Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þetta mál hefur nú, eins og alþjóð veit og fram hefur komið í þessari umræðu, verið alllengi til meðferðar hér á Alþingi í vetur. Stjórnarþingmenn hafa orðað það svo að það hafi dröslast hér og ég held að það orðalag sé nokkuð við hæfi. Það hefur farið með þetta mál eins og til var stofnað. Því miður er það svo að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið á þessu, einu stærsta verkefni sem við Íslendingum blasir eins og öðrum þjóðum, á þann veg sem raun ber vitni og er hæstv. ríkisstjórn ekki til sæmdar, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Það er öllum orðið kunnugt að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar var ekki stofnað til þessarar málsmeðferðar af áhuga eða vilja til þess að taka á þessu mikilvæga verkefni. Hér var einungis um að ræða þátt í kaupmennsku til þess að borga fyrir atkvæði hér á Alþingi. Því miður hefur þetta mikilvæga mál dregist inn í þau vinnubrögð og öll málsmeðferðin hér hefur borið merki þess hugarfars sem að baki býr af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Það er ekki ágreiningur um mikilvægi og nauðsyn að taka á þessum viðfangsefnum. Það einkennir umræðu um þessi viðfangsefni að þau sjónarmið sem að öllu jöfnu skipta mönnum í ólíka stjórnmálaflokka skipta mönnum ekki almennt í ólíka hópa í þessu efni. Þó er það svo að eðlilega hafa menn mismunandi skoðanir á því hvernig best sé að skipa þessum málum, stjórnskipulega séð. Sjálfstfl. flutti frv. um það efni. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að gera grein fyrir þeim ágreiningi sem uppi er í því efni. Það frv. byggði á því að við teljum að þetta sé eitt af allra brýnustu viðfangsefnum Íslendinga á næstu árum. Það frv. byggði á því að unnt væri að koma þessum málum fyrir í stjórnsýslunni með skipulegum og öruggum hætti, þannig að unnt væri að segja að komið væri á samræmdri stjórn en um leið væri ábyrgð allra ráðuneyta aukin á þessum sviðum. Og það er sú meginstefna sem nú er fylgt víðast hvar í heiminum við stjórnun
umhverfismála. Jafnframt vildum við gæta þess að sú breyting leiddi til sem minnstra útgjalda. Reyndar teljum við að gera eigi verulegar breytingar á Stjórnarráðinu, fækka megi ráðuneytum og koma verkefnum fyrir á kostnaðarminni hátt en nú er. En núv. hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að fara aðra leið og fjölga ráðuneytum. Það sem felst í sjónarmiðum hæstv. ríkisstjórnar og felst í þeirri niðurstöðu sem hér er stefnt að af hálfu hæstv. stjórnar er eitthvert mesta klúður að mínu mati sem dæmi eru um í stjórnsýslu.
    Ég ætla ekki að rekja það í löngu máli en það er ljóst að ef þetta verður niðurstaðan sem nú stefnir í þá er umhverfismálum verr komið en áður í stjórnsýslunni. Glundroðinn og skipulagsleysið er meira en áður. Ég vil minna á að í allri þessari meðferð hefur ekki ein einasta hugmynd eða till. komið fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um nýja löggjöf í þessu efni eða ný ákvæði. Allt þetta mikla umstang hefur gengið út á skæklatog um það að taka

eina lagagrein úr þessum lögum og aðra úr hinum og færa á milli lagabálka og ráðuneyta. Það er nú allt og sumt sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur haft fram að færa í þessu efni. Má ljóst vera að mál eru í meiri glundroða og meiri óvissu en áður. Það er beinlínis verið að skemma fyrir þessu mikilvæga hagsmunamáli.
    Ég ætla ekki að rekja það í löngu máli, en tökum sem dæmi skipaeftirlitsmann. Hann er starfsmaður stofnunar sem heyrir undir ráðuneyti. Að nokkrum hluta eiga störf hans óskilgreint að falla undir annan ráðherra. Stundum er hann starfsmaður ráðherra nr. 1, í annan tíma starfsmaður ráðherra nr. 2. Og eins og hæstv. forsrh. benti á getur komið upp ágreiningur milli ráðherra um hvernig með mál skuli þá fara. Og með því að skipaeftirlitsmaðurinn getur ekki þjónað tveimur herrum í einu getur hann lent í erfiðleikum með að meta hvaða ráðherra hann eigi að þjóna á hverri stundu þó enginn ágreiningur sé að öðru leyti milli ráðherra. Hann á að þjóna ráðherra nr. 1, hann á að þjóna ráðherra nr. 2 og síðan á ráðherra nr. 3 að ákveða með reglugerð hvernig koma eigi hlutunum heim og saman. Ég held að ekki sé hægt að koma málum fyrir með meira skipulagsleysi en hér er stefnt að.
    Þegar þessi hæstv. ríkisstjórn hefur, eftir dóm kjósenda, safnast á fund feðra sinna þarf að mynda nýja ríkisstjórn. Ég er sannfærður um það að enginn þeirra flokka sem nú standa að ríkisstjórn og lifa næstu kosningar af muni taka þátt í því að mynda nýja ríkisstjórn nema með því að breyta því klúðri sem hér er verið að lögfesta. Ég hygg að sómi þeirra sé í raun og veru sá að þeir kjósi, þegar þessi hrossakauparíkisstjórn hefur safnast til feðra sinna, að standa að myndun nýrrar ríkisstjórnar með því að breyta þessu klúðri. Og ég get tekið það fram að af hálfu Sjálfstfl. kemur aldrei til greina að taka þátt í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar án þess að gera hér á grundvallarbreytingar á þann veg að menn geti treyst því að umhverfismálum sé komið fyrir með skipulegum og öruggum hætti, þannig að yfirstjórn þeirra verði markvissari, ábyrgðin víðtækari í öllum ráðuneytum og með minni kostnaði en hér er stefnt að. Aðeins á þeim grundvelli mun Sjálfstfl. geta tekið þátt í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég endurtek að ég er sannfærður um
það að þeir flokkar sem nú standa að núv. ríkisstjórn og hugsanlega munu lifa af næstu kosningar sjá sóma sinn í því að standa ekki að myndun ríkisstjórnar án þess að gera slíkar breytingar.