Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. flutti að ýmsu leyti athyglisverða ræðu hér áður í þessum umræðum. Ef ég hef skilið hann rétt þá er hann á móti því að gera Sementsverksmiðjuna að hlutafélagi. Ef ég hef skilið hann rétt þá er þessi stjórnarþingmaður andvígur stjfrv. sem við erum nú að ræða hér. Ég skal ekki gera það að ádeiluefni á hv. þm., en það sýnir greinilega að hann er ekki kominn eins langt á þróunarbrautinni frá ríkisrekstri til einkareksturs eins og ýmsir af hans flokksbræðrum virðast vera, a.m.k. að nafninu til.
    Hv. 4. þm. Vesturl. lagði mikla áherslu á mikilvægi landsútsvara. Hann fór nokkrum orðum um þetta atriði og ég vil segja það strax að ég er honum algerlega sammála í því efni. En ef ég hef skilið hv. þm. rétt þá er í þessu efni um nokkurn og alvarlegan misskilning hjá hv. þm. að ræða. Ég skildi ekki betur en hann liti svo á að frv., sem við nú ræðum, breyti því sem nú er, að Sementverksmiðjan greiði landsútsvar og að það eigi að taka upp þá skipan að Sementsverksmiðjan greiði aðstöðugjald. Þetta er misskilningur. Það er í þessu frv. engin breyting gerð á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og þá 9. gr. þeirra laga sem fjallar um landsútsvör og kveður á um það að Sementsverksmiðjan skuli greiða landsútsvar.
    Tilgangurinn með því að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag eða öðrum ríkisfyrirtækjum í hlutafélag er ekki sá að breyta skattlagningu á þessi fyrirtæki. Tilgangurinn er sá að breyta rekstrarformi þessara fyrirtækja. Það er verið að breyta ríkisfyrirtækjum í rekstrarform sem hæfir einkaframtakinu. Þess vegna eiga að vera sem minnstar hömlur á sölu hlutabréfa Sementsverksmiðjunnar. Annað er órökrétt og ekki í samræmi við tilgang þessa frv., eins og ég skil hann og tel að hann hljóti að vera.
    Ég ræddi hér fyrr um þetta mál en vék þá ekki sérstaklega að brtt. á þskj. 1009 frá iðnn. við 1. gr. frv. um að orðin ,,við stofnun félagsins`` í niðurlagi 1. gr. falli niður. Ég vék að þessu orðalagi í 1. gr. frv. um að öll hlutabréf í hlutafélaginu séu í eign ríkissjóðs við stofnun félagsins. Ég benti á að þetta orðalag væri vegna þess að það væri möguleiki fyrir því að selja hlutabréf. Nú er lagt til með brtt. að fella niður orðin ,,við stofnun félagsins``. Merkingin í þessari grein er því sú að hlutabréfin eigi ekki að vera til sölu.
    Þetta er í ósamræmi við 8. gr. frv. Óbreytt er 1. gr. frv. í samræmi við 8. gr. frv., eins og frv. er lagt fram. Ef henni verður breytt, eins og brtt. gerir ráð fyrir, þá er komið ósamræmi þarna á milli því að í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að það geti verið að hlutabréfin séu seld þó að það sé tekið fram að það þurfi samþykki Alþingis til þess.
    Ég er andvígur því að samþykkja þessa brtt. og mun greiða atkvæði gegn henni vegna þess að hún gengur gegn þeirri hugsun að það eigi að vera sem minnstar hömlur á sölu hlutabréfa. En þó að brtt.

verði samþykkt þá er hún í raun og veru meiningarleysa vegna 8. gr. En það er ástæða til þess að greiða atkvæði gegn tillögu sem er meiningarleysa.
    Ég ítreka svo það sem ég hef áður sagt, og stend að nál. og legg til að frv. verði samþykkt, en ég hef gert grein fyrir því hvað liggur á bak við fyrirvara sem ég hafði á um nál.