Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 22 . mál.


Nd.

22. Frumvarp til laga



um breyting á byggingarlögum, nr. 54/1978.

Flm.: Birgir Ísleifur Gunnarsson.



1. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðist svo:
    Byggingarnefnd fer með byggingarmálefni sveitarfélags undir yfirstjórn sveitarstjórnar.

2. gr.

    7. og 8. mgr. 8. gr. laganna falli brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Krafan um sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu er mjög rík, enda felur hún í sér valddreifingu, dregur úr miðstýringu ríkisstofnana í Reykjavík og treystir byggð í landinu.
    Alþingi samþykkti ný sveitarstjórnarlög með lögum nr. 8/1986. Í 1. gr. þeirra laga er veruleg breyting frá eldri lögum til að tryggja sjálfstæði sveitarfélaga. Í 1. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, nr. 58/1961, segir: „Ríkið skiptist í sveitarfélög, sem ráða sjálf málefnum sínum, undir yfirstjórn ríkisstjórnarinnar (félagsmálaráðuneytisins), samkvæmt því sem lög ákveða.“ Í núgildandi sveitarstjórnarlögum segir í 1. mgr. 1. gr.: „Byggðin í landinu skiptist í staðbundin sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.“ Þarna er mörkuð mjög skýr stefna um sjálfstæði sveitarfélaganna og ábyrgð þeirra á ákvörðunum og gerðum stjórnenda þeirra.
    Oft hefur verið tilhneiging til þess í löggjöf að setja ríkisvaldið yfir sveitarfélögin í ýmsum málaflokkum og ríkisstofnanir látnar ráðskast með málefni þeirra. Einn slíkur málaflokkur er byggingarmálefni. Fáa málaflokka er hægt að hugsa sér þar sem staðarþekking og nálægð við verkefnin nýtur sín betur en í byggingarmálum. Þrátt fyrir það er sveitarfélögum ekki treyst fyrir meðferð þessara mála að öllu leyti í byggingarlögum, nr. 54/1978. Í þeim lögum eru félagsmálaráðuneytinu falin yfirráð yfir sveitarstjórnum sem kemur m.a. fram í því að ráðuneytið á að úrskurða ef ágreiningur rís milli sveitarstjórnar og byggingarnefndar og enn fremur á það að úrskurða ef einhver telur rétti sínum hallað og getur þá fellt úr gildi ákvarðanir sveitarstjórnar og byggingarnefndar. Ákvæði af þessu tagi stangast alveg á við nútímahugmyndir um vald, ábyrgð og sjálfstæði sveitarfélaganna. Þetta frumvarp er flutt til að afnema ákvæði af þessu tagi og til að treysta sjálfstæði sveitarfélaga í byggingarmálum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er fellt niður ákvæði þess efnis að byggingarnefnd starfi undir yfirstjórn sveitarfélags og ráðuneytis, en sveitarstjórn ein sett í staðinn.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að felldar séu niður úr 8. gr. byggingarlaga tvær málsgreinar, þ.e. 7. og 8. mgr. Í 7. mgr. segir að rísi ágreiningur milli sveitarstjórnar og byggingarnefndar um afgreiðslu máls skeri félagsmálaráðherra úr en leita skuli hann áður umsagnar skipulagsstjórnar. Óeðlilegt er að ráðherra skeri úr slíkum ágreiningi. Sveitarstjórn á að hafa ákvörðunarvald um einstakar afgreiðslur byggingarnefndar eins og um afgreiðslu allra annarra nefnda sem starfa á vegum sveitarstjórna.
    Í 8. mgr. segir að telji einhver rétti sínum hallað með ályktun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt að skjóta mati sínu til úrskurðar félagsmálaráðherra og er síðan í þeirri málsgrein fjallað nánar um málsmeðferð. Mun eðlilegra er að með slík mál sé leitað til dómstóla en til pólitísks ráðherra og því er lagt til að málskotsréttur til félagsmálaráðherra sé felldur niður.
    Hér má benda á að aukið hefur verið aðhald í opinberri stjórnsýslu með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis.

Um 3. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.