Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér að fjalla í nokkrum orðum um þær miklu breytingar sem hafa orðið á umhverfi okkar Íslendinga og þau breyttu viðhorf sem slíkt krefst. Ég ætla mér að fjalla nokkuð um það frumkvæði sem við Íslendingar hljótum að hafa í því að móta okkar næsta umhverfi og að sjálfsögðu að ákveða hvaða stöðu við viljum hafa í þessu umhverfi. Ég vil með því fyrst og fremst andmæla m.a. þeirri stöðnun sem mér þótti koma fram í orðum hv. 1. þm. Suðurl. En ég hlýt nú áður en ég kem að þessu að fara nokkrum orðum um þær miklu áhyggjur sem hann virðist hafa, og virðist valda honum jafnvel vöku, af sundurlyndi því sem hann talar um í núv. ríkisstjórn. Það er að vísu afar þægilegt að geta flutt þessa sömu ræðu í öllum málum. Ég minnist þessarar ræðu t.d. í umræðu um efnahagsmálin fyrir rúmu ári. Nú eru að vísu hv. sjálfstæðismenn hættir að tala um efnahagsmálin og hljóta að viðurkenna að þrátt fyrir þetta ímyndaða sundurlyndi hefur núv. ríkisstjórn tekist æðimikið á því sviði.
    Hv. þm. lýsti m.a. miklum áhyggjum sínum út af því að í upphafi skýrslu utanrrh. er birt stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum. Ekki er mér fyllilega ljóst hvað í þeirri yfirlýsingu olli hans miklu áhyggjum. Í þessari yfirlýsingu er hvergi minnst á einstakar alþjóðlegar stofnanir heldur farið almennum orðum um þær. Það er ekki minnst á Sameinuðu þjóðirnar, ekki Atlantshafsbandalagið, ekki norræna samstarfið, ekki EFTA. Þar er hins vegar lögð áhersla á virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Ekki trúi ég því að það valdi hv. þm. áhyggjum því að þessi virka þátttaka í alþjóðlegu samstarfi var einmitt áhersluatriðið í utanríkismálum í þeirri ríkisstjórn sem hann leiddi, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987--1988.
    Og hv. þm. er að gera því skóna að einhver ágreiningur sé á milli mín og hæstv. utanrrh. Þetta er náttúrlega fleipur eitt því að þessari virku þátttöku
í alþjóðlegu samstarfi hefur verið haldið áfram á sömu braut og gert var í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Og ég vil segja það hér og nú og strax að ég kannast ekki við nein mikilvæg atriði í utanríkismálum þar sem ágreiningur er á milli mín og hæstv. utanrrh. Ég hef haft um þau mjög gott samráð og þarf svo sannarlega ekki undan því að kvarta.
    Ekki veit ég hvort það veldur hv. þm. áhyggjum að í þessari yfirlýsingu er lögð sérstök áhersla á virka þátttöku í afvopnunarmálum. Þetta má einnig rekja til ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, þar sem einmitt þessi virka þátttaka var stórlega aukin frá því sem áður hefur verið. Ég kannast heldur ekki við það að nokkur munur sé á því sem hæstv. utanrrh. og ég höfum, t.d. á alþjóðlegum vettvangi, sagt um þau mál. Ég hef á alþjóðlegum vettvangi hvað eftir annað lagt áherslu á afvopnun. Það hefur verið mín skoðun allt frá því að ég fór að hafa afskipti af stjórnmálum að unnt væri að leysa deilur á milli stórveldanna á annan máta en

að byggja upp kjarnorkuvopnabúnað. Ég vona að hv. þm. og sjálfstæðismenn allir geti fagnað því sem gerst hefur á þessu sviði og geti tekið undir það með okkur að sannarlega er betra að búa í heimi þar sem leitað er sátta við samningaborðið heldur en leitast við að tryggja friðinn með því að auka kjarnorkuvopnakapphlaupið. Og ég vona að hv. sjálfstæðismenn geti fagnað því að núv. utanrrh. og ég þegar ég var utanrrh. höfum reynt að taka virkan þátt í þessu tali um afvopnun. Ég er ekki að segja að við höfum ráðið þar miklu, en þó er alveg vafalaust að okkar rödd hefur heyrst svo að ég lýsi nokkurri undrun yfir því að hv. þm. skuli hafa svona gífurlega miklar áhyggjur af þeirri yfirlýsingu núv. ríkisstjórnar að hún hyggist halda áfram þeirri sömu stefnu sem tekin var upp 1987--1988, stefnu hinnar virku þátttöku í alþjóðlegum samskiptum og virkri þátttöku í afvopnunarmálum. Ég vona að mér hafi tekist að slá nokkuð á þessar miklu áhyggjur hv. þm. í þeim efnum.
