Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 159 . mál.


Sþ.

168. Tillaga til þingsályktunar



um leiðsögumenn í skipulögðum hópferðum erlendra aðila á Íslandi.

Flm.: Danfríður Skarphéðinsdóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Árni Gunnarsson,


Hjörleifur Guttormsson, Jón Helgason, Stefán Valgeirsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að sjá til þess að í skipulögðum hópferðum erlendra aðila á Íslandi sé ætíð með í för íslenskur leiðsögumaður sem nýtur réttinda samkvæmt reglugerð um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks nr. 130/1981.

Greinargerð.


    Undanfarin ár hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mikið á Íslandi. Á árabilinu 1981–1985 fjölgaði þeim um 65%. Stór hluti þessara ferðamanna kemur hingað og ferðast um landið í skipulögðum hópferðum. Íslenskir leiðsögumenn taka gjarnan við þessum hópum við komuna til landsins og fylgja þeim á ferð þeirra. Í seinni tíð hefur gætt vaxandi áhuga erlendra ferðaskipuleggjenda á að senda sjálfir fólk með hópunum til leiðsögu og fararstjórnar og sniðganga þar með íslenska leiðsögumenn. Vinnuframlag erlendra fylgdarmanna hefur aukist mun meira en fjölgun ferðamanna gefur tilefni til. Árið 1988 voru veitt 27 starfsleyfi til erlendra leiðsögumanna sem unnu hér samanlagt um 360 dagsverk. Síðastliðið sumar, 1989, var fjöldi veittra starfsleyfa 45 og dagsverkin um það bil 1100. Þessi mikla aukning sýnir glögglega hvert stefnir. Ferðaþjónustan skapar ný atvinnutækifæri á Íslandi. Leiðsögumenn eru ein þeirra stétta sem ætti að njóta góðs af ferðamannafjölgun en missir nú atvinnu í hendur erlendra aðila. Þeir erlendu leiðsögumenn, sem hér starfa, þiggja laun sín erlendis frá og greiða því hvorki skatta né önnur gjöld hér á landi. Þannig hefur vinna erlendra aðila bæði áhrif á fjárhag einstaklinga og ríkisins.
    Flestir eru sammála um að leiðsögumaður hafi úrslitaáhrif á viðhorf ferðamanns til lands og þjóðar. Hjá mörgum ferðamönnum er góð leiðsögn sett efst á blað í sambandi við ferðalög. Íslenskir leiðsögumenn hafa auk þeirrar menntunar, sem felst í því að búa í landinu, sótt námskeið og þreytt próf við Leiðsöguskóla Ferðamálaráðs. Þar er ítarlega fjallað um allt það sem flesta ferðamenn fýsir að vita og gerðar eru miklar kröfur um hæfni leiðsögumannsins til að kynna land og menningu. Íslenskur leiðsögumaður, sem getur glætt áhuga ferðamannsins á landi og þjóð, skapar mikil verðmæti í formi jákvæðrar landkynningar. Kannanir benda til þess að stór hluti ferðamanna heimsæki landið vegna ummæla einhverra sem áður hafa verið hér. Slæmur leiðsögumaður, sem ekki skilar sínu hlutverki, gerir að sama skapi mikið ógagn.
    Erlendir leiðsögumenn geta aflað sér þekkingar úr bókum eða með öðrum hætti en vafasamt er að þeir geti gefið jafn persónulega og jákvæða mynd af fólkinu í landinu og íslenskir starfsbræður sem jafnframt hafa sérmenntað sig til þessa starfs.
    Ísland býr yfir fegurð og jafnframt miklum hættum. Það er mikil ábyrgð að leiða hóp fólks um svæði þar sem hættur leynast við hvert fótmál og náttúran sjálf er ekki síður í hættu nema fyllsta aðgætni sé sýnd. Staðkunnugur, menntaður leiðsögumaður, sem þekkir vel lög og reglur sem gilda um umgengni við landið, er líklegur til að bera þessa ábyrgð betur en erlendur fylgdarmaður sem dvelur hér aðeins um stundarsakir. Dæmi sýna að vanþekking erlendra leiðsögumanna hefur valdið skemmdum á náttúru og aukið slysahættu. Einnig er líklegt að samskipti ferðamanna við innlenda aðila verði stundum annmörkum háð ef forsvarsmaður hópsins getur ekki fullkomlega tjáð sig á því máli sem talað er í landinu. Fylgdarmaður ferðamannahóps kemst ekki hjá því að eiga einhver samskipti við fólkið í landinu og er mjög mikilvægt að ekki verði misskilningur t.d. í samskiptum við löggæslu, landverði, starfsfólk hótela og bílstjóra svo að einhverjir séu nefndir.
