Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fagna því að þetta frv. skuli nú fram komið. Það er vissulega rétt sem hæstv. samgrh. sagði að ýmsir voru þeir sem hefðu kosið að þetta mál mætti ganga nokkru hraðar fram. Ég gagnrýni það engan veginn og það er raunar lofsvert að málið var fengið sérstakri undirbúningsnefnd og athugunarnefnd sem hefur unnið, að mér sýnist, ákaflega vandað starf, enda voru þar hæfir einstaklingar að verki undir forustu aðstoðarvegamálastjóra, Helga Hallgrímssonar. Þeir hafa unnið gott verk og eiga þakkir skildar. Það er auðvitað líka hverju orði sannara að þetta mál allt þarf vandaðan og mikinn og ítarlegan undirbúning.
    Það er nokkuð síðan þingmenn Vesturlands fluttu þáltill., þar sem undirritaður var 1. flm., sem náði hér fram að ganga um vegtengingu af þessu tagi. Í greinargerð með henni var saga þessa máls rakin og einmitt sérstaklega bent á þessa leið sem farin hefur verið mjög víða, sérstaklega í Noregi. Ég held að hér sé í rauninni einstakt tækifæri til þess að koma í framkvæmd einhverri mestu samgöngubót sem orðið getur á landi hér. Ég held að til þess hnígi nú öll rök að þetta geti orðið að veruleika. Það er hægt að gera þetta utan við vegáætlun, það er hægt að gera þetta án þess að atbeini ríkisvaldsins í beinum fjárframlögum þurfi til að koma. Ég fagna sérstaklega þeirri jákvæðu afstöðu sem hæstv. samgrh. hefur til málsins og þeim skýlausu yfirlýsingum sem hann gaf um að vilja reyna þessa nýju aðferð í vegaframkvæmdum sem ég hef lengi verið sannfærður um að hentar einstaklega vel við þessa sérstöku framkvæmd.
    Þetta getur áreiðanlega orðið arðbært fyrirtæki, í þeim skilningi og þannig að veggjald þarf ekki að vera svo hátt að menn munu sjá sér mikinn hag í því að fara þessa leið. Það er hægt að láta þetta mannvirki standa undir sér. Eftir einhvern ákveðinn tíma verður það eign ríkisins og getur þá skilað
ríkinu umtalsverðum tekjum sem væri þá hægt að nota í þágu annarra vegaframkvæmda. Hér er því um hið merkasta mál að ræða.
    Ég ætla ekki að ræða sérstaklega efnisatriði málsins. Hæstv. ráðherra gerði því ágæt skil. Það hefur sýnt sig að vegabætur og samgöngubætur af þessu tagi, og nú höfum við auðvitað ekki ráðist í neitt sem jafna má til þessa verks áður, valda meiri umferðaraukningu en menn órar fyrir þegar verið er að undirbúa og skipuleggja málin. Það hefur komið í ljós t.d. eftir að bundið slitlag var sett á vegi austur fyrir fjall og á Reykjanesbrautina á sínum tíma. Menn nota vegina miklu meira vegna þess að í rauninni styttast leiðirnar við þetta.
    Þetta er ekki aðeins hagsmunamál fyrir Vestlendinga, þó það sé auðvitað mikið hagsmunamál fyrir þá og einkanlega Akurnesinga og sveitirnar sunnan Skarðsheiðar. Þetta mun hafa byltingu í för með sér fyrir það svæði. Það mun gera það að verkum að það verður sama atvinnusvæði og höfuðborgarsvæðið. Mönnum hættir gjarnan til að

horfa á þetta frá einni átt, að það verði sem sagt auðveldara fyrir þá sem þar búa að sækja vinnu hér og það muni draga mátt úr staðnum, halda sumir fram. En ég held að menn eigi líka að horfa á þetta frá hinu sjónarmiðinu. Ég er handviss um það að það eru margir hér á höfuðborgarsvæðinu sem mundu gjarnan kjósa að búa á Akranesi eða þar í grennd og sækja vinnu til Reykjavíkur, sem er ekkert tiltökumál eftir að svona mannvirki er komið í gagnið, sem mundu gjarnan vilja njóta þeirra kosta sem það býður upp á að vera búsettur á slíkum stað en geta stundað sína vinnu eftir sem áður hér í höfuðborginni. Mjög margt bendir til þess að það sé allstór hópur sem kýs beinlínis slíkt fyrirkomulag. Við höfum séð það t.d. núna seinustu ár að það er orðið mjög algengt að íbúar fyrir austan fjall, í Hveragerði, á Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka beinlínis stundi vinnu í Reykjavík alla daga.
    Þetta mun hafa miklar breytingar í för með sér, ekki aðeins fyrir Vesturland heldur fyrir næstum alla landsmenn. Þetta er einhver mesta og besta samgöngubót sem við getum ráðist í. Við eigum að gefa þessu máli góðan byr og ég vona að það fái mjög greiðan gang í gegnum þingið og að samgn. þessarar hv. deildar muni hafa snaggaraleg vinnubrögð við afgreiðslu málsins þannig að við getum sem fyrst samþykkt það hér í Ed.