Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli formanns utanrmn., hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar, skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Hér er um að ræða breytingar á stofnsáttmála Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, þannig að sú krafa sem Íslendingar hafa haft uppi, að fiskur verði meðhöndlaður á sama hátt og iðnaðarvörur, verði tekin inn í sáttmálann. Með kröfunni um fríverslun með fisk hafa Íslendingar lagt áherslu á að þegar verið er að semja um verslun með vörur séu fiskafurðir okkar ekki undanskildar.
    Það er okkur mikið hagsmunamál að tollar á fiskafurðum lækki, ekki síst tollar á unninni vöru. En er krafan um algjöra fríverslun eðlileg krafa af okkar hálfu? Það þarf að kanna mikið betur að mínu mati.
    Þann 29. nóv. sl. leitaði Evrópustefnunefnd Alþingis til nokkurra aðila með spurninguna varðandi fríverslun með fisk. Í bréfi sem nefndin sendi þeim stendur, með leyfi forseta, þegar búið er að rekja nokkrar spurningar:
    ,,Jafnframt telur nefndin nauðsynlegt að fá mat á því hvaða áhrif það hefði á möguleika Íslendinga til að reisa skorður við útflutningi á óunnum og hálfunnum fiski ef stefnan um algera fríverslun næði fram að ganga.``
    Í greinargerð frá Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni sem hann sendi sem svar við þessu bréfi stendur m.a., með leyfi forseta:
    ,,Mér virðist vera eins konar mótsögn í spurningunni. Ef um algera fríverslun er að ræða er alls óheimilt að reisa skorður við útflutningi á óunnum eða hálfunnum fiski. Væri það gert væri um fríverslun með undanþágu að ræða eða takmarkaða fríverslun.`` Síðar segir hann: ,,Íslendingar hafa beitt sér fyrir fríverslun með fisk innan EFTA og komi slík fríverslun með fisk til framkvæmda leiðir það óhjákvæmilega til þess að afnema verður allar takmarkanir á útflutningi, svo sem eftir magni og vinnsluaðferð. Svar við spurningunni um
skorður á útflutningi er þess vegna óhjákvæmilega það að í samninga við EB um fríverslun verður að fást sérstök heimild til undanþága ef Íslendingar vilja eiga þess kost að reisa slíkar skorður. Á móti verður að láta einhverja hagsmuni og því verður um fríverslunarsamning með takmörkunum að ræða.
    Ég tel það hins vegar utan míns verksviðs að íhuga líkurnar á að slík undanþága fengist og þá gegn hvaða endurgjaldi. Sú samningsstaða er líklega mjög erfið, að krefjast fríverslunar með fisk en gera jafnframt fyrirvara um fríverslun.``
    Ragnar Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, sem sendi nefndinni einnig svar við þeim spurningum sem hún bar fram og m.a. þessari, telur mjög ólíklegt að Íslendingar geti reist skorður við útflutningi á hálfunnum og óunnum fiski ef samið verður um algjöra fríverslun. Í bréfi sínu til nefndarinnar segir hann frá því að Kanadamenn hafi nýlega verið neyddir til að fella niður að miklu leyti takmarkanir sem voru í gildi í Kanada um útflutning á óunnum

fiski. Þetta var gert á grundvelli fríverslunarsamnings milli Kanada og Bandaríkjanna. Ég tel nauðsynlegt að þessi mál verði könnuð ofan í kjölinn þannig að við séum ekki að gera kröfur varðandi verslun með sjávarafurðir sem koma sér illa fyrir okkur þegar málið er skoðað í heild.
    Framtíð okkar sem matvælaframleiðenda felst ekki í því að flytja út hálfunninn og óunninn fisk til verksmiðja á meginlandi Evrópu. Við verðum því að fara mjög varlega í þessum málum og rasa ekki um ráð fram.
    Sú breyting sem nú er verið að gera á stofnsamningi EFTA og hér er gerð tillaga um að staðfesta mun væntanlega ekki hafa áhrif til hins verra fyrir Ísland og þess vegna felst ekki hætta í því að staðfesta þessa breytingu að mínu mati. Það hefði verið nauðsynlegt að fara betur ofan í saumana á þessu máli í hv. utanrmn. til að kanna hvaða áhrif fríverslun hefði fyrir okkur í heild og hvaða takmarkanir slíkir samningar setja okkur. Til þess vannst því miður ekki tími.
    Mikilvægt er að við höfum möguleika á að stjórna sjálf útflutningi á fiski jafnframt því að tryggja fiskafurðum okkar hagstæða markaði. Ég endurtek, virðulegur forseti: Ég styð þá tillögu sem hér liggur fyrir með þeim fyrirvörum sem ég hef gert grein fyrir og treysti því að í samningum við aðrar þjóðir verði haft hugfast að við verðum að efla fjölbreytni atvinnulífs með því að fullvinna sjávarafurðir okkar í ríkara mæli en nú er gert.