Búnaðarmálasjóður
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með að þetta frv. er komið hér fram. Eins og allir hv. þm. vita sjálfsagt hefur lengi staðið til að gera heildarskipulagningu á félagslega kerfi landbúnaðarins og reyna að tryggja það í sessi. Þetta hefur verið með þeim hætti núna síðari árin að mjög mikil óvissa hefur verið um starfsemi, ekki síst búnaðarsambandanna og Búnaðarfélags Íslands og sérsambandanna í landbúnaði. Þar af leiðandi er þessi niðurstaða mjög jákvæð að því leyti til að hér hefur náðst breið samstaða um þetta mál.
    Hins vegar vil ég benda á það að starfandi var nefnd um Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin er skilaði ákveðnum tillögum til hæstv. landbrh. í byrjun síðasta árs. Þar var gert ráð fyrir ákveðnari tekjustofnum fyrir rekstur Búnaðarfélags Íslands og búnaðarsambandanna með breytingum á Búnaðarmálasjóði. Þar var gert ráð fyrir að sjálfsögðu, eins og hlutverk nefndarinnar var, að styrkja búnaðarsamböndin og Búnaðarfélag Íslands í sessi og var gengið út frá ákveðnum tillögum. Það var í samræmi við samþykkt búnaðarþings og fleiri aðila í landbúnaði.
    Þetta frv. er víðtækara. Þó finnst mér ástæða til að benda á það að mér finnst að hlutur Búnaðarfélags Íslands sé ekki skilgreindur í þessu frv. Mér sýnist að áfram sé nokkur óvissa um framtíð Búnaðarfélagsins eða hlutverk þess og hefði óskað eftir því að það yrði aðeins skilgreint nánar. En að sjálfsögðu mun landbn. Nd. fjalla frekar um það mál. En mér finnst vera stórt spurningarmerki í sambandi við þetta atriði.
    Að öðru leyti tel ég frv., sem er niðurstaða starfa sem þessar nefndir hafa unnið að og stofnanir landbúnaðarins hafa fjallað um og náð samkomulagi um, vera mjög mikilvægt. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að nauðsynlegt er að afgreiða þetta mál þannig að a.m.k. sú óvissa sem er búin að vera núna ár eftir ár í sambandi við fjárlagagerð og framtíð félagslegra þátta landbúnaðarins verði að verulegu leyti leyst með þessu lagafrv.