Flm. (Sverrir Sveinsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um könnun á gerð jarðganga og vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla sem ég flyt hér ásamt Halldóri Blöndal, Jóni Sæmundi Sigurjónssyni, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, Ragnari Arnalds, Árna Gunnarssyni og Pálma Jónssyni. Þáltill. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta Vegagerð ríkisins kanna í samráði við sérfróða aðila lagningu vegar og gerð jarðganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjörð.
    Við könnun þessa skal m.a. hafa í huga hagkvæmni jarðgangagerðar borið saman við aðra valkosti og hafa sérstaklega hliðsjón af stofnkostnaði, notagildi, viðhaldskostnaði, byggðaþróun, félagslegum sjónarmiðum, samtengingu þéttbýlisstaða og styttingu vega.``
    Til að glöggva hv. þingmenn á staðháttum á því svæði sem þáltill. gerir ráð fyrir að athugun fari fram á vil ég lesa kafla úr sóknarlýsingu Hvanneyrarprestakalls sem gerð var af séra Jóni Sveinssyni sem var prestur í Hvanneyrarsókn fyrir rúmum 120 árum, eða 1845--1867, með leyfi forseta:
    ,,Að norðan og vestanverðu Eyjafjarðar eru þrír smáfirðir. Þeir skerast inn í landið hver út og vestur af öðrum og skaga út austanvert við hánorður. Afar brattir, háir og víðast hvar illgengir fjallahryggir á millum hvers þeirra. Er
útskaginn eða höfðinn á þeim fjallshryggnum sem næstur er Eyjafirði nefndur Ólafsfjarðarmúli. Tekur þá við Ólafsfjörður. Er þar byggð talsverð og því eitt prestakall. Þar skagar út annar fjallgarður. Er höfði hans eður ysta tá kallaður Hvanndalabjarg og skilur höfði sá prestaköllin. Tekur þá við Hvanneyrarprestakall. Liggur það yst og vestast í Eyjafjarðarsýslu og skagar byggð sú lengst mót sæ út hánorður austanvert. Til þessa prestakalls heyra hinir tveir af hinum umgetnu þremur fjörðum. Er sá nefndur Héðinsfjörður er næstur skerst inn vestanmegin Hvanndalabjargs. Vestan við þann fjörð skagar aftur út fjallshöfði mikill sá er Hestfjall er nefndur. Þá strax að vestan við svonefndan Reyðarárdal er annar höfði, þó grein af sama fjallgarði er Siglunesmúli er nefndur. Nú skerst inn hinn þriðji og vestasti nefndra fjarða, heitir sá Siglufjörður. Þá skagar enn út vestan þess fjallgarðar fjallgarður sá er vestastur er sýslunnar mót sæ út. Skerst þar inn mót hafi byggð ein lítil er Úlfsdalir heita. Er milli hennar og Siglufjarðar höfði sá er Hvanneyrarstrákar nefnast, þverhníptir sjóvarhamrar eins og Hestfjall Héðinsfjarðarmegin. En vestan Úlfsdala er aftur höfði kallaður Mánárhyrna og Mánárskriður og aðskilja þær sýslurnar, nefnilega Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslur.
    Vegir innan um sóknina eða úr henni til næstu sveita eru víðast hvar illir yfirferðar, liggja þeir annað hvort með bröttum fjallshlíðum fram eða yfir snarbrött fjöll. Vegir með þeim fjöllum sem fram liggja eru þessir: Frá Hvanndölum inn fyrir Hvanndalaskriður að

Vík, líttfær glæfravegur, frá Siglunesi inn Nesskriður og að Staðarhóli, lítið skárri og frá Máná inn Mánárskriður inn svonefnda Almenninga og að Hraunum, ysta bæ í Fljótum. Er það alllangur vegur og ekki greiðfær.
