Læknalög
Föstudaginn 04. maí 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á það að sú breyting á læknalögunum sem hér er til umræðu hlaut mjög mikla umræðu í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál í Nd. Margar umsagnir lágu fyrir sem voru mjög merkilegar. Helsta ástæðan fyrir því að nefndin sá sér ekki fært að afgreiða nú 1., 2. og 3. gr. frv. er sú að mjög mikill ágreiningur var út af þeim efnisatriðum sem þær greinar mæltu fyrir um. Voru nánast allir umsagnaraðilar eindregið á móti afgreiðslu þeirra óbreyttra.
    Enn fremur var mjög mikið rætt í nefndinni um það ákvæði í núgildandi læknalögum að afhending sjúkraskráa skuli vera afturvirk, þ.e. lögin séu afturvirk, það sé hægt að afhenda sjúkraskrár aftur í tímann. Voru menn almennt mjög svo andvígir því. Enda er um viðkvæmt efni að ræða. Það sést enn fremur á þeirri breytingu sem er gerð tillaga um í frv. um fyrirsögn í G.-lið í III. kafla laganna. Þar er fyrirsögninni breytt úr því sem er í læknalögum, ,,Afhending sjúkraskráa``, í: Meðferð upplýsinga í sjúkraskrám, þar sem mönnum þykir ekki einhlítt að sjúkraskrár eigi að afhenda í heilu lagi hvenær sem er og hverjum sem er, heldur þurfi þar að hafa nánari aðgát.
    Mig langar til að vekja einnig sérstaka athygli á þeirri breytingu sem nefndin gerði á þeirri tímalengd sem landlæknir hefur slíkt áfrýjunarmál til meðferðar þar sem tíminn er lengdur úr fjórum vikum upp í átta vikur. Ástæðan fyrir því að nefndin breytti þessu er sú að landlæknir sagði í sinni umsögn m.a. að fjórar vikur væru allt of skammur tími. Segir hér í hans umsögn, með leyfi forseta, um þessa grein: ,,Ég legg til að greinin standi óbreytt eins og í frv. nema að frestur til afhendingar verði lengdur í tvo mánuði, m.a. vegna þess að landlæknir getur þurft að leita til óháðra sérfræðinga sem þurfa þá að kynnast sjúklingi áður en þeir gefa umsögn um málið.`` Það er alveg ljóst í þessu dæmi að þarna þarf landlæknir lengri tíma ef hann þarf að leita til óháðra sérfræðinga, sem almennt má gera ráð fyrir. Ef um geðsjúkdóma t.d. væri að ræða mundi sérfræðingur þurfa enn lengri tíma til þess að kynnast sjúklingi og komast inn í málið áður en hann gæti gefið óháða umsögn. Þetta atriði er enn fremur staðfest í áliti læknadeildar Háskóla Íslands og Læknafélags Íslands sem sendu sameiginlega mjög ítarlega umsögn um þetta mál. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Komi upp ágreiningur um hvort sjúklingur hafi ótvíræða hagsmuni af því að sjá sjúkraskrá sína er nauðsynlegt að geta leitað úrskurðar óháðs aðila. Gæti þá verið um að ræða annaðhvort læknaráð, sbr. lög nr. 14/1942, eða landlækni, enda hafi hann samráð við sérfræðing í þeirri grein sem sjúkdómur viðkomandi einstaklings heyrir til.`` Í þessari umsögn er reyndar lagt til að endanlegur ágreiningur fari til læknaráðs. En nefndin taldi að hægt væri að komast að einhverju leyti hjá því með því að lengja þann frest sem landlæknir hefði mál til meðferðar þannig að það væri áskilið að hann

gæti þá leitað til hlutlausra sérfræðinga.
    Ég held að þessar breytingar á læknalögunum skýri sig sjálfar. Það urðu mjög miklar umræður um þær veitingar sérfræðileyfa sem hinn norræni samningur gerir ráð fyrir. Þar er um að ræða miklu stærra og viðameira mál en nefndin hafði tíma til að afgreiða og því er fyrstu þremur greinunum sleppt.
    Að öðru leyti legg ég áherslu á að hv. nefnd lagði mikla vinnu í þetta mál og fékk marga gesti á sinn fund og skoðaði þetta mál vel og vandlega.