Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á óafgreiddum þingmálum. Hins vegar held ég að það mál sem hann nefndi hafi enga sérstöðu að því leyti, þó hann hafi kosið að velja það og utanrmn. Utanrmn. er ekki ein undir þá sök seld að vera ekki búin að afgreiða mál frá sér. Ég taldi saman hér áðan að sjálfur er ég með 33 mál sem hafa verið lögð fram á hinum ýmsu tímum og ekkert þeirra komið úr nefnd. Það elsta er rúmlega sex mánaða gamalt, eða frá 26. okt. í fyrra.
    Það má vel vera að þetta séu hin hefðbundnu vinnubrögð hér á Alþingi en það hefur þá a.m.k. gleymst að segja mér frá því eins og fleiri hlutum þegar ég kom hér fyrst og tók sæti. En á sama tíma eru haldnir fundir hjá forsetum og þingflokksformönnum um forgang mála sem ríkisstjórnin leggur fram og svo aftur um forgang fyrir mál sem stjórnarandstaðan leggur fram. Í þessu sambandi virðast mál sem einstakir þingmenn leggja fram engu skipta. Ég veit ekki hvað aðrir þingmenn hugsa sem leggja fram mál sem þingmenn en ekki hlutar af þessum tveimur blokkum, stjórn eða stjórnarandstöðu.
    Ég sjálfur veit það eitt að ef hin einstöku þingmannamál eiga stöðugt að víkja fyrir málum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu eins og t.d. gerðist í einni nefnd í morgun --- þar voru afgreidd fimm stjórnarmál en níu þingmannamál hafa legið þar óhreyfð í allan vetur --- þá verð ég alla vega þungur í taumi ef á að teyma mig hingað út sem strengjabrúðu til þess að rétta upp höndina trekk í trekk með stjórnarmálum, nema að mál alþingismanna fái sömu afgreiðslu. Stjórnarmál eiga ekki, frekar en stjórnarandstöðumál, að hafa forgang fram yfir þingmannamál, því þingmaðurinn er nú einu sinni einingin í þessum sal. Kjarninn hér er þingmaðurinn. Ef þingmaðurinn er stöðugt settur aftur fyrir þá verð ég alla vega þungur í taumi og getur vel verið að ég leiti til fleiri kverúlanta hér á þinginu og við bindumst samtökum um að vernda þingmanninn fyrir ríkisstjórn og stjórnarandstöðu.