Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Mál þetta hefur verið allmikið rætt í tengslum við annað frv. sem hér hefur verið á dagskrá, frv. til laga um stjórn fiskveiða. Vegna þess hve lítill tími er hér í deildinni og mörg mál á dagskrá vil ég ekki tefja tíma deildarinnar með því að hafa um mál þetta mörg orð. Frv. þessa efnis var flutt hér á síðasta Alþingi um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Síðan var það flutt að nýju á síðasta hausti en mál þetta hefur þó tekið nokkrum breytingum í meðferð hv. Ed.
    Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn hafi tvíþætt hlutverk.
    Í fyrsta lagi að stuðla að fækkun fiskiskipa og draga þar með úr því ósamræmi sem er milli afkastagetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu
nytjastofna sjávarins. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að sjóðnum sé fengið það hlutverk að koma til aðstoðar ef straumhvörf hafa orðið í atvinnumálum byggðarlags vegna sölu fiskiskipa. Það gerir sjóðurinn með því að tryggja fiskvinnslu í byggðarlaginu hráefni með því að framselja aflaheimildir gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.
    Herra forseti. Það væri ástæða til að hafa fleiri orð um þetta mál, hér er um mikilvægt mál að ræða. Með frv. er stefnt að því að flýta því að fækkun fiskiskipa eigi sér stað og jafnframt að koma til móts við þau miklu vandamál sem geta skapast í ákveðnum byggðarlögum þegar fiskiskip hverfa þaðan á braut.
    Ég vil leggja til að frv. verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. sjútvn.