Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir það sem hér hefur komið fram að frv. þetta er samið á grundvelli þáltill. sem var samþykkt hér fyrir frumkvæði hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, það er samið af nefnd í þeim anda sem þar kom fram.
    Aðeins út af spurningum hv. 1. þm. Reykv. Það er alveg rétt hjá honum að á grundvelli 3. og 5. gr. þarf að setja ákveðnar reglur sem er ekki hægt að hafa alveg fastar í lögum og það er hlutverk sjóðstjórnar að fjalla um það. Þegar sjóðstjórn hefur fjallað um það verður sjútvrh. að staðfesta þær reglur og það er sjálfsagt og nauðsynlegt að gera Alþingi grein fyrir því þegar þær reglur liggja fyrir, en að sjálfsögðu verður að setja þær í nánu samstarfi við þá sem eiga hagsmuna að gæta í þessum sjóðum. Ég vænti þess að það verði mögulegt að gera hv. þm. og Alþingi grein fyrir því á haustþingi þegar menn hafa haft tækifæri til þess að skoða þetta mál betur áður en sjóðurinn tekur til starfa.