    Hv. þm. bað mig að lesa bls. 50 í skýrslu utanrrh. um Atlantshafsbandalagið. Ég sé ekkert á þeirri síðu sem ég þarf að gera ágreining við. Ég hef aldrei nokkurn tíma lýst því yfir t.d. að þessir breyttu tímar krefjist þess að við Íslendingar göngum úr Atlantshafsbandalaginu. Ég hef hins vegar hvað eftir annað sagt að að sjálfsögðu hlýtur Atlantshafsbandalagið, eins og Varsjárbandalagið, að breytast. Ég vona að enginn sé svo staðnaður að honum sé ekki ljóst að með þeirri gjörbreyttu áherslu sem er í Evrópu nú, þar sem vígbúnaðarkapphlaupið er væntanlega að hverfa, þar sem verið er að ná samkomulagi, boða samkomulag á þessu ári um hefðbundin vopn, þar sem forseti Bandaríkjanna hefur gengið fram fyrir skjöldu og boðað stórkostlega fækkun í hefðbundnum vopnabúnaði, ég vona að öllum sé ljóst að þetta hlýtur að hafa áhrif til breytinga á Atlantshafsbandalagið eins og Varsjárbandalagið. Ég vona að ég megi ekki skilja orð hv. þm. svo að hann telji þrátt fyrir allt þetta að þar eigi engin breyting að verða. Þá er hann áreiðanlega einn af fáum sem því halda fram.
    Það sem ég hef sagt um Atlantshafsbandalagið er nákvæmlega þetta: Atlantshafsbandalagið á að hafa frumkvæði í þeim miklu breytingum sem eru að verða. Mér þótti um tíma að Atlantshafsbandalagið hefði það ekki og mér þóti
satt að segja ástæða til að hafa áhyggjur af því að leiðtogi Sovétríkjanna, Gorbatsjov, greip aftur og aftur frumkvæði í þeim efnum. Sem betur fer er þetta að breytast og Atlantshafsbandalagið hefur í sínum gerðum og sínum fundum nú tekið miklu meira frumkvæði í þeim málum en áður var og því vil ég fagna.
    Ég vil einnig biðja hv. þm. að lesa bls. 46 og 47 í skýrslu hæstv. utanrrh., þar sem fjallað er ítarlega um afvopnun á höfunum og þar sem m.a. kemur fram sá málflutningur sem við höfum báðir haft í frammi með okkar áherslu á það að afvopnun á höfunum verði með í þeim viðræðum um afvopnun sem

stórveldin hafa sín á milli. Ég kannast ekki við nokkurn áherslumun í ræðum okkar utanrrh. í þeim efnum. Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., sem ég vona að hv. þm. hafi einnig hlustað á, í orðum hans áðan um þá staðreynd, um þá sannfæringu okkar beggja að hin mikilvæga leið yfir Atlantshafið sé ekki síður tryggð ef fjarlægðir eru úr höfunum árásarkafbátar með kjarnorkuvopnum. Ég hef sjálfur haft tækifæri til að hlusta á og ræða við sérfræðinga á þessum sviðum sem hafa einmitt haldið því fram að með því að fjarlægja kjarnorkuvopn af höfunum og úr höfunum komi betur fram yfirburðastyrkur Atlantshafsbandalagsins í hefðbundnum vopnum. Við megum heldur ekki á þessu sviði vera of staðnaðir. Sem betur fer eru nú mikilvægir og áhrifaríkir menn á þessum sviðum farnir að tala þessari sömu röddu eins og kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. Maður eins og aðmíráll Crowe, sem neitaði þessu þegar hann var hér á landi fyrir skömmu, segir nú að sjálfsagt sé og nauðsynlegt að ræða um afvopnun á höfunum. Fyrrv. flotamálaráðherra í Bandaríkjunum, Nitze, hefur lengi haldið því fram að Bandaríkjamenn ættu að taka undir þær raddir sem krefjast afvopnunar eða fækkunar kjarnorkuvopna á höfunum. Svo að það er hárrétt sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að þessi skoðun fær aukið fylgi nú innan Atlantshafsbandalagsins og ég leyfi mér að treysta því að hv. sjálfstæðismenn verði með í þeim hópi.