    Vegir þeir er yfir fjöll fara til næstu sveita eru þessir: Úr Siglufirði vestur í Fljótin að Hraunum er Siglufjarðarskarð. Úr sama firði austur í Ólafsfjörðinn er Botnaleið. Skal þá farið fram úr Siglufjarðardalnum fyrir Héðinsfjörð og ofan í Ólafsfjörðinn. Úr Héðinsfirði í Fljót eru vegir fyrir Siglufjörðinn. Liggja þeir að Holti og Brúnastöðum og heita Sandskarð og Uxaskarð. Úr sama firði til Ólafsfjarðar eru þessar leiðir: Rauðsskörð. Næst sjó eða yst er vegur sá upp fram frá Vík og komið yfir Ytri-Árdalsdrög utarlega í Ólafsfirði. Upp og fram frá Möðruvöllum liggur vegur yfir Skeggjabrekkudal í miðjum Ólafsfirði.
    Vegir milli fjarðanna í sókninni eru þessir. Hinn fremsti er Hólsskarð og liggur hann fram og upp frá Hóli og yfir í Ámá, fremsta bæ í Héðinsfirði. Er vegur sá fær með hesta en þó ekki góður. Hestsskarð liggur fram og upp frá Skútu, miðjum Siglufirði, fram svonefndan Ráeyrardal og í miðjan Héðinsfjörð. Þá eru Putaskörð yst. Liggur leið sú frá Siglunesi. Skal þá ganga frá Siglunesmúla fram svonefndan Reyðarárdal er skerst milli Múlans og Hestfjalls, upp drög hans að ofan og fram sniðhallt með Hestfjalli fyrir botn Héðinsfjarðar eftir möl þeirri er liggur milli hans og Héðinsfjarðarvatns og Víkursandur er nefnd og að Vík.``
    Hæstv. forseti. Mér finnst að ég megi til að lesa stuttan kafla úr bók sem Ingólfur Kristjánsson skrifaði í tilefni af 50 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar og út kom 1968, en þar segir um samgöngumál:
    ,,Þó að Siglufjarðarskarð væri örðugt yfirferðar mátti það þó kallast hlemmivegur borið saman við ýmsar aðrar torleiðir og það var eina þjóðleiðin er tengdi Siglufjörð sveitunum vestan fjalla. Mönnum þótti það því meira en bagalegt að ógnvaldur sá sem menn kölluðu loftanda skyldi svo að segja loka þessari leið en á henni urðu oft miklir mannskaðar.
    En hvað var til ráða? Enginn gat haft hendur í hári þessa meinvættar og engin vopn bitu á slíkan loftanda. Enginn mannlegur máttur gat yfirbugað hann og þar urðu æðri máttarvöld að koma til skjalanna. Og því var það sumarið 1731 að Steinn Jónsson, sem þá var biskup á Hólum, skarst í leikinn og bauð að skarðið skyldi vígt ef það mætti verða til þess að hreinsa það af þessum illa anda. Fékk biskup til þessa verks prófast Þingeyinga, Þorleif Skaftason í Múla, sem talinn var einn mestur klerkur og andríkastur norðan lands um þær mundir. Skyldi hann flytja bænagjörð og guðsþjónustu í skarðinu. Áður hafði verið hlaðið þar grjótaltari mikið Siglufjarðarmegin við skarðskambinn. Safnaðist þar saman mannfjöldi mikill undir forustu nokkurra vígðra manna þá er athöfnin fór fram.
    Eftir atburð þennan þótti bregða um til batnaðar og tóku menn nú aftur upp ferðir yfir skarðið og voru hugdjarfari og öruggari en áður. En lengi síðan var

það siðvenja að ferðamenn gerðu bæn sína við altarið í skarðinu þá er þeir fóru milli Siglufjarðar og Fljóta. Upp frá þessu hafa engar sögur farið af hinum skæða loftanda, en þó fór því fjarri að slys á ferðamönnum legðust með öllu af á skarðinu og hafa menn orðið úti á þessari leið allt fram á síðustu tíma. T.d. urðu þar tveir menn úti í aftakaveðri í marsmánuði árið 1903. Og fleiri slys og dauðsföll hafa átt sér stað en þau hafa öll þótt eiga sér skýranlegar orsakir.
