Ferðamálastefna
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér aðeins upp og fagna þessari þáltill. sem er fram komin um ferðamálastefnu. Það er alveg ljóst, eins og hér hefur komið fram hjá ræðumönnum og í framsögu hæstv. ráðherra, að þetta er sá vaxtarbroddur í atvinnumálum í okkar landi sem ástæða er til að fara að líta alvarlega til. Og ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Vestf. að auðvitað eru ferðamálin, eins og þau eru að verða í dag, mikilvægur útflutningsiðnaður, það má orða það svo, þannig að hér er um að ræða einn af stærri mikilvægum þáttum í efnahagskerfinu í heild. Það sýnir þróun þessara mála. Þrátt fyrir það að skort hefur stefnumörkun í þessum málum hefur hún orðið ótrúlega jákvæð miðað við aðstæður. Við getum bara nefnt það sem hefur gerst í sveitum landsins, Ferðaþjónusta bænda hefur náð ótrúlega langt og víða og er til mikillar fyrirmyndar víðs vegar um hinar dreifðu byggðir landsins. Árangur sem þar hefur náðst, sem væri hægt að tíunda í löngu máli, sýnir að það er margt sem þarf að líta til í þessari atvinnugrein sem mörgum hefur e.t.v. ekki verið ljóst áður, en jafnvel erlendir ferðamenn hafa sýnt okkur með komu sinni hve mikilvægt þetta er í þeirra augum.
    Ég skal ekki hafa langt mál um þetta, virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir það að hér hefur verið unnið gott verk sem komið er frá þessari nefnd sem hefur markað vissa stefnu í þessum málum og sem hlýtur að leiða af sér að Alþingi verður að taka hér vel á málum og fylgja þessu máli eftir með nauðsynlegri lagasetningu. Ég ætla aðeins að nefna hér, sem hv. þm. er sjálfsagt vel kunnugt um, að það fjármagn sem hefur verið ætlað til ferðamála á undanförnum árum hefur verið af mjög skornum skammti og því miður hefur niðurstaðan orðið sú ár eftir ár að þrátt fyrir ákvæði laga um vissan tekjustofn Ferðamálaráðs hefur hann verið skorinn niður í fjárlagatillögum ríkisstjórnar og Alþingi hefur látið það ganga yfir sig að
sinna þessu máli ekki öðruvísi en að samþykkja þær tillögur sem þannig hafa verið lagðar fram.
    Þetta er náttúrlega nokkuð sem getur ekki gengið og það má vel vera að orsök þess að þessi aðgerð eða þetta aðgerðarleysi, réttara sagt, hefur náð fram að ganga sé að stefnumörkun í ferðamálum almennt hefur vantað. Þess vegna er þetta skref sem hér er verið að stíga að mínu mati mjög mikilvægt.
    Ég vil einnig nefna það að uppbygging á hótelum úti um landið hefur verið mjög erfið og nokkuð handahófskennd. Það er ljóst að flest hótel á landsbyggðinni hafa verið byggð af bjartsýni og án þess að hafa það fjármagn sem til þarf í þessum iðnaði undir höndum. Niðurstaðan hefur orðið sú að eigendur hótela hafa ekki ráðið við þessa uppbyggingu og lent í miklum fjárhagsvanda. Ferðamálasjóður, eins og við þekkjum hann, var til þess stofnaður að styrkja þessa starfsemi og leggja til þess fjármagn. En því miður hefur hann ekki haft það mikið fjármagn að

hann hafi getað staðið undir þessu og lán frá Ferðamálasjóði hafa verið ein dýrustu skammtímalán sem hægt hefur verið að taka til fjárfestingar. Þetta hefur orsakað það að allir þeir aðilar sem hafa staðið fyrir þessari uppbyggingu út um landið, eða allflestir, hafa lent í miklum vanda sem hefur verið reynt að leiðrétta að nokkru með sams konar aðgerðum, með því að láta Ferðamálasjóð koma aftur inn í dæmið, annaðhvort með hlutafé eða lengingu lána. En það hefur því miður ekki skilað viðunandi árangri eins og nýjustu dæmi sanna sem fjvn. hefur reynt að fjalla um á síðustu árum þegar í fjárlagagerðinni hafa verið tekin ákveðin hótel á landsbyggðinni og reynt að bjarga þeirra fjárhag og endurskipuleggja þau til rekstrar.
    Þetta er talandi dæmi um það sem er ekki í lagi hjá okkur og allt sem gengur út á að samræma aðgerðir á þessu sviði er það sem koma skal. Ég tek þess vegna sterklega undir það að þessari þáltill. sem hér kemur fram verði fylgt eftir með frumvörpum sem styrkja þessa uppbyggingu því að ég er í engum vafa um það, eins og raunar fleiri hafa sagt hér, að ferðamálaþjónusta á Íslandi á eftir að verða miklu mikilvægari hlekkur í okkar atvinnustarfsemi og í okkar útflutningsstarfsemi en menn hafa yfirleitt gert sér grein fyrir og þess vegna þarf að standa vel að þessu máli.