    Hv. þm. vildi fá að vita það hvort Tíminn lýsti stefnu ríkisstjórnarinnar. Það vona ég að hann geri í langflestum tilfellum. Ég get hins vegar alls ekki tekið ábyrgð á einstökum skrifum Tímans fremur en hv. þm. getur tekið ábyrgð á öllum skrifum Morgunblaðsins. Mig minnir að Morgunblaðið hafi jafnvel birt skammargreinar um hv. þm. og hafi í sumum tilfellum lýst allt öðrum viðhorfum en ég hef heyrt hér á hinu háa Alþingi. Ég trúi því ekki að allar þær greinar séu undan rifjum hv. þm. runnar.
    Það sem Tíminn er að lýsa í því broti sem hv. þm. las er fyrst og fremst það að við erum að semja um þátttöku í efnahagssamstarfi Evrópuþjóðanna. Við erum ekki að leita eftir aðild að Evrópubandalaginu. Og efnahagssamstarf er náttúrlega og ekki síst frjáls verslun. Ég hef lýst stefnu ríkisstjórnarinnar oft í ræðu. Ég vona að hv. þm. hafi kynnt sér ræðu þá sem ég flutti á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna á sl. ári. Þar er lýst stefnu þessarar ríkisstjórnar í þeim samningum sem nú fara fram um þátttöku í efnahagssvæði Evrópu. Og allt sem hefur verið gert í framhaldi af þeim fundi hefur verið byggt á því sem þar er lýst, bæði þeim fyrirvörum sem þar er lýst og þeim vilja sem við Íslendingar höfum í þessu sambandi.
    Ég vona að ég hafi svarað þeim beinu spurningum sem til mín var beint og ég vona jafnframt að mér hafi tekist að draga nokkuð úr áhyggjum hv. þm. af því sundurlyndi sem hann telur vera innan núv. ríkisstjórnar. Það er aldrei hollt að ganga lengi með slíkar áhyggjur.
    Ég vildi hins vegar koma nokkuð að þeim miklu

breytingum sem eru að gerast í Evrópu og eins og ég sagði í upphafi, stöðu okkar í því sambandi. Ég hef lýst því og endurtek að að sjálfsögðu munu verða miklar breytingar á Atlantshafsbandalaginu hvort sem hv. sjálfstæðismönnum eða öðrum líkar betur eða verr. Þetta kemur fram aftur og aftur á fundum Atlantshafsbandalagsins og þeim yfirlýsingum sem þaðan koma og því ber að sjálfsögðu að fagna. En við Íslendingar hljótum einnig að spyrja sjálfir: Hver er staða okkar í öryggismálum Evrópu í ljósi þessara gerbreyttu tíma? Við hljótum að spyrja okkur að því sjálfir. Og við hljótum í raun að hafa frumkvæði í þeirri athugun. Við eigum ekki að láta segja okkur hver á að vera staða okkar í því öryggisneti sem ég efa ekki að verður í Evrópu jafnvel þótt gengið verði eins langt og nokkur maður getur vonað í þeirri afvopnun sem nú á sér stað og ég vona að þar verði gengið mjög langt. Ég efa ekki að það verður t.d. talið nauðsynlegt að hafa mjög öruggt eftirlit með framkvæmd þess samkomulags sem virðist vera í burðarliðnum og við skulum vona að sé. Og við Íslendingar erum þar að sjálfsögðu á ákaflega mikilvægu svæði í Norður-Atlantshafshafi. Hvert verður hlutverk okkar í því að hafa eftirlit með samkomulagi um afvopnun í og á höfunum, um umferð flugvéla t.d. á Norður-Atlantshafinu svo eitthvað sé nefnt.