    Litlu sunnar Siglufjarðarskarðs er annað skarð í fjallgarðinn og nefnist það Afglapaskarð. Ekki hefur nein vættur við það verið bendluð en háskalegt er það og var vegfarendum eigi að síður. Þannig háttar til að Fljótamegin er þar tiltölulega greið uppganga í skarðið en Siglufjarðarmegin við það eru snarbrött björg og hverjum manni bani búinn er villist fram af þeim. Það var ekki ótítt að menn sem ætluðu til Siglufjarðar um Siglufjarðarskarð lentu uppi í Afglapaskarði þá er þeir voru á ferð í dimmviðri og hríðum eða ef þeir voru ókunnugir á þessum slóðum, en eftir að verslun var komin í Siglufirði jukust mjög ferðir manna úr sveitum vestan fjalla til Siglufjarðar. Einangrun og samgönguörðugleikar hafa verið eitt helsta mein Siglfirðinga um aldir og allt til síðustu tíma og margir eru þeir sem borið hafa beinin á fjöllum uppi, hafa örmagnast á bröttum og glufróttum götuslóðum hinna fornu alfaraleiða milli byggða eða villst í hríðum og hretviðrum.
    Það var ekki fyrr en árið 1946 að akfært varð yfir Siglufjarðarskarð og þó aðeins yfir blásumarmánuðina. Meginhluta ársins hafa því samgönguörðugleikarnir á landi verið þeir sömu eins og voru í upphafi byggðar. En með opnun jarðganganna í nóvember 1967, gegnum Strákafjall eða Hvanneyrarstróka, sem mun vera hið upphaflega nafn fjallsins, tengdist Siglufjörður í fyrsta sinn varanlega akvegakerfi landsins. Þar með lauk aldalangri einangrun og það var stór stund í sögu Siglufjarðar. Hér eftir munu hinar fornu fjallaleiðir, bæði um Siglufjarðarskarð og aðrar leiðir milli byggða, heyra fortíðinni til og verða einungis heimild um ferðamannaleiðir fyrri tíma sem sporléttir og ratvísir göngugarpar munu stöku sinnum kanna á björtum og hlýjum sumardögum sér til ánægju og hressingar. Þá mega þeir leiða hugann að þungum sporum forfeðranna um þessar slóðir sem í harðri lífsbaráttu urðu að leggja á brattann í nauðsynjaerindum vegna sjálfra sín og sinna.``
    Nú finnst ykkur eflaust nóg komið af lýsingum á samgönguleiðum á landi til og frá Siglufirði sem fram á miðja þessa öld voru nánast gönguleiðir og sumar aðeins færar hestum yfir blásumarið. Ég held hins vegar að við höfum gott af því að líta einstaka sinnum til baka og reyna að rýna dálítið í fortíðina þegar við tökumst á við aðkallandi verkefni nútímanns og lítum til framtíðarinnar.
    Eins og áður segir var vegurinn um Siglufjarðarskarð opnaður til umferðar haustið 1946. Þótti það mikil samgöngubót á sínum tíma en fljótt kom í ljós að vegasamband þetta þótti ófullkomið því vegurinn var aðeins opinn fjóra til fimm mánuði á ári.

Á árinu 1955 eða aðeins níu árum eftir opnun Skarðsvegar var byrjað að athuga aðra möguleika til að koma Siglufirði í öruggara vegasamband. Niðurstaða af því voru tveir valkostir. Sá fyrri var núverandi vegur með sjó frá Hraunum um Mánárskriður, Sauðanes og 780 metra löng jarðgöng um Stráka og til Siglufjarðar. Hin leiðin var úr Nautadal í Fljótum, um 3,5 kílómetra löng jarðgöng gegnum Siglufjarðarfjall og í fjarðarbotn. Fyrri tillagan var áætluð kosta 10 millj. kr. en sú seinni 27 millj. kr.
