Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 44 . mál.


Sþ.

44. Tillaga til þingsályktunar



um jöklarannsóknastöð á Íslandi.

Flm.: Egill Jónsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um í samráði við Háskóla Íslands, Jöklarannsóknafélagið og Orkustofnun að gerðar verði tillögur að stofnun rannsóknastöðvar í jöklavísindum á Íslandi.

Greinargerð.


    Það þarf tæpast að vera undrunarefni þótt Ísland sé kallað land elds og ísa því að þessir tveir örlagavaldar íslensku þjóðarinnar á liðnum öldum hafa fremur öðrum höfuðskepnum í náttúrufari landsins markað útlit þess.
    Ekkert land utan heimskautasvæða hefur jafnmikið nábýli við jökla en tíundi hluti Íslands er hulinn jöklum. Þetta nána samband, auk mikilvægra rannsókna á síðari tímum, sýnir vel hvernig ástand jökla á Íslandi hefur verið á ýmsum tímum og hver áhrif þeirra hafa verið á afkomu þjóðarinnar á liðnum öldum. Þrátt fyrir þessa mikilvægu vitneskju er mörgum spurningum ósvarað um áhrif íslenskra jökla á náttúrufar landsins enda rannsóknarsvið jöklavísinda víðtækt og margslungið.
    Víða um heim fer áhugi fyrir náttúruvísindum vaxandi enda verndun náttúru og umhverfis ofarlega á baugi í alþjóðlegri umræðu. Sérstaða Íslands á sviði jöklavísinda er óumdeilanleg. Þess vegna mundi bætt aðstaða til slíkra rannsókna hér á landi opna nýjar leiðir til alþjóðlegra rannsókna og samskipta við erlenda vísindamenn á þessu sviði.
    Meðal Íslendinga hefur um áratugaskeið verið mikill áhugi á jöklarannsóknum. Hérlendir náttúrufræðingar hafa sýnt þessari grein náttúruvísinda mikinn áhuga. Rannsóknir þeirra og ritgerðir hafa vakið eftirtekt víða um heim. Áhugamenn á þessu sviði hafa innt af hendi mikilvægt starf til stuðnings jöklarannsóknum. Um það vitnar m.a. mikilvæg starfsemi Jöklarannsóknafélagsins. Það er því óhætt að fullyrða að stofnun rannsóknastöðvar í jöklavísindum eins og tillagan fjallar um mundi fá góðar undirtektir hjá lærðum og leikum á þessu sviði, en það er forsenda þess að skjótur árangur náist.
    Um nánari skýringar er vísað til álitsgerðar jarðfræðinganna Freysteins Sigurðssonar og Guðmundar Ómars Friðleifssonar sem birtist á fylgiskjali með tillögu þessari.



Fylgiskjal.


Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur og
Guðmundur Ómar Friðleifsson jarðfræðingur:


Hugmynd um jöklarannsóknastöð á Íslandi.


(14. júní 1989.)



