Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 33 . mál.




Sþ.

109. Svar




ráðherra Hagstofu Íslands við fyrirspurn Inga Björns Albertssonar um samsetningu framfærsluvísitölunnar.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
1.     Hvaða vörur, þjónusta og annað mynda framfærsluvísitöluna?
    Óskað er eftir nákvæmri sundurliðun þar sem fram kemur meðal annars:
    a.    vörutegund,
    b.    vöruheiti og framleiðandi,
    c.    hversu lengi hver vara hefur verið í vísitölunni,
    d.    hvaða vörur hafa fallið út úr útreikningi vísitölunnar síðastliðin 10 ár og hvaða nýjar vörur hafa verið teknar inn í vísitöluna á sama tímabili?
2.    Hvert er vægi hvers liðar fyrir sig í vísitölunni?
3.    Hvernig er aflað upplýsinga um verð vöru, þjónustu og annarra liða í vísitölunni?
4.    Hvernig er staðið að útreikningi vísitölunnar?


    Um gerð vísitölu framfærslukostnaðar og útreikning hennar fer samkvæmt lögum um vísitölu framfærslukostnaðar, nr. 5/1984. Í 1. gr. þeirra laga segir að Kauplagsnefnd skipi þrír menn, einn eftir tilnefningu Hæstaréttar og er hann formaður, en hinir eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands hvors um sig. Nefndin starfar í samráði við Hagstofu Íslands.
    Í 2. grein segir að Kauplagsnefnd skuli reikna vísitölu framfærslukostnaðar samkvæmt vísitölugrundvelli byggðum á niðurstöðum neyslukönnunar árin 1978 og 1979 sem Kauplagsnefnd og Hagstofan hafa gert.
    Í 3. grein er kveðið á um að Kauplagsnefnd skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta fara fram athugun á því hvort ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölu framfærslukostnaðar og skuli sú athugun fyrst fara fram á árinu 1985. Telji allir nefndarmenn að lokinni slíkri athugun að endurskoðunar sé þörf geti nefndin ákveðið að gerð skuli neyslukönnun til endurnýjunar á grundvelli vísitölunnar. Að fengnum niðurstöðum sé nefndinni — sé hún sammála — heimilt að ákveða vísitölunni nýjan grundvöll án þess að koma þurfi til lagasetningar.
    Kauplagsnefnd ákvað um mitt ár 1985 að ný neyslukönnun skyldi fara fram. Hafist var handa við könnun þessa í júlí 1985 og stóð hún fram yfir mitt ár 1986 en þá tók við vinna við samræmingu gagna, skráningu og úrvinnslu. Gerð nýs vísitölugrundvallar lauk í aprílmánuði 1988. Ákvað Kauplagsnefnd þá að hann skyldi reiknaður í fyrsta sinn miðað við verðlag í maíbyrjun 1988 og vísitalan sett 100 stig á þeim tíma. Jafnframt skyldi eldri grunnur vísitölunnar (febrúar 1984) þá reiknaður í síðasta sinn.
    Hagstofan gerði ítarlega grein fyrir grunni vísitölu framfærslukostnaðar í maíblaði Hagtíðinda 1988 (sjá hér: Nýr grundvöllur fyrir vísitölu framfærslukostnaðar, Hagtíðindi, nr. 5, 73. árgangur, maí 1988, bls. 192– 195). Þar er jafnframt greint frá neyslukönnuninni 1985–1986, fjallað um aðferðir við útreikning vísitölunnar og samanburður gerður á skiptingu útgjalda í nýjum og eldri vísitölugrundvelli, eftir 10 yfirflokkum og 40 undirflokkum útgjalda. Í þeim svörum sem hér fara á eftir er víða stuðst við þessa greinargerð.
     Í 1. lið fyrirspurnarinnar er spurt hvaða vörur, þjónusta og annað myndi framfærsluvísitöluna.