    Á árunum 1957--1958 var lagður vegur frá Siglufirði að væntanlegum jarðgöngum um Strákafjall. Árið 1959 voru sprengd 30 metra löng tilraunagöng. Síðan gerðist ekkert fyrr en verkið var boðið út árið 1964, og verkið hófst síðan 1965. Framkvæmdatíminn varð tvö ár og göngin voru síðan opnuð til umferðar 1967. Heildarkostnaður við gerð ganganna var 41 millj. kr. á verðlagi þess tíma eða 65 millj. á verðlagi ársins 1983. Núna, 23 árum seinna, er vegurinn að þeim beggja megin enn þá ófullbúinn og að vestanverðu beinlínis hættulegur á köflum. Það sem eftirtekt vekur er að þegar vegurinn er gerður um Siglufjarðarskarð árið 1946 og þegar ákvörðun er tekin um veginn um Strákafjall er Siglufjörður einmenningskjördæmi. Áttu þingmennirnir Áki
Jakobsson, þá atvinnumálaráðherra, í fyrra tilvikinu og Einar Ingimundarson bæjarfógeti í því síðara eflaust mestan þátt í því að koma þessum stórframkvæmdum þess tíma áfram þótt að sjálfsögðu aðrir menn sem aðstöðu höfðu til að þrýsta þessum málum áfram hafi ekki legið á liði sínu.
    Ég er ekki að halda því fram að vilja vanti hjá þeim þingmönnum sem valist hafa fyrir Norðurl. v. síðan kjördæmabreytingin var gerð, en vitað var og er að einstakir þingmenn komust ótrúlega langt fyrir sín kjördæmi meðan við bjuggum við einmenningskjördæmi.
    Jarðgöngin um Oddsskarð voru næsta verkefni Vegagerðar ríkisins og komu þau fljótlega inn á dagskrá eftir að framkvæmdum lauk við Strákagöng. Göngin um Oddsskarð voru tekin í notkun árið 1977. Síðan varð nokkurt hlé á jarðgangagerð til samgangna á Íslandi. Árið 1981 beitti Verkfræðingafélag Íslands sér fyrir ráðstefnu um jarðgöng og jarðgangagerð. Á þeirri ráðstefnu voru flutt fjölmörg erindi um jarðgöng, bæði af verkfræðingum og jarðfræðingum, og dreginn saman sá fróðleikur og skýrt frá reynslu sem þegar hafði fengist við þessi verkefni. Engu að síður voru litlar áherslur hjá opinberum aðilum á þennan þátt í vegagerð landsins.
    Á þessu ári, 1981, hófust þó jarðfræðiathuganir í Ólafsfjarðarmúla sem stóðu til ársins 1984. Þá tók við hönnun verksins. Verkið var boðið út 1987 og samningar undirritaðir 1. júlí 1988. Síðan hefur verkið verið unnið af krafti og verktakinn nú á undan áætlun eins og kunnugt er. Sprengingum lauk í þessum mánuði og áformað er að taka göngin til umferðar í nóvember í ár.
    Hæstv. forseti. Ég átti þess kost að vera

meðflutningsmaður ásamt fleiri þingmönnum að þáltill. sem Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. núv. samgrh., var 1. flm. að á þskj. 100 árið 1985, um gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð.
    Í greinargerð með tillögunni voru lögð fram ítarleg gögn og greinar sérfræðinga um reynslu hér á landi og víðar um árangur af gerð jarðganga. Í skýrslunni, sem út kom og dreift var hér á Alþingi í mars árið 1987, segir m.a. um afmörkun verkefna sem nefndin tók til skoðunar, með leyfi forseta:
    ,,Í samræmi við kafla 4.1. hefur nefndin skipt þeim jarðgangahugmyndum sem ræddar hafa verið í þrjá flokka með eftirfarandi forgangsröðun:
    1. Jarðgöng þar sem snjóflóð og hrun ógna öryggi vegfarenda auk erfiðra vetrarsamgangna.
    2. Jarðgöng þar sem hálendið gerir vetrarsamgöngur erfiðar og byggðir einangrast frá aðalvegum um lengri tíma vegna snjóþyngsla.
    3. Jarðgöng þar sem unnt er að auka sparnað umferðar með styttingu vega.``
    Er skemmst frá því að segja að við skoðun á fyrstu tveimur flokkunum var nefndin komin með áætlun verkefna næstu 20--25 ár miðað við þann framkvæmdahraða sem þeir töldu skynsamlegan og fallið gæti að vegáætlun, án þess að líta sem heitið gæti á þriðja flokkinn, þ.e. jarðgöng þar sem unnt væri að auka sparnað umferðar með styttingu vega.
