Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 04. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að auka mjög á umræðu sem er hér um aðra þætti en þá sem snúa að þeirri brtt. sem ég hef leyft mér að flytja ásamt Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni. Ég vil þó ítreka það enn og aftur í þeirri umræðu sem hér hefur staðið, um það hvort rétt hafi verið að hækka tekjustofna Vegagerðarinnar í samræmi við verðlag að fullu, að ég gat þess áður í umræðunni um vegáætlun að ég tel að það hafi verið stigið rétt skref í því að lækka þungaskattinn. Ef þungaskattur vörubifreiða er skoðaður og borinn saman við Norðurlönd þá erum við með miklu hærri þungaskatt en þar er. Og þessi þungaskattur er að stórum hluta greiddur í vöruverði landsbyggðarinnar. Ef menn vilja fá meiri jöfnuð á vöruverði hlýtur eitt af því sem er eðlilegt að skoða vera skattheimtan á flutningi á vörunni út á land. Í sumum tilfellum er þessi skattheimta mjög óréttlát, borið saman við starfsemi hjá Ríkisskip sem eru sjóflutningar og njóta mikils stuðnings frá ríkinu, eins og allir vita.
    En ég leyfi mér, ásamt Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, að flytja brtt. þar sem lagt er til að fært sé á milli tveggja liða. Annar liðurinn, Tæknilegur undirbúningur, sé lækkaður um 60 millj. en liðurinn Girðingar og uppgræðsla sé hækkaður úr 22 millj. í 82 millj. kr.
    Það fer ekki á milli mála að umræða hefur verið mjög hörð hér á landi um það hvort búpeningur ætti að hafa aðgang að þjóðvegum landsins eða ekki. Sumir hafa litið svo á að það væri sjálfgefið mál að búfjáreigendur, þ.e. bændurnir, ættu að girða vegina af, girða sitt búfé af og þar með vegina. Nú er það svo ef þetta er skoðað að sú kvöð kæmi óhemjumisjafnt niður á hina ýmsu bændur í landinu. Þeir sem í góðri trú hafa samþykkt veg í gegnum sitt land án þess að krefjast þess að framkvæmt yrði eignarnám og ríkið greiddi fyrir veginn og gætu þar með krafist girðingar á landamærum sem yrði þá greidd af báðum aðilum og viðhaldið af báðum aðilum, hafa sem sagt ekki gert þessar
kröfur en staðið í þeirri góðu trú að sú regla Vegagerðarinnar væri virt að hún girti meðfram vegum en þeir sæju svo um viðhald á slíkum girðingum, ef þannig væri ástatt að miðað við umferð mætti teljast eðlilegt að í slíkar girðingar yrði farið. Mér er ljóst að hröð umferð og búpeningur á vegum á ekki saman, ef mikil umferð er eftir vegunum. Allir vita að af þessu geta hlotist slys og hafa hlotist slys.
    Nú hefur mjög verið talað um þær kröfur sem sveitarfélög eigi á hendur ríkinu og talið hart við að búa hvernig þær hafa hlaðist upp. Samið hefur verið um að stór hluti þeirra yrði greiddur á fjórum árum. Hér standa leikar aftur á móti þannig að miðað við þær till. sem eru í vegáætlun er gert ráð fyrir því að hægt sé að greiða kröfur fyrir árin 1978 og 1979, þ.e. verk sem voru unnin á þessum árum í góðri trú um að þau yrðu greidd. Hér eru bæði um að ræða girðingar og ristarhlið. Ég verð að segja eins og er að

þegar maður skoðar það að þessar 22 millj. skiptast á milli landgræðslu og girðinga, í því hlutfalli að 10 millj. fari í landgræðslu og 12 millj. í girðingar, sér maður að þarna er verið að fresta hlutum sem nánast er vonlaust að fresta jafnmikið og gert hefur verið. Í fyrsta lagi gengur það ekki upp að ætla að fara að græða upp meðfram vegum eftir að sárið hefur staðið í mörg ár og rigningin þvegið moldina burtu ef um grýttan jarðveg hefur verið að ræða og grjótið eitt orðið eftir í rásinni fyrir ofan. Þetta verður náttúrlega að vinna samhliða. Ég held að vaxandi skilningur sé fyrir því í landinu að jafnvel þó við viljum vegi þá þurfum við að ganga þannig um þetta umhverfi að við séum ekki að skilja eftir svöðusár gagnvart framtíðinni. Ég vil í þessu sambandi benda á þau svöðusár sem við blasa á Barðaströndinni á Vestfjörðum þar sem jarðýtur hafa verið notaðar til þess að ryðja kjarri vöxnu landi niður og efnið notað undir veg en mölin ein stendur eftir á því svæði sem þannig hefur verið gengið um.