    Ég hef velt því fyrir mér hvort við Íslendingar ættum ekki að biðja um og hafa frumkvæði að umræðu um þetta mál við okkar bandalagsþjóðir. Ég tel það mjög koma til greina og það verður að vera til þess hugsað. Þetta er mál sem sannarlega er verðugt fyrir Alþingi Íslendinga að ræða. Viljum við taka þátt í
því eftirliti sem nauðsynlegt verður? Mitt svar er já. Ég tel mjög mikilvægt að við Íslendingar tökum þátt í því. Og til þess að geta tekið þátt í því á markverðan hátt þurfum við vitanlega að skilja afar vel það sem er að gerast og taka virkan þátt í því sem er að gerast, bæði í orði og í verki, í orði t.d. á þeim mörgu fundum sem við sækjum nú alþjóðlega. Og til að geta lagt fram þar skýra skoðun á þessum málum þurfum við að hafa góða hugmynd um það sem við viljum að verði.
    Ég hef oft lýst því að ég vona að kalda stríðinu ljúki og ég trúi því að því sé að ljúka. Vissulega eru hættumerki. Vissulega getur orðið bakslag og vissulega geta menn sagt: Er ekki í raun farið svo hratt í þessum málum að slys geti orðið? Ég get ekki neitað því að á þessu sviði hef ég nokkrar áhyggjur svo að ég noti nú orð hv. 1. þm. Suðurl. (Gripið fram í.) Ja, mínar eru nú ekki næstum því eins miklar og þínar virtust vera hér áðan. Ég vona að mér hafi tekist, eins og ég sagði, að draga nokkuð úr þeim.
    Ég tel einna mikilvægast í allri þróun öryggismála að við Íslendingar gerum okkur sem gleggsta grein fyrir því sem þar er og stuðlum að því sem við viljum að þar verði. Í því sambandi hafa menn talað um varaflugvöll á Norðurlandi. Ég tel að það sé að sjálfsögðu á valdi utanrrh. hvort hann lætur fara fram

forkönnun á slíkum varaflugvelli. En er ekki líka ástæða til að spyrja hvort einhver breyting kunni að hafa orðið hjá Atlantshafsbandalaginu í þessum málum við þær miklu breytingar sem eru að verða allt í kringum okkur? Er þetta ekki eitt af þeim atriðum sem er verðugt að ræða? Ég hef satt að segja ekki heyrt þær áherslur af hálfu Atlantshafsbandalagsins á varaflugvöll nú eins og heyrðust áður. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að Atlantshafsbandalagið muni telja ástæðu til að endurskoða allar hugmyndir um varaflugvöll. En ég hygg að við ættum sjálfir að hafa frumkvæði að slíku.
    Ég vil taka það fram að ég tel allt öðru máli gegna að byggja varaflugvöll á Norðurlandi ef hann er ætlaður til þess að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra samninga sem nú er verið að gera. ( GHG: Þetta var okkar tillaga sjálfstæðismanna fyrir tveim árum.) Nú, var það ykkar tillaga? Það er gott að heyra að þið hafið sagt eitthvað af viti. (Gripið fram í.) Ég hef stundum haft áhyggjur af því, ég verð að viðurkenna það. En þetta er sem sagt einn af þeim þáttum sem þurfa að skoðast þegar rætt er um stöðu okkar í þessum gerbreytta heimi.
