Utanríkismál
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Síðasta ár hefur um margt verið viðburðaríkt á sviði utanríkismála. Á undanförnum árum hefur verið að birta til í samskiptum risaveldanna og í afvopnunarmálum. Þótt margir hafi verið bjartsýnir og bundið miklar vonir við þær breytingar í lýðræðisátt sem eiga sér stað í Sovétríkjunum á síðustu árum held ég að fáa hafi órað fyrir þeim breytingum sem orðið hafa í Mið- og Austur-Evrópu á síðustu mánuðum.
    Allt frá stríðslokum hefur heiminum verið skipt upp í tvö svæði sem að meira eða minna leyti hafa verið undir áhrifum risaveldanna tveggja. Sovétmenn og Bandaríkjamenn hafa hingað til verið allsráðandi um vígbúnað, hvor á sínu svæði. Afvopnunarviðræður og samningar um eyðingu vopna hafa stjórnast af vilja risaveldanna til að fækka vopnum. Meira að segja koma ríki Evrópu varla nærri þegar samningar um takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar í Evrópu hefur verið til umræðu. Starf friðarhreyfinga, starf fólksins sjálfs hefur þrýst stöðugt á að sest verði að samningaborði og ég er sannfærð um að þeirra starf hefur haft mikið að segja til að ýta risaveldunum til samninga um afvopnun. Fólk vill ekki hervæðingu, það vill ekki að öllu þessu fé sé veitt í vígvélar. Það er aðeins hugarfóstur fárra hernaðarsinna að vígbúnaðaruppbyggingin sé nauðsynleg til að friði verði komið á í heiminum.
    Nú hafa gerst þau stórmerki að stjórnvöld í Sovétríkjunum eru hætt að líta á það sem hlutverk sitt að skipta sér af innanríkismálum landa utan sinna landamæra, eins og gerðist t.d. í Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi og Afganistan. Það er grunnurinn að því að þjóðirnar geta lyft af sér okinu, hafnað miðstýringu og einveldi og krafist lýðræðislegra stjórnarhátta. Þessu megum við ekki gleyma.
    En hvað er fram undan hjá þessum þjóðum? Hvernig tekst þeim að vinna úr þeim breytingum sem orðið hafa? Það sem hlýtur að vekja bjartsýni í hugum allra er
að með breyttum áherslum í austurhluta Evrópu verði afvopnun og varanlegur friður nær en vonir stóðu til fyrir aðeins nokkrum árum. Óvinaímyndin hverfur og ekki þarf lengur að magna upp þá mynd að Varsjárbandalagið og NATO þurfi að vígbúast hvort gagnvart öðru með stórveldin í broddi fylkingar og helst að geta tortímt heiminum mörgum sinnum með þeim vígbúnaði sem þau ráða yfir. Maður skyldi ætla að nú kæmu fram breyttar áherslur í skýrslu utanrrh. til Alþingis og því sem ríkisstjórnin hefur markað, vonandi í ljósi atburða liðinna mánaða. En nei, því miður.
    Við lestur skýrslunnar er varla hægt að segja að maður fyllist bjartsýni. Ekki ber mikið á friðarvilja. Hernaðarumsvif hér á landi hafa aukist á undanförnum árum. Nýjar vígvélar, olíuhöfn, ratsjárstöðvar og flugskýli sem þola kjarnorkuvopn bera vott um að Ísland er notað sem víghreiður. Þrátt fyrir að risaveldin virðast nú ekki lengur skipta með sér

heiminum jafnbróðurlega og áður er Ísland eftir sem áður möskvi í hernaðarnetinu sem við höfum flækst æ fastar í. Nú hafa hernaðarsérfræðingar fundið út að áróðurslega sé best að kalla herstöðina ekki varnarstöð lengur, þar sem ekki sé svo auðvelt að sannfæra fólk um að óvinurinn muni koma og ráðast á það. Nú á herstöðin að heita eftirlitsstöð til að auðveldara sé að réttlæta veru hersins í landinu. Og til að kóróna allt er lagst svo lágt að biðja NATO að byggja einn herflugvöll enn hér á landi.
