Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. meiri hl. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. félmn. á þskj. 1172 um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Pál Magnússon, formann stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík, Ríkharð Steinbergsson, framkvæmdastjóra verkamannabústaða í Reykjavík, Sigurgeir Sigurðsson, formann stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Yngva Örn Kristinsson, formann stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins, og Inga Val Jóhannsson, deildarstjóra í félmn.
    Meiri hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frv. eins og Ed. gekk frá því að því undanskildu að gerðar eru tillögur um fjórar minni háttar breytingar sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Breytingarnar miða að því að gera viðkomandi ákvæði skýrari og taka af öll tvímæli um hvað felist í þeim ákvæðum.
    Alexander Stefánsson áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt. er fram kunna að koma.``
    Undir nál. skrifa Rannveig Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Alexander Stefánsson með fyrirvara, og Jón Kristjánsson. Brtt. eru á þskj. 1173.