    Hér hefur sem von er verið rætt um samning okkar við Evrópubandalagið. Ég verð að viðurkenna að mér þykir nokkuð gáleysislega farið að af hálfu sjálfstæðismanna með þeirri miklu áherslu sem þeir enn leggja á tvíhliða formlegar viðræður við Evrópubandalagið um málefni okkar Íslendinga. Þarf ég raunar ekki að endurtaka það sem hæstv. utanrrh. hefur sagt í því sambandi. Að sjálfsögðu eru viðræður í gangi. Ákveðið er að ég muni eiga fund með Delors í Brussel 18. þessa mánaðar. Ég hef óskað eftir því að utanrrh. verði með mér
á þeim fundi og með Delors munu verða a.m.k. þrír ef ekki fjórir af framkvæmdastjórum Evrópubandalagsins. Þetta verður ákaflega mikilvægur fundur. Á þeim fundi gefst tækifæri til að undirstrika enn einu sinni vilja okkar Íslendinga í þessum samningum, undirstrika hverju við viljum ná fram og undirstrika þá fyrirvara sem ráðast af smæð landsins, sérstöðu þess í efnahagsmálum, legu þess o.s.frv. Og á þessum fundi skapast einnig tækifæri til þess að fjalla t.d. um yfirlýsingar utanríkisráðherra Dana. Eru þær studdar af Evrópubandalaginu? Við höfum grun um að svo sé ekki.
    Ég kemst ekki hjá því að segja nokkur orð um yfirlýsingar Dana. Þær hafa vakið nokkra undrun. Ég vil geta þess hér að á þessu sama bryddaði í viðræðum við forsætisráðherra Dana á Norðurlandaráðsfundinum hér nýlega, þótt ekki kæmu þær fram eins ákveðnar og þær hafa gert hjá Uffe Ellemann-Jensen. Mér sýnist vera augljós skýring á þeirri áherslu sem Danir leggja nú á fulla aðild Norðurlandanna að Evrópubandalaginu. Enginn efast lengur um það að þýsku löndin tvö muni sameinast og Austur-Þýskaland verður þar með aðili að Evrópubandalaginu. Ég hygg að enginn efist heldur um það að Austurríki muni fljótlega fá fulla aðild. Það hefur komið fram hjá fleiri aðilum í

Evrópubandalaginu að hlutleysið er ekki eins mikill þrándur í götu nú og það var áður talið. Þegar þetta gerist verða áhrif þýskumælandi aðila að Evrópubandalaginu afar mikil og ekki nokkur vafi á því, hygg ég, að Þýskaland verður áhrifamest innan þess bandalags. Ég hygg líka að flestir sjái fyrir sér að Suður-Evrópa muni að meira eða minna leyti verða ein blokk með Frakka í forustu innan Evrópubandalagsins. Og það er afar skiljanlegt að Danir hafi af því nokkrar áhyggjur hvar þeir muni staðsetjast innan þessa bandalags þegar það er svo breitt. Það hefur verið meira jafnræði milli ríkjanna innan Evrópubandalagsins en verður þegar þessi breyting hefur átt sér stað.
    Það er því afar skiljanlegt að Danir leggi á það áherslu að Norðurlöndin sameinist Evrópubandalaginu og styrki þannig norðurhluta þess. Ég tel að í þessu sambandi eigum við að svara skýrt og skorinort að okkar stefna er óbreytt. Við sækjum ekki eftir fullri aðild að Evrópubandalaginu og ég veit ekki annað en um það sé full samstaða hér á hinu háa Alþingi. Það er ekki í
myndinni fyrir okkur Íslendinga. Ekki kemur heldur til mála að við afsölum okkur yfirráðum yfir náttúruauðlindum okkar, hvorki til lands né sjávar. Það kemur ekki til mála að við hleypum Evrópubandalaginu inn í fiskveiðilögsögu okkar eða afhendum þeim orkulindir þessa lands. Það kemur heldur ekki til mála að við afhendum erlendum fjármagnseigendum innan Evrópubandalagsins yfirráð yfir bankakerfi þessa lands. Ég vona að um þetta allt saman sé full samstaða hér á hinu háa Alþingi.
