Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 74 . mál.


Ed.

75. Frumvarp til laga



um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1989, nr. 12/1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á 1. gr. laganna:
a.    Í stað „5.135.000“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: 6.035.000.
b.    Í stað „5.300.000“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: 11.300.000.
c.    Við bætist ný málsgrein svohjóðandi:
         Fjármálaráðherra er heimilt að endurlána Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina allt að 900.000 þús. kr. af þeirri fjárhæð sem um getur í 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar.

2. gr.


    Í stað „900.000“ í 7. gr. laganna komi: 1.000.000.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að heimild ríkissjóðs til erlendrar lántöku á árinu 1989 verði aukin um 900 m.kr., en innlend lántökuheimild um 6.000 m.kr. Gert er ráð fyrir að erlend lántaka til viðbótar verði notuð til að endurlána Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina. Aukin innlend lántaka verður notuð til að fjármagna halla ríkissjóðs á árinu 1989.
    Fjárlög voru afgreidd með 636 m.kr. tekjuafgangi. Nú er hins vegar útlit fyrir að gjöld verði um 4,7 milljarðar króna umfram tekjur. Auk þess er útlit fyrir að innlausn spariskírteina verði um 400 m.kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Í heild verður lánsfjárþörf ríkissjóðs um 6 milljörðum króna meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hér er leitað heimildar til að fjármagna þessa lánsfjárþörf að fullu á innlendum lánamarkaði.
    Áætlað er að 11,3 milljarða króna innlend lánsfjárþörf á árinu verði uppfyllt þannig að spariskírteini verði seld fyrir 6 milljarða króna, að ríkisvíxlar verði seldir fyrir 3,8 milljarða umfram innlausn og að önnur innlend lántaka nemi um einum og hálfum milljarði króna. Í lok september höfðu spariskírteini verið seld fyrir 3,2 milljarða króna, en auk þess hefur almenningur skráð sig í áskrift fyrir um 200 m.kr. í viðbót fram til áramóta. Í byrjun október komu til lokainnlausnar spariskírteini sem með vöxtum og verðbótum nema um tveimur og hálfum milljarði króna. Brýnt er að ríkissjóði takist að selja ný spariskírteini í ríkum mæli á móti þessari innlausn. Í lok september höfðu verið seldir ríkisvíxlar fyrir um 4,1 milljarða króna umfram innlausn frá áramótum. Innlausn spariskírteina frá áramótum til loka september nam um 1,3 milljörðum króna. Samtals höfðu því verið seld spariskírteini og ríkisvíxlar umfram innlausn fyrir um 6 milljarða króna, en nú er stefnt að því að sala þeirra umfram innlausn verði 6,3 milljarðar króna á árinu.
    Ákveðið hefur verið að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina hætti að taka við lánsumsóknum um áramót. Stefnt er að því að hann ljúki afgreiðslu umsókna á fyrstu mánuðum næsta árs. Í framhaldi af því mun stjórn sjóðsins hætta störfum og verður sjóðnum komið til vörslu í starfandi banka eða lánastofnun. Með þessum hætti verður staðið við það fyrirheit að starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs yrði aðeins tímabundin.
    Til að Atvinnutryggingarsjóður geti lokið lánveitingum og skuldbreytingum er nauðsynlegt að honum verði tryggt sem fyrst viðbótarfjármagn. Ekki þykir rétt að aukið verði við framlag ríkissjóðs frá því sem ákveðið var við stofnun sjóðsins þar sem starfsemi sjóðsins felst í lánveitingum og skuldbreytingum hjá atvinnufyrirtækjum. Því er farin sú leið að taka viðbótarlán fyrir starfsemi sjóðsins. Hér er leitað heimildar fyrir 900 m.kr. lántöku í þessu skyni. Lántakandi verði ríkissjóður og endurláni hann Atvinnutryggingarsjóði, enda er með þeim hætti tryggð skjót afgreiðsla og bestu lánskjör. Sú fjárhæð, sem hér um ræðir, er byggð á áætlun og því ekki vitað með vissu hvort nauðsynlegt mun reynast að nýta heimildina að fullu.
    Síðastliðið vor heimilaði ríkisstjórnin Byggðastofnun erlenda lántöku að fjárhæð 100 m.kr. til að endurlána eigendum smábáta sem lent höfðu í greiðsluerfiðleikum. Hér er leitað staðfestingar Alþingis á þeirri heimild.