    Þessari spurningu er svarað almennt í fyrrnefndri grein í Hagtíðindum (bls. 192) en þar segir svo um þetta efni:
    „Hinn svonefndi vísitölugrunnur er í reynd safn hvers kyns heimilisútgjalda. Útgjaldasafnið eða vísitölugrunnurinn tekur því ekki aðeins til daglegra kaupa á matvöru, drykkjarvöru, hreinlætisvöru, fatnaði o.þ.h., heldur er einnig meðtalinn kostnaður heimilanna af rafmagni og hita, pósti og síma, rekstri eigin bíls, húsnæði og svo alls kyns kaup á þjónustu. Þá eru meðtalin útgjöld vegna ferðalaga og tómstundaiðkana svo eitthvað sé nefnt. Alls eru um 600 liðir vöru og þjónustu í hinum nýja vísitölugrunni. Neyslukönnuninni er ætlað að leiða í ljós hve mikil þessi útgjöld eru og hvernig þau skiptast á einstaka liði. Í vísitölugrunninum eru liðirnir allir tíundaðir í smáatriðum á þann hátt að bæði magn og verð allra vörutegunda og þjónustuliða kemur fram. Með magni er þá átt við ákveðinn fjölda mjólkurlítra, kílóa af smjöri, hveiti, sykri o.s.frv., stykkja af sápu, para af sokkum og skóm, kílóvattstunda af raforku, fjölda máltíða á veitingahúsum, ferðalaga til útlanda svo dæmi séu nefnd. Tilgreint er nákvæmlega um hvaða tegund, merki, stærð eða gerð er að ræða á hverjum lið.“
    Fyrirspyrjandi óskar í 1. lið eftir nákvæmri sundurliðun, m.a. eftir vörutegundum, vöruheitum og framleiðendum. Í meðfylgjandi töflu 1 er sýnd skipting útgjalda í grundvelli vísitölu framfærslukostnaðar í maí 1988 og í október 1989. Hér er heildarútgjöldum vísitölunnar deilt á fyrrnefnda 10 yfirflokka og um 40 undirflokka.
    Þessi tafla gefur gott yfirlit yfir þá flokka vöru og þjónustu sem eru í vísitölunni svo og vægi þeirra. Þetta er ítrasta sundurliðun sem Kauplagsnefnd og Hagstofan birta um vísitölugrundvöllinn. Þannig eru aldrei birtar upplýsingar um vörutegundir, vöruheiti eða framleiðendur né um vægi einstakra tegunda vöru eða þjónustu í vísitölunni. Hér er fylgt grundvallarreglu við gerð vísitalna, sem byggjast á ákveðnum vogum fyrir tiltekna vöru og þjónustu, og ætlað er að vera hlutlausir mælikvarðar á verðlagsbreytingar. Þessi regla byggist á því að með birtingu nákvæmra upplýsinga um vöruheiti væri gefið færi á íhlutun og óeðlilegum áhrifum á útreikning vísitölunnar þannig að hún yrði ekki lengur óháður mælikvarði á verðlagsbreytingar. Jafnframt er hér byggt á viðteknum og sjálfsögðum reglum um upplýsingaleynd hvað snertir einstakar vörur eða þjónustuliði og framleiðendur eða seljendur. Í þessum efnum fylgir Hagstofan alþjóðlegum venjum og ábendingum alþjóðastofnana á sviði hagskýrslugerðar.
    Þessi regla um að nákvæmustu upplýsingar um einstaka liði í vísitölunni megi ekki birta er ófrávíkjanleg að dómi Kauplagsnefndar og Hagstofunnar. Þessum aðilum er vitaskuld ljóst að þessi regla kann að vekja vissa tortryggni og jafnvel rýra traust á verðmælingum. Sú hætta er þó snöggtum minni og léttvægari en hin sem af því mundi stafa að vísitalan yrði opnuð fyrir íhlutun af ýmsu tagi, en þá fyrst væri hægt að draga gildi verðmælinga í efa. Enn fremur væri þá hætta á að ýmsir aðilar, sem nú láta góðfúslega í té upplýsingar um útsöluverð, yrðu tregari til þess ef hægt væri að rekja einstaka liði vísitölunnar beinlínis til þeirra.
    Í þessu sambandi má nefna að vitaskuld verður aldrei hjá því komist að menn hafi nokkra vitneskju um einstaka liði vísitölunnar. Þannig segir sig sjálft að allar algengustu neysluvörur og þjónustuliðir eru meðtaldir í vísitölunni. Þeir aðilar sem svara beinum fyrirspurnum Hagstofunnar um verð á þeirri vöru og þjónustu sem þeir hafa til sölu vita enn fremur í hvaða tilgangi spurt er. Þeir hafa hins vegar ekki vitneskju um hve sú vara eða þjónusta, sem þeir veita upplýsingar um, vegur þungt í vísitölunni.
    Sem fyrr segir er vísitölu framfærslukostnaðar ætlað að vera mælikvarði á verðbreytingar heimilisútgjalda í heild sinni. Hins vegar kunna ýmsir að hafa not fyrir eða áhuga á upplýsingum um verðbreytingar einstakra vörutegunda. Í því skyni að koma til móts við óskir af þessu tagi hefur Hagstofan um langt árabil birt árlega í Hagtíðindum (yfirleitt í nóvemberblaði) yfirlit um
útsöluverð á neysluvörum og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Í þessum yfirlitum koma fram upplýsingar um meðaleiningarverð þeirra tegunda sem um er að ræða, en á hinn bóginn er safnið ekki vegið saman í heild eða eftir mismunandi flokkum vöru og þjónustu eins og gert er í vísitölu framfærslukostnaðar.