    Vitanlega eigum við að svara utanríkisráðherra Dana með því að ítreka þessi sjónarmið. Við getum boðið Dönum upp á það að taka þátt í því sem lýst var í mjög fróðlegri grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu, hugmynd sem þar var birt eftir erlendan mann um framtíðarskipun Evrópu. Þar var talið að hún gæti orðið sú að Danir færu út úr Evrópubandalaginu og gengju inn í samtök Norðurlandanna og baltnesku landanna. Mér þótti þessi hugmynd afar athyglisverð og mér dettur í hug að hæstv. utanrrh. ætti að taka með sér ljósrit af þessari grein og gefa vini sínum Uffe Ellemann-Jensen. Mér heyrðist hann skilja töluvert íslensku í viðtali sem kom fram í sjónvarpinu. Getur ekki vel verið að allt það sem er að gerast í Evrópu geti einmitt orðið til þess að sú mynd sem þar var lýst verði að veruleika? Getur það ekki orðið? Er endilega öruggt að Evrópubandalagið gleypi Evrópu? Er öruggt að Þýskaland verði eitthvert ofurveldi innan slíks stækkaðs Evrópubandalags? Ég held að við þurfum líka að skoða þessar hugmyndir og gæti vel komið til mála að hreyfa þeim einmitt innan Norðurlandanna. Þarna er annað atriði þar sem við Íslendingar megum alls ekki fljóta sofandi að feigðarósi og verðum að skoða þá fjölmörgu möguleika sem felast í þeirri róttæku uppstokkun sem er að verða í Evrópu.
    Ég vil svo minnast nokkuð á það sem rætt hefur

verið um Litáen og í því sambandi m.a. á tillögu hv. sjálfstæðismanna. Ég vil taka fram strax að ég vona og trúi því að hún sé af þeirri hvöt einni flutt að hv. sjálfstæðismenn vilji leggja áherslu á viðurkenningu okkar á sjálfstæði Litáens. Ég tel hins vegar að það sé óþarft, eins og hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. Í örfáum orðum vil ég rekja það sem þar hefur gerst.
    Alþingi Íslendinga varð fyrst þjóðþinga til að fagna sjálfstæðisyfirlýsingu Litáa. Hæstv. utanrrh. varð fyrstur vestrænna utanrríkisráðherra til að kalla sendiherra Sovétríkjanna á sinn fund og fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands vara mjög eindregið við þeirri þróun sem virtist vera fram undan í Litáen sem Litáar sjálfir hafa sagt nú að kunni að verða afstýrt, þ.e. að vopnum verði beitt þar. En vitanlega er því ekki afstýrt og þegar orðið að Sovétmenn beita Litáa mikilli þvingun með þeim her sem þangað hefur verið fluttur. Síðan hefur komið fram að sendinefnd Litáa sem hefur verið í Osló hefur lýst nákvæmlega þeim sama skilningi og við Íslendingar höfum haft, að viðurkenning á sjálfstæði sem Danir veittu fyrir hönd okkar Íslendinga árið 1921 sé í fullu gildi. Út af því sem kom fram hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni vil ég upplýsa hér að ég hef verið fullvissaður um það að Danir hafi þá gert það fyrir hönd Danmerkur og Íslands og að það hafi komið greinilega fram. Sömuleiðis voru í framhaldi af þeirri yfirlýsingu gerðir a.m.k. tveir viðskiptasamningar við sjálfstætt Litáen. Þannig að við sýndum það líka í verki að sú viðurkenning var fullkomlega virt og hélt gagnvart okkur Íslendingum.
    En sú spurning vaknar, ef við förum nú að gefa út yfirlýsingu um viðurkenningu á sjálfstæði Litáens, erum við þá að afturkalla þá yfirlýsingu sem var gefin 1921 fyrir okkar hönd og við höfum aldrei til þessa efast um? Ég vil leggja mjög mikla áherslu á það að við Íslendingar gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að þróun mála í Litáen geti orðið þeirri þjóð sem allra best. Og við eigum vitanlega að taka því eins og við frekast getum sem kemur fram í bréfi til forseta Íslands, að veita Litáen þá aðstoð efnahagslega og á hverju öðru sviði sem við frekast getum. Það getur vel verið að smæð þessarar þjóðar valdi því að við getum ekki gert þar stóra hluti. En eftir því er tekið ef við gerum það á réttan máta.