    Í skýrslu ráðherrans er tekið fram ,,að þær breytingar, sem orðið hafa og eru um það bil að eiga sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu, gefi Íslendingum ekki tilefni til að hrófla við því fyrirkomulagi, sem þeir hafa stuðst við í öryggis- og varnarmálum undanfarna áratugi``, svo vitnað sé orðrétt í skýrsluna. Telur hæstv. ráðherra enga ástæðu til að endurskoða stöðu okkar í því hernaðarneti sem við erum flækt í? Á þingi Sameinuðu þjóðanna þurftum við, eitt árið enn, að sitja undir því að Ísland greiddi ekki atkvæði, eitt Norðurlanda, með tillögu um stöðvun allra kjarnorkutilrauna og tillögu um stöðvun á framleiðslu kjarnavopna. Hvernig í ósköpunum er hægt að skýra slíka afstöðu?
    Íslendingar með hæstv. utanrrh. í broddi fylkingar hafa vakið máls á því á vettvangi NATO og víðar að afvopnun í og á höfunum sé ekki síður mikilvæg en afvopnun á landi. Fyrir okkur sem lifum á auðlindum hafsins er það grundvallaratriði að afvopnun á og í höfunum verði samhliða afvopnun á landi. Mér þótti þess vegna slæmt að sjá að ráðherrann telur ekki þörf á þessum viðræðum strax heldur telur í lagi að bíða þangað til að loknum viðræðum um
fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu. Það er því spurning hvort í reynd hefur nokkuð verið gert af Íslands hálfu til að þrýsta á kjarnorkuafvopnun í höfunum. Ekki hef ég heyrt að hæstv. utanrrh. styðji þá sem eru að vinna að því að Norðurlöndin verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Það er kominn tími til að íslensk stjórnvöld taki á sig rögg og hlusti á það sem fólkið í landinu hefur að segja. Engin kjarnavopn á Íslandi og kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Auðvitað væri best að svæðið væri stærra en fyrsta skrefið gefur von um það næsta.
    Í fylgiskjali 9 í skýrslu utanrrh. er birt samþykkt leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins frá því í maí 1989. Í henni er ekki að sjá mikinn vilja til afvopnunar. Þar kemur fram svo mikil hernaðarhyggja að manni verður illt af að lesa það. Allt byggist á þeirri kenningu að halda þurfi uppi nægilegum herstyrk til að koma í veg fyrir styrjöld. Það mætti halda að blessaðir mennirnir sem standa að þessari samþykkt telji að mannkynið muni lifa af kjarnorkustyrjöld.
    Kvennalistakonur eru andvígar hugarfari hermennskunnar. Okkur ber að stöðva allar hernaðarframkvæmdir hér á landi þegar í stað og stefna að friðlýsingu Íslands án vígbúnaðar. Við verðum að gera það upp við okkur hvert við stefnum. Í mínum huga er enginn vafi á því hvert við eigum

að stefna og ég er sannfærð um að meiri hluti þjóðarinnar er mér sammála. Okkar verkefni er að uppræta hugarfar hermennskunnar í stað þess að ala á því eins og gert hefur verið hingað til af ráðandi öflum.
    Þrátt fyrir mikla bjartsýni sem ríkir um þróunina í austurhluta Evrópu er því ekki að neita að ástandið er mjög brothætt. Óþolinmæði fólks eftir breytingum er mikil og ekki víst að þeir sem kosnir eru til að stjórna geti ráðið við þann hraða sem kröfurnar eru um. Margir sem búið hafa við áralanga kúgun og ófrelsi halda að vestan járntjaldsins, sem svo var kallað, séu allir hamingjusamir og sælir og að ekkert bágt sé þar að sjá. Það tekur auðvitað tíma fyrir fólk að átta sig á hverju það er í raun að sækjast eftir og hvað þurfi að leggja á sig til að ná því fram. Fáir hefðu trúað því fyrir aðeins örfáum mánuðum að sameining þýsku ríkjanna væri á næsta leiti. Enginn þarf að halda að hún gangi fyrir sig eingöngu með jákvæðum breytingum fyrir alla. Fyrir kosningarnar í Austur-Þýskalandi á dögunum bárust fréttir af því að konur þar í landi hefðu borið fram sérstakan kvennalista í kosningunum. Ástæðan var að sögn fyrst og fremst sú að eftir að ný stjórn tók við með nýjar áherslur varð þeim fyrst fyrir að skerða rétt kvenna og barna. Loka átti barnaheimilum, hætta við skólamáltíðir, hætta að greiða einstæðum mæðrum húsaleigustyrk og fleira í þeim dúr. Varla getum við setið hér uppi á Íslandi og fagnað slíkum ráðstöfunum. Það er dálítið kaldhæðnislegt að frelsið sem menn hafa þráð svo og fagnað skuli þýða skerðingu á frelsi kvenna að vissu leyti.
