Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Reykv., spyr í fyrsta lagi hvort ég sé samþykkur áliti bankaráðs Seðlabankans um að vísa eigi á bug niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um störf bankaeftirlitsins að málefnum Ávöxtunar sf.
    Ég er nú ekki viss um að ég vilji taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að Seðlabankinn hafi vísað á bug niðurstöðu umboðsmanns. Eins og fram kemur í fyrirspurninni eru bankaráðið og bankastjórn Seðlabankans í veigamiklum atriðum ósammála þeim niðurstöðum sem fram koma í áliti umboðsmanns, bæði að því er varðar mat hans á hlutverki bankaeftirlitsins við þær aðstæður sem fyrir hendi voru og einnig mat hans á einstökum atriðum í þeirri atburðarás sem um er fjallað.
    Fyrir þessari afstöðu hafa forsvarsmenn Seðlabankans fært þau rök að lengst af þess tíma sem Ávöxtun sf. starfaði giltu ekki nein lög um fjármálastarfsemi af þessu tagi og bankaeftirlitið hafði því ekki heimildir eða skyldur til þess að hafa afskipti af rekstrinum.
    Bankaeftirlitið taldi þó í febrúar 1986 að Ávöxtun sf. hefði brotið lög um innlánsstofnanir og kærði þá forsvarsmenn fyrirtækisins til ríkissaksóknara. Að lokinni rannsókn þess máls var það látið niður falla af hálfu ákæruvaldsins.
    Hinn 1. júní 1986 tóku hins vegar gildi lög um verðbréfamiðlun. Þá fyrst fékk bankaeftirlitið heimildir til þess að fylgjast með rekstri verðbréfamiðlara og vegna þess að annar eigenda Ávöxtunar fékk slíkt leyfi gafst bankaeftirlitinu tækifæri til þess að hafa nokkur afskipti af rekstri fyrirtækisins. Þessi lög giltu síðan þann tíma sem Ávöxtun sf. starfaði. Lögin voru hins vegar mjög ófullkomin hvað snerti eftirlit með starfsemi verðbréfasjóða eins og reyndar kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.
    Þessi staðreynd varð mér ljós og þegar ég tók við starfi viðskrh. lét ég þá þegar hefja starf við að semja frv. til nýrra laga um þetta efni. Ég tek undir þá skoðun bankaráðsins og bankastjórnar Seðlabankans að bankaeftirlitið hafi starfað eins og hægt var að ætlast til við gildandi lagaramma á starfstíma Ávöxtunar sf.
    Í öðru lagi spyr hv. fyrirspyrjandi hvort við því megi búast að ráðherra láti fara fram sjálfstæða athugun á störfum bankaeftirlitsins í þessu máli. Svarið er nei. Eins og fram kom í samþykkt bankaráðs og bankastjórnar Seðlabankans hefur þetta mál verið athugað og ég tel þá athugun fullnægjandi að svo stöddu.
    Þá er einnig spurt hvort viðskrh. muni á einhvern hátt beita sér fyrir því að Seðlabankinn reyni að semja við það fólk sem sannanlega hafi orðið fyrir stórfelldu tjóni sem a.m.k. að einhverju leyti megi rekja til vanrækslu bankaeftirlitsins að dómi umboðsmanns. Svarið við þessari spurningu er líka neikvætt. Þeir sem urðu fyrir tjóni við gjaldþrot Ávöxtunar undirbúa nú málshöfðun á hendur Seðlabanka og ríkissjóði fyrir dómstólum. Það er rétt að síkt dómsmál hafi sinn

gang. Ég tel engar þær ástæður vera fyrir hendi sem orðið geti til þess að Seðlabankanum beri að leita eftir samningum við tjónþola í máli Ávöxtunar sf.
    Eins og þegar er komið fram í mínu máli tel ég að eftirlitið hafi verið í því horfi sem lög gerðu ráð fyrir. Hitt er annað mál hvort í ljós kemur við uppgjör á þrotabúi Ávöxtunar að kröfuhafar geti fengið hluta af kröfum sínum greiddan.
    Í þriðja lagi spyr hv. fyrirspyrjandi hvort ég telji að núgildandi lög um verðbréfaviðskipti leggi fébótaábyrgð á Seðlabankann ef vítaverð vanræksla hefur átt sér stað af hálfu bankans við eftirlit með verðbréfasjóði sem verður gjaldþrota. Í núgildandi lögum er ekki að finna nein ákvæði sem leggja slíka fébótaábyrgð á Seðlabanka Íslands og hv. fyrirspyrjanda er líka án alls efa af sinni lögfræðikunnáttu kunnugt um niðurstöður þeirra dóma sem fallið hafa í málum þar sem opinberum aðilum hefur verið stefnt vegna vanræktrar eftirlitsskyldu.
    Í þessari fyrirspurn er einnig vikið að gjaldþroti verðbréfasjóða sem telja verður annað og aðskilið mál. Í því sambandi má nefna að með ítarlegri löggjöf um starfsemi slíkra sjóða eins og nú gildir í landinu er unnt að minnka verulega líkur á að slíkir sjóðir verði gjaldþrota. Það er mikilvægt að taka það fram að starfsemi verðbréfasjóða lýtur alls ekki sömu lögmálum og gilda um hefðbundna starfsemi innlánsstofnana. Hjá innlánsstofnunum er öryggi innstæðueigenda í fyrirrúmi en hjá verðbréfasjóðunum er yfirleitt reynt að ná betri ávöxtun fjár um leið og nokkur áhætta er óhjákvæmilega tekin. Því miður verða seint eða aldrei í lög leidd ákvæði sem koma í veg fyrir gjaldþrot eða veita fullkomnar bætur til lánardrottna í slíkum tilfellum en gildandi löggjöf, hin nýja löggjöf, gegnir því hlutverki fyrst og fremst að koma í veg fyrir óheiðarlega meðferð fjár með eftirliti og ákveðnum verklagsreglum.