Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 12 . mál.


Sþ.

12. Tillaga til þingsályktunar



um kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hafa frumkvæði að því að kveðja hið fyrsta saman alþjóðlega ráðstefnu til að ræða um afvopnun á höfunum og undirbúa samningaviðræður með sérstöku tilliti til kjarnorkuafvopnunar á norðurhöfum. Jafnframt verði leitað eftir því við ríki sem eiga kjarnorkukafbáta og kjarnorkuknúin skip í norðurhöfum að þau takmarki umferð þeirra í grennd við Ísland og að aðrar tiltækar ráðstafanir verði gerðar til að bægja frá hættu af geislamengun vegna slysa og óhappa.

Greinargerð.


    Eitt brýnasta verkefni á sviði afvopnunarmála er að samningaviðræður hefjist um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar og afvopnun á höfunum. Engar formlegar viðræður eiga sér nú stað um þetta efni og höfin eru þannig orðin eina sviðið sem ekki er fjallað um í afvopnunarviðræðum með þátttöku risaveldanna.
    Eftir að Bandaríkin og Sovétríkin gerðu með sér samning um eyðingu skammdrægra og meðaldrægra eldflauga í Evrópu í desember 1987 hefur sú hætta blasað við að stórveldin ykju kjarnorkuvígbúnað í höfunum, ekki síst á norðurslóðum.
    Nú er talið að til séu um 14.000 kjarnorkuvopn ætluð til notkunar í sjóhernaði og þeim fjölgar stöðugt. Stór hluti þessara vopna er tengdur kjarnorkuknúnum kafbátum og skipum sem sigla um norðurhöf.
    Fjöldi slysa og hættulegra bilana hefur orðið í kjarnorkuherbúnaði á höfunum.
    Skemmst er að minnast þess er sovéskur kjarnorkukafbátur fórst í Norður-Íshafinu suðvestur af Bjarnarey 7. apríl sl. og með honum yfir 40 sjóliðar. Það er þriðji sovéski kjarnorkukafbáturinn sem farist hefur frá 1983 og árið 1970 fórst sovéskur kjarnorkukafbátur undan strönd Spánar vegna bilana í kjarnakljúf. Það er sérstök mildi að ekki hefur orðið meiri háttar geislamengun vegna þessara atburða. Bandarísk stjórnvöld hafa viðurkennt mörg alvarleg kjarnorkuslys á liðnum áratugum, m.a. svonefndar „brotnar örvar“.
    Á árunum 1965–1977 er talið að orðið hafi 380 slys og óhöpp sem tengdust kjarnorkuvopnum bandaríska sjóhersins. Helstu orsakir slíkra slysa og bilana eru rakin til mannlegra mistaka og bilana í tækjabúnaði.
    Kjarnorkuvígbúnaðurinn á norðurhöfum felur ekki aðeins í sér stórfellda hættu fyrir heimsfriðinn heldur er í honum fólgin sérstök ógnun við efnahag þeirra þjóða sem mest eiga undir nýtingu sjávarauðlinda. Aukin geislavirkni í höfunum vegna bilana í kjarnorkukafbátum og skipum sem knúin eru með kjarnorku getur stofnað fiskistofnum og öðru lífríki hafsins í hættu. Jafnvel þótt aukin geislavirkni mælist ekki í kjölfar slysa getur umtalið eitt nægt til að skaða markaðsstöðu þeirra ríkja sem veiðar stunda í grennd við slysstað.
    Íslenskir forsætis- og utanríkisráðherrar hafa lagt á það áherslu í ræðum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna mörg undanfarin ár að afvopnun á höfunum sé sérstakt áhugamál Íslendinga og hafa lýst áhyggjum yfir þróun í gagnstæða átt. Núverandi utanríkisráðherra hefur tekið afvopnun á höfunum upp á alþjóðavettvangi, m.a. innan Atlantshafsbandalagsins, en ekki fengið þær undirtektir við óskum íslenskra stjórnvalda um þetta efni.
    Hættan af geislavirkni í hafinu í kjölfar óhappa er ein út af fyrir sig næg ástæða til þess að Íslendingar hafi frumkvæði að því að reyna að koma af stað samningaviðræðum um afvopnun á höfunum og að dregið verði úr hættu á geislavirkni vegna bilana og leka í kjarnorkukafbátum. Íslendingar hafa þess utan gildar ástæður og góða stöðu til þess að knýja á um slíkar viðræður. Við erum smáþjóð sem engum ógnar og vill friðsamleg samskipti við aðrar þjóðir.
    Leiðtogafundurinn í Reykjavík haustið 1986 markaði viss tímamót í sögu afvopnunarmála. Framkvæmd hans tókst vel og því væri vel til fallið að Ísland yrði á ný vettvangur afvopnunarviðræðna sem tengjast höfunum og norðurslóðum sérstaklega.
    Í þingsályktunartillögunni er ekki kveðið á um það í einstökum atriðum hvernig standa skuli að undirbúningi alþjóðaráðstefnunnar eða hverjum skuli boðið að sækja hana. Eðlilegt er að ríkisstjórnin og utanríkisráðherra móti um það stefnu í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.
    Sjálfsagt virðist þó að leitað verði m.a. eftir þátttöku þeirra ríkja sem halda úti kjarnorkukafbátum í norðurhöfum, en það eru Bandaríkin, Sovétríkin, Bretland og Frakkland, einnig að öll Norðurlöndin, Kanada og Írland ættu hlut að ráðstefnunni, svo og Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið. Eðlilegt má og telja að leitað verði eftir stuðningi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna vegna undirbúnings ráðstefnunnar.
    Rétt er að ríkisstjórnin í samvinnu við utanríkismálanefnd dragi ramma um verkefni og dagskrá ráðstefnunnar í einstökum atriðum eftir að hugmyndin hefur verið reifuð af utanríkisráðherra við væntanleg þátttökuríki. Meginverkefni ráðstefnunnar yrði augljóslega að fjalla um hætturnar af auknum kjarnorkuvígbúnaði á höfunum, takmörkun slíks vígbúnaðar og undirbúning samningaviðræðna um afvopnun á höfunum með sérstöku tilliti til norðurslóða.
    Þá gerir tillagan ráð fyrir að ríkisstjórnin leiti eftir því við kjarnorkuveldin fjögur sem eiga kjarnorkukafbáta og kjarnorkuknúin skip í norðurhöfum að þau dragi úr umferð þeirra við Ísland. Þeirri stefnu þarf að vinna fylgi að ekki verði farið inn í íslenska efnahagslögsögu með kjarnavopn og kjarnorkuknúin skip og kafbáta.
    Nauðsynlegt er einnig að íslensk stjórnvöld séu við því búin að bregðast við geislamengun sem hlotist gæti m.a. af bilunum, leka eða öðrum óhöppum í kjarnorkuknúnum kafbátum og skipum og vegna kjarnorkuvopna, einnig frá flugvélum.
    Í því sambandi er eðlilegt að koma á sem víðtækustu alþjóðlegu samstarfi til að draga með öllum tiltækum ráðum úr vá vegna geislamengunar.
    Tillaga sama efnis var lögð fram seint á síðasta þingi og komst þá ekki til umræðu. Því er þetta mál nú endurflutt.