    Nú á síðustu árum hafa hins vegar komið fram hugmyndir um að flýta slíkum göngum, t.d. um Hvalfjörð. Er það e.t.v. ekki síst vegna örrar tækniþróunar í jarðgangagerð, svo og enn frekari áherslu íbúa landsins á bættar samgöngur. Og einnig hefur verið rætt um af hæstv. samgrh. að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum.
    Ég held því, hæstv. forseti, að það sé í raun mjög tímabært að leggja fram þessa till. til þál. með hliðsjón af þeim tíma sem það tekur að rannsaka slík verkefni sem hér er lagt til að rannsökuð verði og þá e.t.v. með öðrum áherslum en voru þegar jarðgangaáætlunin til lengri tíma var gerð. Ég vil að það komi skýrt fram að það er á engan hátt hugmynd flutningsmanna að raska á neinn hátt þeirri röð verkefna sem jarðganganefndin lagði til heldur að þetta verkefni verði skoðað með tilliti til nýrra áherslna í byggðamálum sem tengjast því einangraða svæði sem ég lýsti hér fyrr í ræðu minni.
    Í tillögunni um langtímaáætlun eru tilteknar flestar þær forsendur sem hægt er að ná með þeim árangri sem sveitarfélögin vænta með aukinni samvinnu eða sameiningu til hagsbóta fyrir íbúana. Ég minni á að ef þessi jarðgöng verða gerð verður vegurinn frá Siglufirði til Ólafsfjarðar 21 km og til Akureyrar 83 km. Við það breyttust allir arðsemisútreikningar jarðganga um Ólafsfjarðarmúla og vegalengdir í utanverðum Eyjafirði. Líta má á allt annan hátt á þróum byggðar á þessu svæði með tilliti til samvinnu á sviði atvinnumála, menntamála, heilbrigðismála, svo að nokkuð sé nefnt.
    Ég minni á að til Siglufjarðar er eftir að leggja ljósleiðara til öruggari fjarskipta. Tengja mætti

Siglufjörð landskerfi raforkukerfisins með háspennustreng frá Ólafsfirði og auka þannig orkuflutning til kaupstaðarins, en eins og kunnugt er notar Síldarverksmiðja ríkisins svartolíu til gufuframleiðslu.
    Ég nefni að þessi vegur gæti verið opinn til umferðar við þær aðstæður að Öxnadalsheiði er ófær, en vaxandi áhugi er á að tryggja betri umferð milli kjördæmanna á Norðurlandi. Þessi vegur ryfi þá einangrun sem felst í því að Siglufjörður er nú endastöð og nýtur ekki þess að vera í vegasambandi til beggja átta.
    Þessi vegur opnaði leið að dýrmætum möguleikum sem felast í Héðinsfirði þar sem taldar eru vera ákjósanlegar aðstæður til fiskiræktar og þar er nægur jarðhiti. Þessi vegur mundi opna Héðinsfjörð til útivistar, en hann er rómaður fyrir náttúrufegurð. Hann mundi stækka Ísland í því skyni og gera mögulegan hringakstur frá Akureyri með ferðamenn með viðkomu á frægum sögustöðum Skagafjarðarsýslu sem nú eru út undan í ferðamálum, m.a. af þessum sökum.
    Þessi vegur mundi gefa þeim sveitarfélögum sem eru á norðanverðum Tröllaskaga tækifæri til að taka sameiginlega á verkefnum framtíðarinnar á sviði atvinnu, þjónustu og menningarmála.
    Hæstv. forseti. Þessi upptalning mín verður aldrei tæmd og því er mál að linni. Ég nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega fyrir að fá að tala fyrir þessari till. til þál. um þetta mál sem ég hef mikinn áhuga á og ég held að geti skipt miklu máli fyrir þróun byggðar á þessu svæði.
    Ég vil því, hæstv. forseti, óska þess að tillögunni verði vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu.