Fíkniefnaneysla unglinga
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur beint til mín fyrirspurn í þremur liðum á þskj. 783 sem ég mun leitast við að svara. Fyrsti liðurinn hljóðar svo: ,,Hvernig hyggjast stjórnvöld bregðast við sívaxandi fíkniefnaneyslu unglinga sem fjölmiðlar flytja fréttir af þessa dagana?``
    Ég vil fyrst segja að hér er um mjög margþætt vandamál að ræða sem teygir anga sína víða. Þess vegna er augljóst að eigi einhvers árangurs að vænta í baráttunni við þennan skæða nútímavágest verður að heyja þá baráttu á mörgum vígstöðvum í senn, mér liggur við að segja nánast um allt þjóðfélagið. Á vegum dómsmrn. og raunar einnig í samstarfi við önnur ráðuneyti er margs konar starf í gangi í þessum tilgangi. Ég mun fráleitt geta á fimm mínútum tíundað það allt saman út í hörgul en mun þess í stað greina frá fáeinum atriðum í þessu sambandi sem sérstaklega snerta starfsemi á vegum ráðuneytisins og eru ofarlega á baugi um þessar mundir.
    Á fundi sem ráðuneytið mun efna til núna eftir helgina, á mánudag og þriðjudag, með öllum lögreglustjórum á landinu verður verulegum hluta fundartímans varið til þess að kynna lögreglustjórunum rannsókn ávana- og fíkniefnamála. Ætlunin er að auka þekkingu lögreglustjóranna á rannsókn og meðferð málanna og þannig að auka einnig frumkvæði þeirra. Kynnt verður dæmi frá sl. ári þar sem fíkniefnamál var meðhöndlað á faglegan og afgerandi hátt í kaupstað á landsbyggðinni. Einnig munu fundarmenn fara til ávana- og fíkniefnadeildar lögreglustjórans í Reykjavík og skoða starfsemi hennar. Þá mun verða rætt um útihátíðir, löggæslu á slíkum hátíðum, skipulag þeirra og aðgerðir til að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu unglinga. Á fundinum verða einnig kynntar reglur sem ég hef nýlega ritað undir um hlutverk ávana- og fíkniefnadeildar lögreglustjórans í Reykjavík, verkaskiptingu milli hennar og annarra lögregluyfirvalda, svo og samstarf við aðrar stofnanir. Samkvæmt þeim reglum
hefur ávana- og fíkniefnadeildin með höndum lögreglurannsókn ávana- og fíkniefnabrota á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og Kjalarneshreppi, að því leyti sem þær eru ekki í höndum lögreglustjóra þar eða Rannsóknarlögreglu ríkisins samkvæmt öðrum reglum. Lögreglustjórar bera ábyrgð á því, hver í sínu umdæmi, að stemmt sé stigu við ávana- og fíkniefnabrotum og að brot sem uppvís verða sæti rannsókn. Ávana- og fíkniefnadeildin skal veita lögreglustjórum og dómurum hvar sem er á landinu aðstoð við rannsókn ávana- og fíkniefnabrotamála þegar þeir óska og lögreglustjórinn í Reykjavík og/eða ríkissaksóknari telja það nauðsynlegt. Ef ávana- og fíkniefnadeildin vinnur að rannsókn ávana- og fíkniefnamáls sem teygir anga sína í önnur lögsagnarumdæmi geta starfsmenn hennar farið inn í þau, jafnvel fyrirvaralaust, gerist þess þörf.

    Ég vil leggja sérstaka áherslu á að ekki er ætlunin að ávana- og fíkniefnadeildin verði einangruð rannsóknadeild þannig að hún sjái um öll mál þar sem fíkniefni koma við sögu frá upphafi til enda. Í skipulagi þessara mála er gert ráð fyrir að hinir almennu lögreglumenn vinni einnig að fíkniefnamálum og lögð er áhersla á að þeir hafi frumkvæði að rannsókn þeirra hvar sem þeir verða efnanna varir. Mjög mikilvægt er að lögreglumenn, í hvaða stöðu sem þeir kunna að vera, fylgist grannt með því hvort möguleiki sé á að unglingar eða aðrir sem safnast saman hafi fíkniefni um hönd. Markmiðið er að seljendur efnanna og neytendur þeirra séu aldrei látnir í friði þannig að öll fíkniefnahreiður séu eyðilögð og allar fíkniefnaklíkur séu upprættar.
    Það hvort menn verða dregnir til refsingar er auðvitað mikilvægur þáttur. En enn þá mikilvægara er að koma í veg fyrir dreifingu og neyslu, eins og raunar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, hvort sem aðgerðirnar leiða til frekari rannsóknar eða ekki. Samkvæmt ofangreindum reglum er ávana- og fíkniefnadeildinni ætlað að halda landsspjaldskrá og tölvufærðar upplýsingar um fíkniefnamál yfir allt landið. Enn fremur annast hún söfnun upplýsinga innan lands og erlendis frá og sér um að miðla þeim upplýsingum til annarra sem hlut eiga að máli. Mjög hefur skort á að upplýsingar um neyslu og útbreiðslu fíkniefna hér á landi væru aðgengilegar. Þessari spjaldskrá er ætlað að bæta úr þessu að nokkru. Langt er þó frá að þetta eitt sé nægilegt til að öðlast yfirsýn yfir fíkniefnaneysluna.
    Ávana- og fíkniefnadeildinni er ætlað að vera í tengslum við erlenda og innlenda löggæsluaðila og aðra sem vinna gegn útbreiðslu fíkniefna. Í baráttunni gegn fíkniefnum er mikilvægt að nýta sér þekkingu og reynslu annarra þjóða. Einnig þarf að vera góð samvinna við erlenda löggæsluaðila við rannsókn og meðferð mála þannig að upplýsingar um efni og brotamenn berist greiðlega milli landa. Starfsmönnum ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hefur verið fjölgað um sex frá 1986 og er nú 14 og auk þess fjórir sem eru í tengdri deild.
    Fræðslustarf hefur verið eflt verulega. Hundar til hassleitar eru nú tveir en ákveðið hefur verið að fjölga þeim á þessu ári. Í samvinnu við
skólayfirvöld hefur verið tekin upp kennsla á svonefndu ,,Lionsquest``-efni en því er ætlað að hafa jákvæð áhrif á unglinga á mótunarskeiði. Ætlunin er að foreldrar þessara ungmenna taki þátt í starfinu og fylgir foreldrahandbók kennsluefninu. Fræðsluefni af þessu tagi hefur gefist mjög vel í baráttunni við fíkniefni í nágrannalöndum. Þessi jákvæða viðhorfsmótun beinist jafnframt að vörnum gegn áfengisneyslu. En við megum ekki, hæstv. forseti, gleyma því að það vímuefni sem leyft er að nota hér í landinu, þ.e. áfengið, er oftast nær grunnurinn að frekari vímuefnaneyslu ungs fólks.
    Önnur spurning hv. fyrirspyrjanda var: ,,Eru þær fréttir réttar að rekin sé umfangsmikil dreifingarstarfsemi á fíkniefnum í framhaldsskólum og

félagsmiðstöðvum unglinga og til hvaða ráða hyggjast lögregluyfirvöld grípa?`` Fréttir í fjölmiðlum hafa beinst að einni rannsókn nú undanfarið sem í sjálfu sér er ekki sérstök nema að því leyti hversu marga hún snertir. Þessari rannsókn er ekki lokið. En lögreglan telur að sú aðgerð sem þegar hefur verið framkvæmd í því sambandi hafi haft talsvert miklar afleiðingar í þá átt að draga úr neyslu í ákveðnum hverfum Reykjavíkur. Rannsókninni verður fylgt eftir með samvinnu við ýmsa aðila sem vinna að því að fækka fíkniefnaneytendum. Ekkert bendir til þess að rekin sé umfangsmikil dreifingarstarfsemi á fíkniefnum í framhaldsskólum og félagsmiðstöðvum unglinga. Nú sem fyrr er stærsti hópur fíkniefnaneytenda fólk sem ekki stundar fasta atvinnu eða er ekki í skóla.
    Þriðja og seinasta spurningin er svohljóðandi: ,,Hefur lögreglan orðið vör við vaxandi ofbeldi meðal unglinga sem rekja má til fíkniefnasölu og fíkniefnaneyslu?`` Starfsmenn fíkniefnadeildar hafa ekki orðið varir við sérstaka aukningu á ofbeldi nú síðustu mánuði en benda hins vegar á að ofbeldi hefur vaxið samfara neyslu fíkniefna nú seinustu árin. Erfitt er þó að meta þetta þar sem stór hluti ofbeldisverka sem framin eru sem afleiðing fíkniefnaneyslu er vísast aldrei kærður.