    Ég get einnig tekið undir það sem hefur komið fram að menn hafa undrast nokkuð hvers vegna Bandaríkjamenn og Svíar eru svo hikandi í sínum stuðningi við Litáa. Þó hygg ég að á því séu mjög ákveðnar skýringar. Og ég vek athygli á því að það eru ekki bara Bandaríkjamenn heldur líka Þjóðverjar, Bretar, Frakkar. Þessar þjóðir hafa varla sagt nokkuð sem styður Litáa svo að marktækt sé í þeirra sjálfstæðisbaráttu. Það sem ræður hjá þessum þjóðum er vitanlega sú hugsun að valda ekki þeim óróa innan Sovétríkjanna sem kynni að leiða til þess að Sovétríkin teldu sig knúin til að beita vopnavaldi í Litáen og berja þetta niður sem fyrst. Vitanlega er það von þessara þjóða að perestrojka og glasnost megi þróast á eðlilegan máta. Vitanlega er ekkert annað

sem þarna ræður. Og af því að hv. sjálfstæðismenn hafa nú ætíð lagt svo mikla áherslu á samráð innan Atlantshafsbandalagsins vil ég í þessu tilfelli í raun taka undir þau orð þeirra að í þessu máli hygg ég að við eigum að hafa samráð við bandalagsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta er einmitt mál sem þar á að ræða. Atlantshafsbandalagið á að hafa samstöðu um viðurkenningu og stuðning við Litáen. Verður það eflaust tekið upp á fundum þar fljótlega. Ég
tel þess vegna að ný yfirlýsing okkar Íslendinga eða viðurkenning á sjálfstæði Litáens sé óþörf og legg áherslu á að í þessum málum verði farið þannig að að ekki valdi hinni litáisku þjóð tjóni. Vitanlega er það ekki ætlun nokkurs manns.
    Ég skal ekki hafa um þetta miklu lengri ræðu. Ég vil einnig taka undir ánægju með skýrslu utanrrh. og leggja á það mikla áherslu að um hana er samstaða í ríkisstjórninni. Ég kannast ekki við ágreining um þessa skýrslu, enda hefur hann hvergi nokkurs staðar komið fram. En að sjálfsögðu, þegar mismunandi flokkar starfa saman eru mismunandi áherslur. Svo var í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og svo hefur verið í öllum ríkisstjórnum sem ég hef kynnst. Hins vegar veldur þessi stöðuga áhersla á ágreining innan ríkisstjórnarinnar af hálfu hv. þm. Þorsteins Pálssonar mér áhyggjum, ef ég má nota hans eigin orð. Staðreyndin er að við höfum náð samstöðu í máli eftir mál, mjög erfiðum málum, ágreiningsmálum. Okkur hefur m.a. tekist að leiða þjóðina út úr þeim efnahagserfiðleikum sem við höfum staðið frammi fyrir um nokkurn tíma. Meira að segja svo langt að aðilar vinnumarkaðarins segja að nú sé borð fyrir báru. Við sjáum fram á ástand í efnahagsmálum á næstu mánuðum og árum vonandi sem er áður óþekkt hér á landi.
    Þannig mun þessi ríkisstjórn starfa áfram. Hún mun starfa áfram að því að jafna og leysa þann skoðanamun sem vissulega kann að vera innan ríkisstjórnarinnar í einstökum málum og hafa þá þjóðarheill að leiðarljósi. Í utanríkismálum munum við hafa þjóðarheill í huga og við munum hafa þar í huga sjálfræði okkar Íslendinga og við munum leggja áherslu á að við Íslendingar tökum virkan þátt, eins og segir í okkar stefnuyfirlýsingu, í alþjóðlegu samstarfi. Að við tökum áfram virkan þátt í afvopnunarviðleitni þjóðanna og við gerum það sem við getum, þótt við séum lítil þjóð, til að stefna þróun mála á erlendum vettvangi og alheimsvettvangi inn á heillavænlegar brautir.