    Sumar þjóðir, t.d. Pólverjar, hafa reynt að feta slóðina varlega. Litið til allra átta og virðast meta það svo að eftir áralanga miðstýringu fámennrar valdaklíku sé rétt að fara ekki of hratt. Þeir hafa reynt að rétta við efnahag landsins með aðstoð annarra ríkja án þess að taka kollsteypur. Þeir vilja fara sínar eigin leiðir. Aðrir eru óþolinmóðir og vilja fá allt strax án þess e.t.v. að sjást fyrir í ákafanum. Við eigum að styðja við bakið á þessum þjóðum eins og okkur frekast er unnt. Þó við séum hvorki stór né öflug þjóð getum við haft jákvæð áhrif. Ég er sannfærð um að aukin samskipti við þjóðir Austur- og Mið-Evrópu á ýmsum sviðum hafa ekki bara jákvæð áhrif fyrir þær heldur ekki síður fyrir okkur sjálf. Þegar Litáar lýstu yfir sjálfstæði sínu brást Alþingi skjótt við og sendi heillaóskaskeyti til þeirra. Auðvitað eigum við að styðja þjóðir sem eru að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Okkur ber að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða og gera allt sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á að ekki sé beitt vopnavaldi í deilum þjóða.
    En það er víðar en í Austur- og Mið-Evrópu sem fólk berst fyrir frelsi og sjálfstæði. Ekki síður þurfum við að beita áhrifum okkar til að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé virtur annars staðar. Í Mið-Austurlöndum er þjóð sem berst fyrir sjálfstæði sínu og viðurkenningu annarra á tilverurétti sínum. Ég heyrði ekki að þeir sem á undan mér töluðu hefðu áhyggjur af þessu fólki. Kafli V á bls. 37 í skýrslu utanrrh. vekur mikla

furðu. Mannréttindabrot Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum í Mið-Austurlöndum eru aðeins áhyggjuefni, að dómi ráðherrans. Veit ráðherrann hvað þarna hefur átt sér stað? Nú er ég ekki viss hvort ráðherrann heyrir orð mín. ( Utanrrh.: Hann hlustar, hann stendur hér við hátalarann.) Gott. ( Gripið fram í: Er ekki nógu gott að vera í salnum?) Nei, það getur verið vont að vera í salnum.
    Veit ráðherrann að ísraelskir hermenn hafa drepið um 150 börn undir 16 ára aldri? Veit hann að ísraelsk yfirvöld hafa meinað öllum börnum í Palestínu að stunda skólanám sl. 18 mánuði? Veit hann að allir sex háskólarnir á herteknu svæðunum hafa verið lokaðir samkvæmt skipun hersins í meira en tvö ár? Veit hann að aðeins íbúar herteknu svæðanna sem lúta gyðingatrú hafa kosningarrétt og lúta borgaralegum dómstólum? Allir hinir hafa engan pólitískan rétt og lúta herlögum. Hús eru jöfnuð við jörðu til að refsa heilum fjölskyldum fyrir meintar andófsaðgerðir einstakra meðlima. Heil þorp eru sett í herkví dögum eða vikum saman, uppskera bænda er eyðilögð og fleira og fleira. Frásagnir af hinum ótrúlegustu hrottaaðgerðum eru birtar daglega í Ísrael og þykja ekki lengur merkilegar.
