Utanríkismál
Föstudaginn 30. mars 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Vegna frásagna fjölmiðla, innlendra og erlendra, af afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til spurninga um viðurkenningu á Litáen, frásagna sem í ýmsu tilliti eru villandi og að sumu leyti gersamlega rangar, er nauðsynlegt að taka fram skýrt og skilmerkilega eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Íslenska ríkisstjórnin lítur svo á að viðurkenning á lýðveldinu Litáen sem veitt var fyrir Íslands hönd af dönskum stjórnvöldum árið 1921 standi af þeirri einföldu ástæðu að hún hefur aldrei verið afturkölluð. Hún hefur ekki verið afturkölluð af íslenskum stjórnvöldum eftir að íslenska lýðveldið var stofnað. Þessi afstaða er efnislega hin sama og ríkisstjórna Danmerkur og Noregs.
    Í annan stað er það alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa aldrei viðurkennt innlimun Litáens í Sovétríkin sem raunverulega var gerð með hernámi og er ólögleg athöfn og viðurkennd sem ólögleg athöfn af hinu nýja sovéska þingi. Ég vil aðeins vekja athygli á því að formleg viðurkenning byði heim þeirri gagnályktun að Ísland hafi einhvern tíma fallist á eða viðurkennt hina ólögmætu innlimun Litáens í Sovétríkin árið 1940.
    Í þriðja lagi er rétt að taka fram það sem síðan hefur gerst eða farið fram af Íslands hálfu.
    Alþingi Íslendinga sendi sérstakar heillaóskir til litáísku þjóðarinnar í tilefni sjálfstæðisyfirlýsingar hennar þann 11. mars sl. en í þeirri orðsendingu stóð m.a. eftirfarandi: ,,Alþingi fagnar því endurheimt sjálfstæðis Litáens og væntir góðrar samvinnu við lýðræðislega kjörna fulltrúa þess.``
    Enn fremur hefur utanrrh. Íslands sent orðsendingu til utanrrh. Sovétríkjanna sem hljóðar svo: ,,Fyrir hönd íslenskra stjórnvalda skora ég á sovésk stjórnvöld að hefja þegar viðræður við fulltrúa rétt kjörinna stjórnvalda í Litáen án fyrirframskilyrða.`` Því næst segir:
"Þvingunaraðgerðir af hálfu Sovétríkjanna í málefnum Litáens mundu í einu vetfangi spilla þeim björtu vonum sem umbótaáætlun Gorbatsjovs forseta hefur vakið um varanlegan frið og öryggi í samskiptum þjóða í okkar heimshluta.`` Þessari orðsendingu var komið á framfæri við forseta Litáens.
    Í þriðja lagi er þess að geta að utanrrh. Íslands tók upp málefni Litáens á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópuráðsins og sá málflutningur var efnislega á sömu lund og í þeirri orðsendingu til utanríkisráðherra Sovétríkjanna sem hér hefur verið lýst. Þá er þess að geta að sendinefnd frá Litáen sem skipuð var formanni utanríkisnefndar litáíska þjóðþingsins, pólitískum ráðgjafa forsætisráðherra Litáens og einum meðlimi utanríkisnefndar litáíska þingsins óskaði eftir og fékk viðræður við sendiherra Íslands í Noregi. Fyrir utan að nota tækifærið til þess að koma á framfæri þökkum til íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir þann boðskap sem borist hefði frá ríkisstjórn Íslands og frá Alþingi Íslendinga, sem talinn var mikils virði og hefði komið á réttu

augnabliki, þá lýstu sendimenn Litáens þeirri skoðun sinni að með orðsendingu Alþingis og orðsendingu utanrrh. væri að þeirra skilningi komið á framfæri viðurkenningu af Íslands hálfu á Litáens sem sjálfstæðu ríki. Aðeins vantaði formlega viðurkenningu á stjórn Litáens og formlegt skref um að taka upp diplómatískt samband. Ég legg áherslu á það að þetta er skilningur litáískra stjórnvalda eins og hann var fram settur í viðræðum við sendiherrann í Osló.
    Af þessu tilefni er rétt að taka það fram að samkvæmt hefð viðurkenna íslensk stjórnvöld ríki en ekki einstakar ríkisstjórnir. Ég minni á, að því er varðar þá staðreynd að sum ríki hafa viðurkennt bráðabirgðastjórn eða útlagastjórn PLO, þrátt fyrir þá staðreynd að þar er ekki um að ræða ríkisstjórn sem ræður skilgreindu landi eða hefur sjálfsforræði á skilgreindu landi, að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki gert það, og með vísun til þeirrar hefðar að við viðurkennum ekki ríkisstjórnir heldur ríki og ríki sem fullnægja skilmálum eða forsendum þjóðaréttar fyrir því.
    Með öðrum orðum, til þess að framfylgja sjálfstæðisyfirlýsingu Litáens sem fyrir liggur er eftir að gefa henni endanlegt formlegt innihald en til þess þarf að koma á samningum milli fulltrúa rétt kjörinna litáískra stjórnvalda og Sovétstjórnarinnar. Þeir samningar eru vafalaust flóknir og snúast bæði um þjóðréttarleg, lagaleg og hugsanlega efnahagsleg atriði. Það ber þess vegna að líta á sjálfstæðisyfirlýsinguna sem fyrsta skref, en jafnframt árétta nauðsyn samninga, formlegra samninga til þess að ljúka málinu að fullu. Í samræmi við þetta hefur það verið stefna íslenskra stjórnvalda að hvetja Sovétstjórnina til þess að forðast valdbeitingu og hvetja hana til þess að taka upp samninga og í því skyni höfum við svarað með jákvæðum hætti beiðni litáískra stjórnvalda um að bjóða Reykjavík sem fundarstað til slíkra samninga ef báðir aðilar óska þess.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt áður en lengra er haldið að taka þetta fram og gera þessa afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar alveg skýra að því gefna tilefni að frásagnir um þessa afstöðu hafa verið villandi og í sumum
tilvikum alrangar. Ég lýk máli mínu með því að segja að það gleður mig mjög að á forsíðu Morgunblaðsins í dag er í viðtali við fulltrúa litáískra stjórnvalda því yfir lýst að Litáar meti mikils þann stuðning sem borist hefur frá Alþingi og ríkisstjórn og að þeir meti það svo að Ísland sé í fremstu röð þeirra ríkja sem lýst hafa stuðningi við sjálfstæðisviðleitni og sjálfstæðisþrá litáísku þjóðarinnar.