Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þrír hv. þm. ríkisstjórnarflokkanna hófu þessa umræðu til þess að gera árás á ríkisstjórnina, hæstv. forsrh. og aðra ráðherra í hæstv. ríkisstjórn. Ég hygg að öllum sé ljóst hverju þessir hv. þm. eru að lýsa yfir og hvers konar ástand er hér á hinu háa Alþingi þegar stjórnarþm. taka til máls með þessum hætti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þeirra innbyrðis deilur.
    Það er í raun og veru kannski allt annar flötur á þessu máli sem er miklu alvarlegri. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það hefur jafnan verið svo á undanförnum árum þegar fiskveiðistjórn hefur verið ákveðin til bráðabirgða að það hefur verið gert hér á mjög knöppum tíma í lok þinghalds eða fyrir leyfi þingmanna. Nú er það svo að það hefur ekki alltaf verið hægt að haga málum á annan veg en þennan. En við skulum hafa það í huga að af hálfu stjórnvalda og af hálfu hæstv. sjútvrh. hefur jafnan verið staðið þannig að undirbúningi þessa máls að það hefur verið unnið í ráðgjafarnefndum þar sem þeir aðilar sem starfa í sjávarútveginum hafa komið saman ásamt með fulltrúum stjórnmálaflokka. Málið hefur aldrei verið afgreitt af hálfu stjórnvalda öðruvísi en í fullu samkomulagi við þá aðila sem í sjávarútveginum starfa. Þannig hefur verið haldið af hyggingum á þessu máli þar til nú að hæstv. sjútvrh. beitir sér fyrir lausn á þessu viðamesta máli, sem íslenska þjóðin þarf nú að taka ákvarðanir um, með algerlega nýjum hætti, með því að virða að vettugi þá grundvallarreglu, sem hann hefur viðhaft sjálfur fram að þessu, að leggja fram tillögur hér að höfðu samráði og með samkomulagi við þá aðila sem starfa í sjávarútveginum. Með þessu er hæstv. ráðherra að rjúfa þá sátt sem hefur verið um vinnubrögð varðandi undirbúning þessara mála fram til þessa. Hann getur með þessu stefnt þessu máli í stórstyrjöld úti í þjóðfélaginu. Ég trúi ekki öðru en hann geri sér grein fyrir því að með því að taka upp algerlega ný vinnubrögð í þessu efni er hann auðvitað að stefna umræðum og framgangi málsins í hættu hér á Alþingi.
    Það er þessi flötur málsins sem er það alvarlegasta og væri ástæða til að ræða hér áður en frv. sjálft verður tekið til umræðu.