    Í þeim löndum, sem eiga að baki langa þróun í þjónustu við ferðamenn, gilda yfirleitt þær reglur að erlendir ferðamannahópar verða að hafa með sér innlendan leiðsögumann í borgum og á markverðum svæðum. Erlendir ferðamenn á Íslandi ferðast gjarnan víða um landið. Algengt er að ferðamannahópur, sem dvelur hér nokkra daga eða vikur, ferðist um stórt svæði í byggð eða óbyggð. Á hverri dagleið er komið á marga markverða staði, náttúruundur eða sögustaðir skoðuð og hver og einn gerir kröfur um sérþekkingu leiðsögumanns. Þar hefur Ísland nokkra sérstöðu umfram önnur lönd. Litið hefur verið á landið allt sem áhugavert ferðamannasvæði enda reyna flestir, sem hingað koma, að fara sem víðast og sjá sem mest. Þess vegna hafa íslenskir leiðsögumenn gert sér far um að afla sér víðtækrar þekkingar á landinu öllu og kunna skil á sem flestum landshlutum. Erlendis er algengt að fararstjóri fylgi hópum milli markverðra staða þar sem leiðsögumenn taka síðan við og miðla af sinni sérþekkingu. Margir erlendir skipuleggjendur hópferða til Íslands hafa sent fararstjóra með hópnum og jafnframt ráðið leiðsögumann í ferðina um landið. Slíkt er aðeins aukin þjónusta við ferðamennina en oftast hafa íslenskir leiðsögumenn jafnframt tekið sér hlutverk fararstjóra með góðum árangri enda gerir menntun þeirra ráð fyrir slíkri þjónustu.
    Íslenskir leiðsögumenn hafa einnig sinnt ákveðinni eftirlitsskyldu með ferðamönnum og skipulagi ferðalaga og þannig komið í veg fyrir vandræði sem annars hefðu orðið. Vegna vanþekkingar hafa margir hópar nærri brotið íslensk lög og hefur þá komið til kasta leiðsögumanns að kynna gildandi reglur fyrir fólki. Slíkt eftirlit og fyrirbyggjandi starf er mjög mikilvægt þar sem margir eiga þess ekki kost að fá slíkar upplýsingar öðruvísi en af biturri reynslu.
    Mjög erfitt er að fylgjast með og sannreyna hæfni þeirra erlendu leiðsögumanna sem vinna hér á landi. Flestir dvelja í stuttan tíma og yfirgefa landið um leið og hópar þeirra. Sumir hafa unnið hér í nokkur ár en aðrir eru nýliðar, hafa ef til vill komið hér í öðrum tilgangi einu sinni eða tvisvar eða eru hér í allra fyrsta sinn. Oft er það svo að fólk vinnur fyrir erlendar ferðaskrifstofur sem fararstjórar um heim allan og tekur að sér leiðsögustarf þar sem engin slík þjónusta er fyrir hendi. Enn aðrir eru sérfræðingar á afmörkuðu sviði, t.d. jarðfræði, og telja sig þannig færa um að taka starfið að sér.
    Íslenskir leiðsögumenn þurfa eins og fyrr segir að afla sér menntunar í Leiðsöguskóla Ferðamálaráðs og sanna þar hæfni sína til starfsins. Í þessum efnum eru því auðsjáanlega ekki gerðar sömu kröfur til innlendra og erlendra leiðsögumanna.
    Ísland er viðkvæmt land þar sem ferðaþjónusta er nýleg atvinnugrein. Náttúrufegurð Íslands er auðlind sem getur gefið einstaklingum og þjóðarbúi nokkuð í aðra hönd ef vel er að staðið. Ofnýting og ill umgengni við landið gefur ef til vill stundargróða en skilur lítið eftir fyrir framtíðina. Ferðaþjónustan verður ekki sú lyftistöng fyrir þegna landsins sem vonast er til nema sýnd verði fyllsta aðgát. Ef vernda á það sem útlendingar koma til að skoða verður að gera kröfu til þess að sérmenntaðir, löggiltir, íslenskir leiðsögumenn fylgi erlendum ferðahópum um landið. Annað er hættuleg þróun sem gæti stuðlað að auknum umsvifum útlendinga í ferðaþjónustu á Íslandi. Þjónusta við ferðamenn er mikilvæg atvinnugrein sem verður að efla svo að þegnar landsins missi ekki forræðið úr höndum sér til erlendra aðila.



Fylgiskjal.


(Texti ekki til tölvutækur.)