Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðsluna á þessu frv. og þó sérstaklega því álitaefni sem hv. 3. þm. Vesturl. gerði hér grein fyrir áðan varðandi ráðningu forstöðumanns stofnunarinnar á Keldum.
    Ég hef farið yfir það álit Lagastofnunar sem hv. þm. gerði grein fyrir og nefndin aflaði. Það er út af fyrir sig nokkuð skýrt hvert álit þeirra manna er sem þar skrifa undir. Það er með þeim hætti að ríkið sé hugsanlega bótaskylt ef breytt er ráðningarforsendum manna sem æviráðnir hafa verið samkvæmt gildandi lögum og venjum í þeim efnum sem hafa verið í gildi um áratuga skeið.
    Nú er það hins vegar svo að um þetta eru ekki allir sammála og um þetta mál hefur áður verið fjallað á öðrum vettvangi í tengslum við aðrar opinberar stöður. Þess vegna taldi ég óhjákvæmilegt að kynna þetta álit, sem hv. menntmn. aflaði, á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
    Það varð niðurstaða ríkisstjórnarinnar að þrátt fyrir þetta álit sem lá fyrir frá Lagastofnun væri rétt að fara fram með málið eins og hv. menntmn. Ed. gerir hér tillögu um. Rökin á bak við það eru margvísleg en þó fyrst og fremst þau að auðvitað verður ríkið að athuga sinn gang í þessu efni varðandi æviráðningu embættismanna þegar það liggur fyrir að verulegur vilji er til þess hér á hv. Alþingi að ráðningartími æðstu embættismanna ríkisstofnana verði yfirleitt tímabundinn. Ég held að sú aðferð sé í bestu samræmi við þau lýðræðislegu sjónarmið sem hafa unnið sér stuðning á undanförnum árum í mjög vaxandi mæli.
    Mál af þessu tagi hafa oftlega komið fyrir Alþingi á undanförnum árum, ekki aðeins á vegum núv. hæstv. ríkisstjórnar heldur á vegum fyrri stjórna. Gallinn hefur kannski verið sá að mönnum hefur ekki auðnast sem skyldi að samræma heildarstefnu í þessu efni. Þess vegna væri að mörgu leyti eðlilegt að á máli af þessu tagi væri tekið með heildarlöggjöf fremur en með breytingum á
einstökum lögum. Síðarnefnda leiðin hefur hins vegar verið valin, ekki aðeins í þessu frv. heldur í fjöldamörgum öðrum frv. sem afgreidd hafa verið hér á hv. Alþingi.
    Fyrir Alþingi munu núna liggja nokkur stjfrv. þar sem á þessum málum er tekið. Þar nefni ég auðvitað fyrst frv. um Tilraunastöðina á Keldum sem hér er á dagskrá. Ég nefni þar einnig frv. til útvarpslaga sem er til afgreiðslu í hv. menntmn. Ed. og ég nefni frv. til skipulagslaga sem hefur verið hér nokkuð til umræðu. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það að menn horfi á þessa hluti í samhengi en ég tel engu að síður nauðsynlegt, miðað við tilurð þessa máls sem hér er á dagskrá, að þetta mál verði afgreitt sérstaklega með þeim hætti sem hv. menntmn. leggur til. Ég tel að tillaga hennar sé afar skynsamleg miðað við allar aðstæður.
    Annað álitamál kemur upp varðandi afgreiðslu frv. Það er það að í frv. er gert ráð fyrir að forstöðumaður

Tilraunastöðvarinnar á Keldum sé jafnframt prófessor. Nú er það svo að núverandi forstöðumaður sem gert er ráð fyrir að haldi sinni stöðu áfram, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða, í a.m.k. sex ár er ekki prófessor eins og sakir standa. Menn kunna því að velta fyrir sér, er það þá svo að forstöðumaðurinn verði sjálfkrafa prófessor við Háskólann um leið og frv. hefur verið samþykkt í þeirri mynd sem það er núna. Athygli mín var vakin á þessari spurningu í gær. Ég hef velt henni dálítið fyrir mér og svar mitt er nei. Það er ekki þannig að forstöðumaðurinn verði sjálfkrafa prófessor við það að frv. verði að lögum. Hins vegar á samkvæmt háskólalögum forstöðumaður háskólastofnunar rétt á því að sækja um stöðu prófessors. Reynist hann síðan að loknu dómnefndarferli hæfur til að gegna prófessorsstöðu, þá getur hann fengið hana samkvæmt gildandi háskólalögum. Þannig getur núverandi forstöðumaður Keldna sótt þennan rétt hvenær sem er. Geri hann það og fái hann jákvæðan hæfnisdóm þá fær hann sjálfkrafa þá stöðu forstöðumanns og prófessors sem frv. í núverandi mynd gerir ráð fyrir. Hann félli þannig inn í það ferli sem frv. gerir í raun og veru ráð fyrir þó að það gerðist ekki um leið og frv. yrði afgreitt sem lög. Það er hins vegar mín skoðun að ekki sé óeðlilegt að þessi forstöðumaður, hafandi gengið í gegnum dómnefndarferlið, héldi síðan prófessorsstöðu áfram þó að hann viki úr forstöðumannsstöðunni.
    Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að taka þetta fram til þess að skýra eins vel og kostur er af hálfu ráðuneytisins þau álitamál sem upp koma við afgreiðslu frv. um leið og ég endurtek þakkir mínar til hv. menntmn. fyrir úrlausn hennar á þessu máli.