    Í þessum sama kafla, V. kafla, er staðhæft að nágrannaríki Ísraels viðurkenni ekki tilverurétt þess. Ég veit ekki betur en að Arabaríkin, þar með talin Palestína eða PLO, styðji tillögu um alþjóðlega friðarráðstefnu um
Austurlönd nær á grundvelli samþykktar Sameinuðu þjóðanna og hafa stutt ályktanir Sameinuðu þjóðanna um friðsamlega lausn deilunnar. Ísland hefur m.a. greitt atkvæði með þannig tillögum eins og t.d. tillögu á allsherjarþinginu 6. des. sl. Í þessari tillögu felst viðurkenning á tilverurétti Ísraelsríkis.
    Hvað á ráðherrann við þar sem sagt er að PLÓ hafi lýst yfir stofnun Palestínuríkis með einhliða yfirlýsingu, eins og tekið er til orða í þessum kafla? Var Ísraelsríki ekki einnig stofnað með einhliða yfirlýsingu? Og ekki kom það í veg fyrir að Ísland viðurkenndi Ísrael mjög fljótt. Bæði ríkin voru stofnuð á grundvelli ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóv. 1974 þar sem lagt var til að Palestína verði tvö aðskilin ríki, ríki Palestínuaraba og ríki gyðinga. Ég hafði vonað að með samþykkt tillögu nr. 42 á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna væri lausn á Palestínuvandamálinu í sjónmáli. En því miður virðist ekki vera samstaða um að fallast á samþykkt Sameinuðu þjóðanna og þá tillögu sem þar er lögð til.
    Mér er alveg óskiljanlegt hvers vegna hæstv. ráðherra minnist ekki á þessa tillögu og virðist eins og hann viti ekki að hún hafi verið samþykkt. Eða hvernig á að skilja öðruvísi það sem stendur í kaflanum um Mið-Austurlönd orðrétt, með leyfi forseta: ,,Á árinu 1989 komu fram þrjár tillögur um lausn mála á herteknu svæðunum.`` Ég get ekki séð að ein af þessum þremur sé sú tillaga sem var samþykkt hjá Sameinuðu þjóðunum. Ísland greiddi þeirri tillögu atkvæði en aðeins þrjú lönd greiddu atkvæði gegn

henni.
    Til upprifjunar, eða e.t.v. upplýsinga, langar mig til að drepa á nokkur atriði í tillögunni og nota ég þá skýrslu um þátttöku Íslands á 44. allsherjarþinginu. Ég les einungis hluta af tillögunni. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Kölluð verði saman alþjóðleg friðarráðstefna um Mið-Austurlönd með þátttöku allra deiluaðila, þar með talin frelsishreyfing Palestínu, PLO, auk hinna fimm föstu meðlima öryggisráðsins.`` Síðan eru talin upp þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir friði: Brottflutningur Ísraelsmanna frá landsvæðum í Palestínu sem hernumin voru 1967, tryggt sé öryggi allra ríkja á svæðinu, þar með talin þau sem nefnd eru í ályktun 181 frá 29. nóv. 1974, innan öruggra landamæra sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu. Leyst verði vandamál Palestínuflóttamanna í samræmi við ályktun allsherjarþingsins nr. 194 frá 11. des. 1948 og síðari ályktanir þar um. Rifnir verði niður bústaðir Ísraelsmanna á landsvæðum sem hernumin hafa verið síðan 1967.
    Ég velti því fyrir mér hvers vegna það er ekki minnst á þá merkilegu tillögu sem þarna var samþykkt. Það voru einungis þrjár þjóðir sem greiddu atkvæði gegn henni en 137 þjóðir greiddu atkvæði með. Og eins og ég sagði áðan var Ísland þar á meðal. Er það af ásettu ráði sem ekki er minnst á þetta eða hvað liggur að baki?