    Ég held að líka sé rétt að ég geri grein fyrir því hvernig þessar kröfur skiptast, því e.t.v. gæti einhverjum dottið í hug að hér væri fyrst og fremst um eitthvert kjördæmapot að ræða. En þessar kröfur skiptast þannig að Suðurland ætti að fá 31,3 millj., Reykjanes 2,9 millj., Vesturland 66,2 millj., Vestfirðir 8,3 millj., Norðurland vestra 44,7 millj., Norðurland eystra 83 millj. og Austurland 27,8 millj. kr.
    Mér er ljóst að breyttur umferðarþungi sums staðar á Vestfjörðum, m.a. í Strandasýslu, hefur ýtt mjög undir það að bændur óski eftir því að þar verði heimilað að girða meðfram vegum og það verði greitt af Vegagerðinni. Ég held aftur á móti að það hljóti að vera nauðsynlegt í þessum efnum að gera sér grein fyrir því að þessar girðingar stuðla að sátt milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þær stuðla að sátt milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það er gamli málshátturinn: Garður er granna sættir.
    Þá ætla ég að víkja að liðnum Tæknilegur undirbúningur sem fyrir þessu yrði fyrir því áfalli að tapa 60 millj. Í fyrsta lagi tel ég rétt að það komi fram að Vegagerðin segist hafa þá reglu að færa kostnað út á verkin þegar þau eru hafin. Nú liggur það ljóst fyrir að á undanförnum árum hafa þeir haft fjármuni
til tæknilegs undirbúnings á fjárlögum og höfðu á seinasta ári 75 millj. Ég lít þess vegna svo á að þarna sé þó nokkuð fjármagn inni í veltunni sem þeir hafa og ætti að færast út á verkin og yrði þá aftur laust til þess að reka tæknideildina. En ég vil bæta því við að ég tel nauðsynlegt að menn endurskoði afstöðu sína til útboða. Það er ekki sjálfgert að það eigi ekki að bjóða út hönnun verksins þegar boðið er út. Í þessu sambandi vil ég benda á það að í Hafnarfirði var af bæjarins hálfu gert athyglisvert útboð á íþróttahúsi þar sem öll hönnunin og teikning hússins var innifalin í útboðinu. Ég tel að í vegaframkvæmdum og brúargerð sé víða rétt að standa þannig að málum, sé það yfir höfuð talið tæknilega framkvæmanlegt, að bjóða hönnun verksins einnig út. Mér er ljóst að í samkrulli

í framkvæmd við gamlan veg og nýjan er kannski mjög erfitt að koma slíku útboði fyrir. En ég sé ekki að það geti verið neitt sérstakt vandamál að útbúa t.d. verklýsingu á brú, gera grein fyrir því hvaða kröfur eru gerðar um það vatnsmagn sem þarf að fara þar undir og hvaða kröfur eru gerðar um breidd og styrkleika og bjóða út í heilu lagi. Mér sýnist að það sé ekki sjálfgert að þeir sem að hönnuninni vinna eigi að hafa allt slíkt á þurru í tímakaupi en hinir sem framkvæma verkið þurfi að taka alla áhættuna. Satt best að segja lít ég svo á að hafin sé sú stefna á Íslandi fyrir þó nokkuð mörgum árum að menn geri ráð fyrir því að með útboðum sé hægt að ná niður kostnaði.
    Ég ætlaði mér ekki með þessari umræðu að lengja umræðuna um vegamál. En ég verð að segja eins og er að ég get illa unað því að þannig sé að verki staðið að á sama tíma og menn tala um að það sé mikil nauðsyn að gera upp við sveitarfélög og hraða slíkum uppgjörum sé það talið eðlilegt þegar Vegagerðin stendur að uppgjöri við einstaklingana að það sé gert upp sem myndaðist krafa um á árunum 1978--1979, vitandi það þar að auki að væntingarnar um að fara af stað með meiri framkvæmdir á þessu sviði eru miklar og kröfur þéttbýlisins um að það sé gert alveg óhemjuharðar.