hækjur, spelkur, gervilimi eða önnur hjálpartæki. Þessar tölur eru þær sem settar voru í reglugerðina þegar hún var birt árið 1987. Greiðslur miðast við 600 bíla á ári skv. 1. tölul. en aðeins 50 skv. 2. tölul.
    Nefnd sú sem skipuð var til að úthluta þessum styrkjum hefur unnið vandasamt verk samviskusamlega en lent af og til í mestu vandræðum vegna þess að svo miklu fleiri hafa sótt um hærri styrkinn en heimild er til að úthluta. Nú í ár var t.d. þrautalending nefndarinnar eftir að hafa yfirfarið umsóknir og skorið niður að úthluta hærri styrknum til fleiri aðila en reglugerðin heimilar. Enginn fær þó styrk án þess að eiga að fullu rétt á honum.
    Annað er það sem skilyrt er í reglugerðinni, þ.e. að styrkur fæst aðeins út á nýjar bifreiðar. Nú er það í mörgum tilvikum svo að fatlaðir hafa ekki
möguleika á því að eignast nýja bíla einfaldlega vegna þess að það er þeim ofviða fjárhagslega þrátt fyrir möguleika á áðurnefndum styrkjum. Á markaðnum eru oft vel meðfarnar lítt eknar bifreiðar 2--3 ára gamlar sem gætu hentað og fullnægt þörfum þeirra sem vilja festa kaup á bíl á miklu lægra verði en nýjar bifreiðar. Því spyr ég hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hefur ráðherra uppi áform um að breyta reglugerð frá 22. apríl 1987, um þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra, hvað varðar þann fjölda sem árlega nýtur hærri styrksins, sbr. 2. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar, og í öðru lagi hvað snertir skilyrði fyrir úthlutun varðandi aldur þeirra bifreiða sem styrkur fæst út á, sbr. 4. tölul. 4. gr.?