1. Tilgangur.
    Til eflingar þekkingar og rannsókna í jöklafræðum og jöklajarðfræði er nauðsyn að hafa einhvers staðar aðstöðu í slíku færi við jökla að skammt sé að sækja á rannsóknarvettvang og um leið greitt aðgöngu eftir almannaleiðum. Jöklar liggja næst byggð í Austur-Skaftafellssýslu. Þar eru brattir falljöklar og breiðir skriðjöklar, auk þess sem margir jöklarannsóknaleiðangrar hafa lagt þaðan upp á meginjökulinn Vatnajökul, langstærsta jökul landsins. Þaðan er einnig skammt upp á heiðar Vestur-Skaftafellssýslu og þar að hinum flatari, breiðari og hærra liggjandi skriðjöklum Vatnajökuls. Aðstaða væri hentug sem næst miðsvæðis milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði, en það væri austanvert í Öræfum. Þar má nefna Kvísker sem hinir alkunnu Kvískerjabræður hafa gert frægt með náttúrurannsóknum sínum. Flugvöllur er á Fagurhólsmýri.
    Aðstaða sú, sem hér um ræðir, þarf að vera til ýmissa hluta nytsamleg en þarf hins vegar hvorki að vera stór í sniðum né dýr. Hlutverk svona stöðvar væri m.a.:
–     Grunnstöð („base“) fyrir leiðangra á Vatnajökul.
–     Rannsóknarstofa („labor“) fyrir fyrstu greiningar og rannsóknir á staðnum.
–     Dvalar- og starfsaðstaða fyrir fræðimenn og rannsakara.
–     Útstöð fyrir innlendar rannsóknarstofnanir í jöklafræðum, jöklajarðfræði og eldvirkni í tengslum við jökla (jökulhlaup o.fl.).
–     Safn og sýningarstaður í jöklafræðum, jöklajarðfræði og eldvirkni í jöklunum.
    Notkun svona stöðvar yrði í samræmi við þessi hlutverk. Þar yrði ekki starfrækt nein umfangsmikil starfsemi að staðaldri. Leiðangrar á Vatnajökul hefðu þarna viðlegu- og geymsluaðstöðu, auk þess sem margvíslegt samband væri þaðan við umheiminn (sími, loftskeyti, telefax vegna ritaðra gagna o.s.frv.). Einstaklingar eða fámennir hópar gætu dvalið þar um lengri eða skemmri tíma við rannsóknir eða önnur fræðistörf. Þar mætti frumvinna úr rannsóknargögnum að einhverju leyti. Hafa mætti þar sýningar fyrir rannsóknarhópa, leiðangra, vísindaferðir („excursions“) og jafnvel fyrir ferðamannahópa eða almenna ferðamenn. Frá svona stöð má einnig stunda þétt og skipulegt eftirlit með nálægum jöklum.

2. Viðfangsefni rannsókna.
    Vatnajökull er ekki einasta langstærsti jökull landsins, hann er einnig stærsti jökull Evrópu og stærsti jökull í aðgengilegu, byggðu landi vítt og breitt. Skriðjöklar hans ná niður í byggð í Austur-Skaftafellssýslu og því er hann aðgengilegri en flestir jöklar aðrir. Á honum finnast flestar jökulgerðir sem þekkjast hérlendis — og raunar utan stóru heimskautajöklanna yfir höfuð. Þar eru ísbreiður jökulhvela hájökulsins, breiðir skriðjöklar niður á hásléttur, brattir falljöklar ofan af reginfjöllum og næstum niður undir sjávarmál og breiðir jökultaumar niður á jafnsléttu.
    Undir ísbreiðunum sofa öflug eldfjöll óværum svefni. Má þar nefna Öræfajökul, Grímsvötn, Kverkfjöll og sennilega fleiri. Eldgos í jöklinum hafa spúð ösku og eimyrju um nærliggjandi sveitir, eytt þeim stundum um hríð og skilið eftir jarðsögumerki sín í jarðvegi. Jökulhlaup hafa steypst undan jöklinum og flætt yfir láglendið. Skriðjökulstungurnar hafa sótt fram og hörfað á víxl, ýtandi á undan sér jökulgörðum og breytandi farvegum jökulfljótanna sem flætt hafa yfir flatlendin. Gróður hefur dafnað og dvínað í kjölfar loftlags- og jökulbreytinga.
    Við Vatnajökul eru frábærar og einstakar aðstæður til að kanna eðli og hætti jöklanna, jöklajarðfræðilega atburði og ummerki, áhrif jökla á lífríki og samlíf þjóðarinnar við jöklana í aldanna rás. Hér fléttast saman flestir áhrifaþættir jöklanna á til þess að gera litlu og aðgöngugreiðu svæði.
    Í samræmi við það má draga saman nokkur meginsvið sem hagstætt væri að sinna frá rannsóknarstöð á þessum slóðum:
–     Jöklafræði, almennt, þar með talið eftirlit og mælingar á breytingum jökla á svæðinu.
–     Eldvirkni í jöklum, þar á meðal öskulagatímatal, önnur ummerki og eyðing byggða.
–     Jöklajarðfræði, svo sem landmótun, jökulset og önnur ummerki.
–     Jökulvatnafræði: farvegir, aurburður, fok af aurum o.fl.
–     Jökulhlaup, ummerki þeirra og hátterni, eyðing byggða.
–     Áhrif jökla á gróður og annað lífríki.
–     Jöklabreytingar sem endurspeglun loftslagsbreytinga í tímans rás og áhrif þeirra á búsetuskilyrði.
–     Viðureign þjóðar og einstaklingsins við jöklana og jökulræn öfl, búseta, samgöngur og sambýli.
    Upplýsingar um öll þessi svið eru ríkulega til staðar í Skaftafellssýslum. Þær eru þar einstaklega greiðar aðgöngu og því hægt að vinna bæði margt og mikið í rannsóknum á þeim án dýrs búnaðar og erfiðra leiðangra. Það býður svo aftur upp á frjálslegri og fjölbreyttari rekstur rannsóknastöðvarinnar, án þess að draga neitt úr notagildi hennar.

