Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Undirbúningur þess að afgreiða fiskveiðistjórnunarmálið héðan frá hv. Alþingi er mjög á svipaðan veg og verið hefur á undanförnum árum. Nú er sem fyrr komið að lokum þinghalds og nú skal hespa málið á örskammri stund í gegnum þingið. Þetta eru hlutir sem hafa gerst ár eftir ár þegar þessi mikilsverðu mál hafa verið til umfjöllunar á hv. Alþingi. Og þetta er frágengið á þann hátt, ekki aðeins núna heldur jafnan fyrr, að því er lýst yfir að forustumenn flokka, forsetar og formenn þingflokka hafi samþykkt þetta eða hitt í sambandi við meðferð mála. Vera má að oftast nær hafi hlutirnir verið á þennan veg, samþykkt af þessu forustuliði, en oftast nær er það samt á þann hátt, samkvæmt mjög ákveðnum tilmælum ráðherra, og þá oftast nær viðkomandi fagráðherra, að málin eru rekin í gegnum þingið eins og raun ber vitni um og á nú að gera enn einu sinni.
    Nú eru komnar yfirlýsingar um það frá hæstv. forsrh., eftir því sem mér skilst og hv. 3. þm. Vestf. lýsti yfir, að það væri allsherjarsamkomulag á þingi um það að afgreiða fiskveiðistjórnarfrv. frá Ed. nk. laugardag.
    Ég veit ekki til þess að slíkt samkomulag hafi verið gert við þingmenn og ég veit ekki til þess að slíkt samkomulag hafi verið orðað í þingflokki Alþb. Aftur á móti var um það talað í þingflokki Alþb. að rétt væri að standa að því að þetta mál fengi afgreiðslu út úr nefndinni og jafnvel að menn mundu standa að því þó þeir væru ekki sammála því, þ.e. þingmenn í liði Alþb. Sá sem hér stendur, sem er ekki sammála þeirri afgreiðslu sem verið er að leggja til, að málið verði afgreitt frá nefndinni, en alls ekki á þann veg að til umræðu um málið verði allur laugardagurinn og að 2. og 3. umr. skuli klárast á þeim degi. Það er að mínu mati móðgun við þingið að ætlast til þess að þetta mikla mál, þetta stóra mál verði rætt og afgreitt úr fyrri deild þingsins á einum degi og innan þess ramma að menn hafi ekki nema einn dag til þess að undirbúa sig fyrir umræðuna og ganga frá brtt. Ég tel að hér sé verið að stíga enn eitt spor í þá átt að lítilsvirða störf þingmanna.