Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. lagði hann ásamt öðrum fram beiðni um skýrslu um nýtt álver hinn 19. febr. sl. Það er skemmst frá því að segja, eins og vel er kunnugt, að 13. mars náðist samkomulag um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver milli ríkisstjórnarinnar og þriggja álfyrirtækja. Frá því var að sjálfsögðu skýrt rækilega opinberlega. Hinn 10. apríl sl. lagði ég síðan fram í þinginu, eins og þingmönnum er einnig kunnugt, virkjanafrv., frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver og fleira. Í því frv. er gerð ítarleg grein fyrir þróun viðræðna um nýtt álver, enda eru þær viðræður forsendur frv.
    Ég mun leggja fram formlegt svar við skýrslubeiðni þingmannsins á næstu dögum þannig að það efni má ræða. En ég bendi á að efnislega hefur skýrslubeiðninni þegar verið svarað í þinginu.