    Ég vil einnig benda á að nú þegar hafa 92 ríki viðurkennt Palestínu, þar á meðal Austurríki sem er eitt af EFTA-ríkjunum. Mörg önnur ríki, þar á meðal Frakkland, Spánn, Ítalía, Írland og Grikkland hafa lýst því yfir að þau styðji rétt Palestínumanna til eigin ríkis á herteknu svæðunum en vilja enn ekki viðurkenna það af ýmsum réttarfarslegum ástæðum. En ég tel eðlilegt að Ísland sláist í hóp þeirra ríkja sem viðurkenni rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunarréttar og til ríkis síns þannig að við þurfum ekki að horfa lengur upp á það sem þarna er að gerast. Með því leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að friður geti orðið í þessum heimshluta. Ég býst fastlega við að allir geti fallist á að viðurkenning Íslands á tilverurétti og sjálfstæði Palestínu sé ekki síður mikilvæg en stuðningur okkar við sjálfstæðisviðleitni annarra ríkja, þó að nær okkur séu.
    Ég vona að sá neikvæði andi gagnvart Palestínumönnum sem fram kemur í skýrslu ráðherra endurspegli ekki viðhorf ríkisstjórnarinnar í heild. Ég vona einnig að hæstv. utanrrh. taki sig á í þessum efnum og viðurkenni PLO sem réttmætan fulltrúa palestínsku þjóðarinnar og rétt Palestínumanna til eigin ríkis á herteknu svæðunum. Það kom mér satt að segja mjög á óvart hér áðan að hv. þm. Þorsteinn Pálsson skyldi ekki vilja virða sjálfstæðisyfirlýsingu og yfirlýsingu um stofnun eigin ríkis Palestínumanna á sama hátt og hann vill virða sjálfsagðan rétt Litáa til sjálfstæðisyfirlýsingar. Ég átta mig ekki alveg á samhenginu þar á milli og þykir slæmt að hann skuli ekki vera í salnum hérna til þess að hlýða á það sem ég hef að segja.

    Mönnum hefur orðið tíðrætt um hrun hins miðstýrða kerfis sem kennt hefur verið við Marx og Lenín í austurhluta álfunnar. Það vekur athygli að á sama tíma og það kerfi hrynur til grunna er í uppsiglingu annað og ekki síður miðstýrt kerfi en það sem mest hefur verið fordæmt í Austur-Evrópu og nú er sem betur fer að falli komið. Þar á ég við stofnun stórríkis, sem kallað hefur verið Evrópubandalagið, þar sem fjármagnið og veldi fjölþjóðahringa er allsráðandi. Bandalagið er ekki samstarfsvettvangur sjálfstæðra þjóða því að með inngöngu afsala þjóðirnar sér verulegum hluta af sjálfstæði sínu til yfirstjórnar í Brussel. Evrópubandalagið er þannig að verða stórríki með mikla miðstýringu. Stjórnkerfi Evrópubandalagsins er langt frá því að vera
lýðræðislegt. Þó ekki væri nema vegna skorts á lýðræði innan Evrópubandalagsins tel ég ekki koma til greina að Ísland gerist hluti af því.
    En fleira kemur til. Mörg ákvæði Rómarsáttmálans eru óaðgengileg og það er ekki síst fiskveiðistefna bandalagsins sem Íslendingar munu aldrei geta sætt sig við. Þó fáir taki undir það að Íslend eigi að gerast aðili að Evrópubandalaginu er verið að vinna að því leynt og ljóst að tengja Ísland stórríkinu mjög föstum böndum og gæti þá orðið skammt í inngöngu. Þar á ég við aðild Íslands að evrópsku efnahagssvæði sem nú er rætt á milli EB og EFTA. Kjarninn í hugmyndunum um evrópskt efnahagssvæði er að yfirfæra innri markað Evrópubandalagsins á EFTA-svæðið, þ.e. hið svokallaða fjórfrelsi sem felur í sér óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki. Þetta á að leiða til aukinnar hagkvæmni, aukins hagvaxtar og fleira er jákvætt þykir í þessum heimi. En málið er ekki svo einfalt þegar nánar er að gáð og hömlulausir fjármagnsflutningar til og frá Íslandi og erlend fjármálaþjónusta mun fljótt leiða til þess að erlendir aðilar ná tökum á íslensku efnahagslífi, einnig sjávarútvegi og fiskvinnslu.