    Ljóst er að traust eða vantraust manna á vísitöluútreikningum er undir því komið hvaða traust menn bera til þeirra aðila eða stofnana sem annast útreikninginn. Auk þess sem Hagstofu Íslands er ætlað mjög sjálfstætt hlutverk hefur hér á landi verið reynt að skapa sem mest traust á gerð og útreikningi vísitölu framfærslukostnaðar með því að fela sérstakri nefnd, Kauplagsnefnd, að annast útreikninginn í samráði við Hagstofuna. Sem fyrr segir er nefndin skipuð fulltrúum tilnefndum af ASÍ og VSÍ og formanni tilnefndum af Hæstarétti. Hagstofan annast gerð vísitölugrundvallarins og alla útreikninga eftir verklagsreglum sem Kauplagsnefnd hefur samþykkt. Nefndin fylgist með verkinu og tekur ákvarðanir um álitamál sem upp kunna að koma, t.d. um val mismunandi tegunda vöru og þjónustu, breytingu á því vali og margt fleira.
    Til frekari upplýsinga hvað snertir þennan lið fyrirspurnarinnar má vísa til töflu 2 sem hér fylgir. Þar kemur fram að í vísitölu framfærslukostnaðar eru 794 tegundir vöru og þjónustu. Upplýsinga um verð er aflað hjá 322 aðilum en alls eru verðmælingar í vísitölu framfærslukostnaðar 4.690 að tölu. Til fróðleiks má geta þess að í framfærsluvísitölunni eru fleiri tegundir vöru og þjónustu en er yfirleitt í sambærilegum vísitölum nágrannaþjóðanna. Á hinn bóginn er, eðli málsins samkvæmt, upplýsinga aflað hjá tiltölulega fáum aðilum hér á landi og fjöldi verðmælinga er því talsvert minni en hjá nágrannaþjóðunum, enda er markaður þar margfalt stærri (sjá hér: International Labour Office, Statistical Sources and Methods, Volume 1, Consumer Price Indices, Geneva 1987).
     Í c- og d-liðum 1. spurningar er óskað upplýsinga um hversu lengi hver vara hafi verið í vísitölunni svo og hvaða vörur hafi fallið út úr henni sl. 10 ár og hvaða vörur hafi komið í staðinn.
    Sem fyrr segir eru upplýsingar um einstakar vörur ekki birtar og verður þessari spurningu ekki svarað af þeim sökum. Frá sjónarmiði verðmælinga má einnig draga í efa að upplýsingar sem þessar séu áhugaverðar. Hvað snertir val á vöru og þjónustu í vísitölugrundvellinum skiptir þrennt mestu máli: Í fyrsta lagi að ekki líði of langur tími milli neyslukannana; í öðru lagi að við gerð vísitölugrundvallar hverju sinni séu valdar þær tegundir vöru og þjónustu sem algengastar eru, mest eru keyptar og ætla má að sæmilega stöðugt framboð sé á; í þriðja lagi að milli þess sem vísitölugrundvöllurinn er endurnýjaður sé fylgst með þróun eftirspurnar og framboðs á einstökum tegundum. Við gerð vísitölugrundvallar er vörusafnið valið eftir niðurstöðum mjög víðtækrar neyslukönnunar, svo og eftir upplýsingum kaupmanna um hvaða vörutegundir séu algengastar í hverjum útgjaldaflokki. Þess á milli er fylgst með breytingu vöruvals af þeim starfsmönnum sem safna upplýsingum um verð í hverjum mánuði. Við reglubundna söfnum verðupplýsinga verður þess mjög fljótt vart ef tiltekin vara eða þjónusta verður sjaldgæf eða hverfur af markaði. Þegar svo er komið að vara verður ónothæf til viðmiðunar í vísitölunni er önnur vara valin í staðinn og ef við á er þá beitt þeirri reglu að reynt er að finna þá vöru sem kemur í stað þeirrar eða er sem líkust þeirri sem valin var í upphafi.
     Í 2. lið fyrirspurnarinnar er óskað upplýsinga um hvert sé vægi hvers liðar í vísitölunni. Svar við þessari spurningu kemur fram í töflum 1 og 2 sem hér fylgja.
     Í 3. lið fyrirspurnarinnar er spurt hvernig aflað sé upplýsinga um verð vöru og þjónustu í vísitölunni.
