Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 113 . mál.


Sþ.

117. Tillaga til þingsályktunar



um einkarétt og íslensk sérkenni í skráningarkerfi bifreiða.

Flm.: Árni Johnsen, Pálmi Jónsson, Halldór Blöndal.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá um að þjónusta við skráningu bifreiða verði aukin og tryggja á ný rétt bifreiðaeigenda til fastra númera, óháð endurnýjun.

Greinargerð.


    Gamla skráningarkerfi bifreiða, sem var aflagt með núgildandi kerfi, var fyrirkomulag sem hafði áunnið sér sess í íslensku þjóðlífi á persónulegum grunni. Bæði miðaði gamla kerfið við staðarmerkingu að ákveðnu marki og bifreiðaeigendur áttu sitt númer svo lengi sem þeir vildu. Þetta fyrirkomulag gerði bílaflota landsmanna persónulegri því að menn sáu á bílnúmerum líkur fyrir því hver væri á ferð í bifreiðinni. Á tímum sívaxandi alþjóðahyggju er rík ástæða til þess að vernda íslensk sérkenni, svipbrigði í íslensku samfélagi sem gerir það persónulegra og höfðar til þjóðernisvitundar.
    Tillagan um einkarétt og íslensk sérkenni í skráningarkerfi bifreiða miðar að því að þótt bókhaldsleg skráning núverandi kerfis verði við lýði áfram geti bifreiðaeigendur, ef þeir vilja greiða fyrir þá þjónustu, keypt sér fast númer með staðarmerkingu og númeri í stíl við gamla kerfið eða t.d. með nafnskráningu. Engin vandkvæði eru á þessu miðað við núverandi kerfi því að bifreiðar, sem enn eru með gömlu númerin, eru skráðir til hliðar í núverandi skráningarkerfi. Bifreið, sem í nýja kerfinu hefði til dæmis KP-440, gæti þess vegna haft áfram gamla númerið sem kynni að vera A-2020. Gamla númerakerfið var persónulegt og auka þarf þjónustu til þess að hjálpa mönnum að halda slíku við. Í Bandaríkjunum og Svíþjóð geta menn notið slíkrar þjónustu ef þeir vilja kaupa hana. Hlaupið var allharkalega í breytingar til núverandi kerfis og full ástæða er til þess að bjóða þar upp á meiri möguleika í stíl við hefðir íslensks samfélags.