3. Búnaður stöðvar.
    Í samræmi við tilgang og rannsóknarefni má skipta búnaði svona stöðvar í fernt:
–     Dvalaraðstaða fyrir fræðimenn og leiðangra.
–     Rannsóknarbúnaður, farartæki og vinnuaðstaða.
–     Dvalar- og starfsaðstaða fyrir eftirlitsmann (stöðvarráðsmann).
–     Safn- og sýningaraðstaða í jöklafræðum.
    Undir fyrsta lið félli dvalaraðstaða fyrir takmarkaðan fjölda manna sem dveldu í stöðinni að staðaldri svo dögum eða vikum skipti, notfærðu sér starfsaðstöðu þar og færu þaðan dagsferðir til rannsókna. Í annan stað væri um að ræða viðleguaðstöðu innan húss, helst í upphitanlegu húsnæði, fyrir leiðangra sem hefðu þarna grunnstöð, en væru annars á jökli eða sem gististöð fyrir leiðangra. Þessi aðstaða þarf að sjálfsögðu ekki að vera líkt eins vönduð og sú sem er ætluð til lengri dvalar. Hér er því um að ræða vandaða gistiaðstöðu og eldunaraðstöðu fyrir t.d. 3–5 menn, ásamt starfs- og ritaðstöðu. Þar að auki viðleguaðstöðu fyrir t.d. 10–20 manns.
    Til rannsóknarbúnaðar má telja fjarskiptabúnað (sjá hér að framan), tölvubúnað, ljósritunarbúnað, geymsluaðstöðu og búnað ýmiss konar (frystigeymslur fyrir íssýni, geymslu á setsýnum, vatnssýnum og á útbúnaði), einfaldan greiningarbúnað (efnagreiningar smásjár, setgreiningar, ísmælingar), aðstöðu til lagfæringar á mælitækjum og skyldum búnaði, búnað til kortavinnslu o.s.frv. Hér má einnig telja skjalasafn og handbókasafn. Ekki væri úr vegi að hafa til umráða skjálftamæla og landmælingatæki til að fylgjast stöðugt með breytingum jökla, lands og sjávar. Hér má einnig telja bíl til ferðar um svæðið og farartæki til ferðar á jökul. Ferðir til stöðvarinnar geta hins vegar verið með ýmsu móti.
    Stöðvarráðsmaður þarf að hafa húsnæði við sitt hæfi til íbúðar verulegan hluta ársins eða árið um kring. Hann þarf einnig að hafa viðunandi skrifstofuaðstöðu og aðra vinnuaðstöðu. Miða verður við að jöklaeftirlit og skipulegar mælingar verði á hans vegum og þarf hann þá viðeigandi aðstöðu til þess. Til þessa stjórnþáttar stöðvarinnar má einnig telja viðunandi fundaaðstöðu fyrir stjórn stöðvarinnar, leiðangursstjórnir, fræðimenn á stöðinni og til annarra fundahalda, tengdra starfsemi stöðvarinnar.
    Safnbúnaður yrði væntanlega nokkuð takmarkaður vegna rúms og þess tíma sem til umhirðu þess gæfist. Þó mætti að staðaldri hafa þarna til sýnis gott safn af myndum, kortum og líkönum auk sýnishorna af ís, jökulseti, jökulvatni og öðru slíku. Áhugavert væri að setja þarna upp sumarsýningar um t.d. landeyðingu af völdum jökla, jökulvatna og foks af jökulaurum; af jökulhlaupum; landmótun jökla; ísaldarsögu; áhrifum jökla á gróður; samspili elds og íss o.s.frv. Hafa verður samráð við Ferðamálaráð og aðra skylda aðila um að beina erlendum ferðamönnum og hópferðum að safninu svo að afla megi tekna með sýningargjöldum upp í kostnað, a.m.k. að hluta, auk þess sem það þjónaði upplýsinga- og fræðsluhlutverki safnsins.