    Upplýsinga um verð er í meginatriðum aflað sem hér segir:
a.    Upplýsinga um verð á vörum og verð á þjónustu, sem einkaaðilar selja, er aðallega aflað á þann hátt að farið er í verslanir eða til seljenda þjónustu og verð skráð þar eða að upplýsinga er aflað með símtölum. Verðupplýsingum er aðeins safnað á höfuðborgarsvæðinu (nema um orkuverð eins og rakið er í c-lið hér á eftir), en því veldur bæði fámenni og þar með smæð markaðar á einstökum stöðum á landsbyggðinni og mikill kostnaður sem söfnun upplýsinga þar hefði í för með sér. Á höfuðborgarsvæðinu hafa verslanir verið valdar með hliðsjón af hvoru tveggja, staðsetningu þeirra í einstökum hverfum og stærð þeirra og umsetningu. Hvað snertir verðathuganir í verslunum nýtur Hagstofan liðsinnis sérhæfðs starfsliðs Verðlagsstofnunar, en upplýsinga í síma er aflað af starfsfólki Hagstofunnar. Tekið skal fram að þyki þær upplýsingar sem fram koma, afbrigðilegar eða einkennilegar eru þær jafnan kannaðar nánar. Í reynd er tiltölulega auðvelt að fylgjast með þessu, m.a. með samanburði við verð í mánuðinum á undan, samanburði við breytingar á verði annarrar vöru og þjónustu og með því að hafa hliðsjón af ýmsum þekktum þáttum, sem ætla má að hafi áhrif á verðbreytingar, svo sem breytingum gengis, launa, álagningar, niðurgreiðslna o.fl.
b.    Upplýsinga um verð opinberrar þjónustu er ýmist aflað með beinum fyrirspurnum til viðkomandi þjónustuaðila eða úr opinberum verð- og gjaldskrám.
c.    Upplýsingar um taxta hitaveitna og rafveitna eru fengnar frá Orkustofnun sem fylgist með gjaldskrám allra rafveitna og hitaveitna á landinu. Verð á heitu vatni og rafmagni er síðan reiknað sem vegið meðaltal fyrir allt landið og myndar þá íbúafjöldi á hverju veitusvæði vogir meðaltalsins.
    Auk þess sem hér hefur verið rakið má nefna að jafnan er miðað við raunverulegt markaðsverð og skiptir þá ekki máli þótt til sé skráð verð eða hámarksverð á viðkomandi vöru eða þjónustu. Miðað er við staðgreiðsluverð og ekki er tekið tillit til verðlækkana vegna tímabundinna útsölu nema verðlækkunin sé alveg almenn í verslunum. Tekið er tillit til sérstaks afsláttarverðs, sem boðið kann að vera þegar verðupplýsingum er safnað, ef það er skilmálalaust. Loks skal tekið fram að við söfnun verðupplýsinga er aldrei leitað að verði ódýrustu vöru eða þjónustu heldur alltaf að verði á þeirri vöru og þjónustu, sem neyslukönnunin hefur sýnt að mest er keypt, án tillits til þess hvort unnt sé að finna sömu eða svipaða vöru eða þjónustu á lægra verði. Með þessu móti er framfærsluvísitölunni jafnan ætlað að sýna hvað hið upphaflega útgjaldasafn kostar og hvernig kostnaður breytist frá einum tíma til annars.
     Í 4. lið fyrirspurnarinnar er leitað upplýsinga um hvernig staðið sé að útreikningi vísitölunnar.
    Vísitala framfærslukostnaðar er reiknuð í hverjum mánuði. Útreikningurinn miðast við byrjun hvers mánaðar, en samkvæmt verklagsreglu Kauplagsnefndar er miðað við fimm fyrstu virka daga í mánuði hverjum. Þessa fimm daga vinna starfsmenn Hagstofunnar og Verðlagsstofnunar að söfnun upplýsinga, eins og áður var lýst. Þegar því er lokið tekur við yfirferð og athugun á upplýsingum og öflun viðbótarupplýsinga eftir því sem þörf krefur. Þá eru upplýsingarnar tölvuskráðar og í því sambandi er sérstaklega hugað að samanburði við síðasta mánuð og mánuði. Sem fyrr segir eru afbrigðileg eða einkennileg atriði könnuð sérstaklega, t.d. ef vara eða þjónusta virðist hafa hækkað eða lækkað óvenjumikið í verði. Þegar allar upplýsingar hafa verið skráðar og athugaðar er vísitalan reiknuð út í tölvu og allar vinnutöflur skrifaðar út á pappír. Þá tekur enn við yfirferð og athugun. Þessu verki lýkur oftast 10. eða 11. hvers mánaðar. Er þá haldinn fundur í Kauplagsnefnd og vísitalan afgreidd og gefin út. Auk hinna reglubundnu funda í tengslum við útgáfu vísitölunnar kemur Kauplagsnefnd saman eins oft og þörf krefur, einkum til að ræða sérstök álitamál sem upp kunna að koma.

TÖFLUR.



(Tölvutækur texti ekki til.)