Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um frv. og ég byrja á því að taka það skýrt fram sem mér mun líklega hafa láðst í framsöguræðu minni að vitaskuld er þetta mál eingöngu lagt fram hér til kynningar. Í rauninni var ætlunin að leggja það fram allnokkru fyrr en því miður tafðist það nokkuð í meðförum og einmitt vegna þess sérstaklega að nefndin sem vann að samningu þess hafði nokkrum sinnum samráð við réttarfarsnefnd, eins og kemur raunar fram í lokum fyrsta hluta athugasemdanna á bls. 5, en þar segir:
    ,,Upphaflega hugðist nefndin einnig fella ákvæði um réttargæslumenn grunaðra manna og sökunauta í frv., en frá því var horfið að ábendingu réttarfarsnefndar, en endurskoðuð ákvæði um það efni er að finna í nýju frv. til laga um meðferð opinberra mála`` sem nýlega var mælt fyrir í Ed. Það er eins um það frv. Einungis var ætlast til þess að það væri hér til kynningar nú í vor. Hins vegar er megintilgangurinn sá að leggja þessi frv. eða önnur álíka að nýju fram í haust og það er einmitt þess vegna sem ég þakka sérstaklega þá umfjöllun sem hefur orðið og þær ábendingar sem hér hafa komið fram hjá þeim aðilum sem hafa um fjallað sem allir þekkja greinilega mjög vel til þessara mála, eru nú raunar sérfræðingar á þessu sviði, sumir hverjir, og ég vil ekki draga það undan að auðvitað er ágætt að hafa mál kvennalistakvenna á þskj. 718 til hliðsjónar í sumar í þessu efni til undirbúnings málinu í haust.
    Ég ætla ekki að fara frekar út í einstök atriði. Hjá hv. 3. þm. Reykv. kom fram ein ákveðin fyrirspurn. Ég hef ekki skýr svör við henni enda held ég að hún sýni það í rauninni að málið er að nokkru leyti hrátt enn þá þannig að enginn vafi er á að þetta þarf að vinna frekar, því að eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl. er þessi löggjöf vandasöm, það er enginn vafi á því, og þeim mun vandasamari ef tilgangurinn er að ná fram raunhæfu markmiði en ekki einungis minnisvarða, eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv.
    Ég endurtek þakklæti mitt fyrir þessa umræðu, sérstaklega, og ég er viss um að hún verður þessu máli frekar til góðs en hitt.