Stimpilgjöld
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 10. þm. Reykn. beinir til mín fsp. í þremur liðum á þskj. 650. Sú fyrsta: ,,Hver er ástæða misræmis í túlkun bæjarfógeta í Reykjavík og Kópavogi annars vegar og hins vegar í Hafnarfirði um skyldu hjóna og sambúðarfólks til að greiða stimpilgjöld af yfirlýsingu sambúðarfólks vegna fasteigna sem annar aðilinn er skráður fyrir þegar óskað er eftir að nafni hins sé bætt við þannig að skráning taki til beggja aðila?``
    Við embætti borgarfógetans í Reykjavík og bæjarfógetans í Kópavogi hefur ekki verið innheimt stimpilgjald þegar þinglýst hefur verið yfirlýsingu hjóna þess efnis að bæði verði þinglýstir eigendur fasteignar sem aðeins annað hjóna hefur verið þinglýstur eigandi að. Skýring þeirra embætta á þessari framkvæmd er að þau hafa talið að hér sé aðeins um að ræða staðfestingu og skráningu á eignarheimild en ekki yfirfærslu eignarréttinda í skilningi laga um stimpilgjöld, nr. 36/1978. Þessi embætti innheimta stimpilgjald við þinglýsingu yfirlýsingar sambúðarfólks sama efnis þegar ótvíræð yfirfærsla eignarréttinda á sér stað. Hins vegar er ekki innheimt stimpilgjald þegar rök hafa verið leidd að því að eign hafi myndast í sambúð aðila en fjármögnun stafi ekki einungis frá öðrum aðilanum. Þessi embætti hafa, með vísan til 3. gr. laga um stimpilgjald, nr. 36/1978, eigi innheimt stimpilgjald í framangreindum tilvikum þar sem þau telja að ekki sé um að ræða gerninga sem séu sambærilegir við venjulega sölu fasteigna.
    Við embætti bæjarfógetans í Hafnarfirði, Garðakaupstað og á Seltjarnarnesi og sýslumannsins í Kjósarsýslu er innheimt stimpilgjald við þinglýsingu yfirlýsingar hjóna og sambúðarfólks þegar um sambærileg tilvik og að framan greinir er að ræða. Embættið telur að við ákvörðun á stimpilskyldu beri að hafa hliðsjón af ákvæðum laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923. En í 17. gr. þeirra laga komi fram að hvort hjóna eigi sínar hjúskapareignir en
annað hjóna öðlast hjúskaparrétt yfir hjúskapareignum hins. Embættið telur að yfirlýsing annars hjóna um að hitt hjóna, sem ekki hefur verið skráður eigandi að fasteign, verði framvegis jafnframt þinglýstur eigandi sé afsal viðkomandi á hjúskapareign sinni til hins hjúskaparaðilans og beri því, skv. 5. gr. stimpillaga, nr. 36/1978, að taka stimpilgjald af yfirlýsingunni þar sem stimpilskylda skjals fer eftir réttindum er það veitir en eigi nafni þess eða formi. Embættið telur enga undanþágu vera til staðar í stimpillögum til handa hjónum eða sambúðaraðilum til niðurfellingar stimpilgjalds þegar um yfirfærslu eignarréttinda milli þeirra er að ræða. Bent er á að eina undantekningin frá stimpilskyldu á skjölum er varða eignayfirfærslur milli hjóna sé í 4. mgr. 16. gr. stimpillaga þar sem undanþegnir eru stimpilskyldu úrdrættir úr skiptabók og önnur skjöl sem sýna eignayfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið maka út upp í búshelming hans við

skilnað. Sú undantekning taki tillit til helmingaskiptareglunnar, sbr. 1. málsgr. 18. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923.
    Embættið telur enn fremur að út frá 4. mgr. 16. gr. stimpillaga megi gagnálykta tvennt. Í fyrsta lagi að ef undantekningarreglan væri ekki til staðar þá væri jafnvel eignayfirfærsla fasteigna við skilnað stimpilskyld þrátt fyrir helmingaregluna. Í öðru lagi að þar sem sérstaklega sé kveðið á um þessa undanþágu hafi borið að taka skýrt fram í stimpillögum ef það hefði verið ætlan löggjafans að undanþiggja eignayfirfærslur milli hjóna frá stimpilskyldu meðan á hjúskap stendur. Niðurstaða bæjarfógetans í Hafnarfirði er því sú að undantekningar frá framangreindri meginreglu beri að skýra þröngt og að undantekningarnar þurfi að eiga sér skýra og styrka lagastoð.
    Önnur fsp. var svohljóðandi: ,,Hvernig er þessum málum háttað annars staðar á landinu?``
    Samkvæmt upplýsingum þinglýsingadómara við önnur bæjarfógeta- og sýslumannsembætti mun þeirri túlkun er fram kemur í svari borgarfógetans í Reykjavík og bæjarfógetans í Kópavogi víðast hvar vera fylgt.
    Þriðja spurningin er svohljóðandi: ,,Hvernig ber að mati dómsmálaráðherra að túlka lög um stimpilgjöld í þessu tilliti?``
    Það er skoðun dómsmrh. að túlka beri lög um stimpilgjald, nr. 36/1978, við ákvörðun stimpilskyldu yfirlýsingar hjóna og sambúðarfólks um að báðir verði þinglýstir eigendur þannig að taka beri stimpilgjald af slíkum yfirlýsingum og eru forsendurnar þær sömu og fram koma í svari bæjarfógetans í Hafnarfirði.
    Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að framkvæmd og túlkun stimpillaga heyrir undir fjmrn. og þess vegna getur dómsmrh. eigi gefið út fyrirmæli til þinglýsingadómara um þetta efni.