Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Nefndin hefur fjallað um frv. á þremur fundum. Nefndin kynnti sér þetta frv. allítarlega, ekki bara á þessum fundum, fátt sem kom henni á óvart þar, sérstaklega þó þær breytingar sem efnislega voru gerðar á því í meðförum Ed.
    Þær efnislegu breytingar sem gerðar voru í meðförum Ed. eru í raun einungis þrjár til fjórar, þ.e. ný grein sem fjallar um hið nýja, tvíþætta hlutverk sjóðsins, ný grein sem fjallar um hvernig skuli úthluta aflaheimildum og hvað skuli vera hámark þeirra aflaheimilda sem renna til þessa sjóðs, og í þriðja lagi hvernig sjóðurinn hagar sér við það mikilvæga hlutverk að veita aðstoð til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum er höllum fæti standa. Þetta eru allt saman breytingar sem ég held að allflestir nefndarmenn hafi tekið undir og gátu verið sammála meira og minna þótt ekki skrifi allir undir þetta nál.
    Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjútvrn., kom og starfaði með nefndinni. Nefndarmenn hafa einnig kynnt sér þær umsagnir sem bárust um frv., en þær komu frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sjómannasambandi Íslands.
    Það má því segja að þarna voru mikilvægustu hagsmunasamtök landsins á ferðinni. Miklu fleiri hafa komið nálægt þessu frv. og látið í ljós sitt álit.
    Þórhildur Þorleifsdóttir og Stefán Valgeirsson, og um tíma varamaður Stefáns Jóhann A. Jónsson, sátu fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar.
    Meiri hl. nefndarinnar telur að breytingar þær sem gerðar voru á frv. í meðförum Ed. séu til bóta og til þess fallnar að tryggja betur trausta atvinnu og jafna búsetu um land allt. Leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt með áorðnum breytingum.
    Undir þetta álit skrifa Alexander Stefánsson, Geir Gunnarsson, Guðni Ágústsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.