    Það hefur verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnmálaflokka, hingað til a.m.k., að réttur yfir náttúruauðlindum og nýting þeirra skuli vera í höndum Íslendinga, þó svo margir telji að hleypa eigi útlendingum inn í íslenskt atvinnulíf að öðru leyti. Flestir þeirra sem ég hef heyrt tjá sig um þetta mál hingað til telja hins vegar að ekki verði hægt að koma í veg fyrir að útlendingar geti náð tökum á sjávarútvegi og fiskvinnslu jafnt og öðrum þáttum ef fjármagnsflutningur og fjármálaþjónusta verði óheft á milli Íslands og annarra landa.
    Það sem hefur skýrast komið fram í afstöðu fólks til Evrópubandalagsins er andstaðan við það ólýðræðislega kerfi sem þar er að byggjast upp. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi í afstöðu þeirra kvenna sem ég hef rætt við um þessi mál. Konur eiga erfitt með að hafa áhrif í öllum ríkjandi stjórnkerfum en þó hafa þær meiri áhrif innan smærri eininga. Miðstýrt fámennisvald hentar þeim mjög illa. Því er ég viss um að það er mjög gegn vilja meiri hluta íslensku þjóðarinnar að sameinast stórveldi eins og því sem Evrópubandalagið er að verða. Ég tel því að

hagsmunum Íslands sé ekki best fyrir komið með því að tengjast Evrópubandalaginu með þeim hætti sem nú er stefnt að. Aðalhagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, niðurfelling tolla á unnum sjávarafurðum, er ýtt til hliðar og á að bíða með að fjalla um það þangað til öðrum samningamálum er lokið. Alla vega hefur það ekki komið upp á borðið enn. Við eigum að líta til allra átta með viðskipti okkar en ekki binda okkur eingöngu við einn markað.
    Á undanförnum árum hefur útflutningur okkar til Bandaríkjanna dregist verulega saman. Þessu þarf að breyta. Möguleikar okkar til útflutnings til Austur-Asíu eru einnig miklir að mínu mati. Við megum ekki binda okkur eingöngu við eitt svæði heldur verðum að leita víðar. Það getur verið okkur dýrkeypt að binda okkur bara við einn markað, þó stór sé.
    Samskipti okkar við Evrópubandalagið hafa hingað til verið margvísleg á grundvelli svokallaðrar Lúxemborgaryfirlýsingar. Yfir 20 samstarfsverkefni hafa verið í gangi og er engin ástæða til að ætla að þau geti ekki haldið áfram þó Ísland gerist ekki aðili að hinu evrópska efnahagssvæði eða Evrópubandalaginu eins og það leggur sig.
    Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. áðan að aðstoð okkar til þróunarlanda er skammarlega lítil. Á undanförnum árum hefur hlutur okkar verið svo rýr að varla hefur dugað til allra brýnustu skuldbindinga sem við höfum tekið að okkur. Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir mun hér síðar í umræðunni gera þennan þátt að frekara umtalsefni.
    Marga fleiri þætti hefði ég viljað gera að umtalsefni varðandi þessa skýrslu utanrrh. en ég ætla ekki að gera það nú. En mig langar, virðulegur forseti, að ljúka máli mínu með því að lesa lítið brot úr stefnuskrá Kvennalistans, hluta af kaflanum um friðar- og utanríkismál. Þar segir:
    ,,Íslendingar hafa aldrei borið vopn á aðrar þjóðir. Því er eðlilegt að við gerumst boðberar friðar og afvopnunar í heiminum og látum til okkar taka á alþjóðavettvangi sem friðflytjendur, ekki síst vegna þess að við búum mitt á milli risaveldanna tveggja. Valdbeiting, ofbeldi og virðingarleysi við allt sem lífsandann dregur hefur um of verið ríkjandi við stjórnun heimsins. Að baki liggur hugarfar sem er í hrópandi andstöðu við menningu kvenna sem þiggur lífskraft sinn frá endurnýjun lífsins, verndun þess og viðhaldi. Kvennalistinn vill breyta þessu hugarfari. Við verðum að byrja á okkur sjálfum og þeim sem næst okkur standa en beina síðan sjónum út í hinn stóra heim.
    Íslenskar konur hafa vakið athygli um allan heim vegna aðgerða sinna og nýrra hugmynda í kvenfrelsisbaráttu. Við eigum erindi við heiminn og því er brýnt að efla samskipti við allar þjóðir.``