4. Rekstur stöðvarinnar.
    Með framangreinda starfsemi í huga er sennilega hagkvæmast að stöð þessi yrði alfarið á hendi innlendra aðila, kostuð af almannafé og rekin í faglegri umsjá innlendra vísindamanna og stofnana. Gefa má erlendum fræðimönnum og leiðöngrum kost á afnotum eða aðstöðu við stöðina gegn hæfilegu gjaldi ef við á. Alþjóðleg stöð væri þyngri í rekstri, kallaði sennilega á mun meiri umsvif og byði ekki upp á eins alþýðlegar og fjölbreytilegar rannsóknir og innlend stöð.
    Setja verður opinbera reglugerð um stjórn og rekstur stöðvarinnar. Stöðin yrði að hafa stjórn sem sæi um rekstur hennar og skipulegði nýtingu hennar. Eðlilegt væri að aðilar að þeirri stjórn væru hlutaðeigandi ráðuneyti (menntamála- og/eða umhverfisráðuneyti), faglegir rannsóknaraðilar (Jöklarannsóknafélag Íslands, Háskóli Íslands, Orkustofnun, e.t.v. Jarðfræðafélag Íslands) og heimamenn í héraði (Skaftafellssýslurnar báðar). Stjórn þessi skipaði eða kysi framkvæmdastjórn sem annaðist skemmri tíma umsjón með rekstri stöðvarinnar. Aðalstjórnin réði einnig stöðvarráðsmann.
    Stjórn stöðvarinnar væri veitt árlega nokkurt fé til rannsókna og hefði hún á hendi úthlutun styrkja og aðra nýtingu fjárins. Slíkir styrkir gætu verið dvalarstyrkir til ákveðins tíma við stöðina, útgáfustyrkir vegna jökla- og jöklajarðfræðilegra rannsókna, styrkir til leiðangra og styrkir til sýninga í stöðinni, svo nokkuð sé nefnt. Hér þarf ekki að vera um margar milljónir króna að ræða til að gera miklum fjölda áhuga- og fræðimanna kleift að skila miklu og þörfu verki. Þó styrkir þessir standi ekki undir stórum og mannfrekum leiðöngrum, þá gætu þeir í sumum tilfellum riðið baggamuninn hvort gerlegt yrði að hrinda þeim í framkvæmd.
    Safn og sýningar mætti e.t.v. tengja við aðra skylda starfsemi í héraði. Það byði upp á víðari skoðunarefni og víðari skilning á áhrifum jöklanna á héruð þessi og mannlíf í þeim. Æskilegt væri að sýningargjöld dygðu til að standa straum af almennum aðgangi að safni og sýningum, e.t.v. með framlög héraðsmanna að bakhjarli. Tilvist svona stöðvar byði einnig upp á betri nýtingu annarra rannsóknaraðila á rannsóknarfé sínu, þar eð aðstaða væri fyrir hendi, kostnaðarlaus eða gegn vægu gjaldi. Margt fleira kæmi til greina til að nýta stöðina þegar hún væri komin á laggirnar.
    Erfitt er að segja fyrir um stofnkostnað og árlegan rekstrarkostnað af stöðinni. Líklegt er að stofnkostnaður næmi einhverjum milljónum króna en þó varla svo næmi tugum milljóna. Fastur árlegur rekstrarkostnaður væri í fyrsta lagi laun og rekstrarfé stöðvarráðsmanns, e.t.v. 2–4 milljónir króna; í annan stað rekstur tækja, búnaðar og efniskaup, e.t.v. 1–2 milljónir; í þriðja lagi fast umráðafé til kostnaðar af starfsemi aðila stjórnaraðila, rekstrar og endurnýjunar farartækja, eftirlitsmælinga og annars skylds rekstrar, e.t.v. 2–4 milljónir. Fastur árlegur kostnaður gæti því numið 5–10 milljónum króna. Þar við bættist rannsóknarfé upp á nokkrar milljónir króna. Árleg framlög að upphæð 8–15 milljónir króna mundu duga vel til að stórefla jöklafræðilegar rannsóknir með svona stöð.