Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 185 . mál.


Nd.

208. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Friðrik Sophusson, Ásgeir Hannes Eiríksson,


Ingi Björn Albertsson, Sigríður Lillý Baldursdóttir.



1. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Barn, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, telst ekki sjálfstæður skattaðili sé það á framfæri foreldra sinna (þar með taldir kjörforeldrar, stjúpforeldrar, fósturforeldrar). Þó skal heimilt að telja sérstaklega fram fyrir barn innan 16 ára aldurs, sbr. 65. gr. og 82. gr. Þær tekjur barns, sem um ræðir í 1. tölul. A-liðar 7. gr., skulu ávallt skattlagðar sérstaklega.

2. gr.

    Á eftir 2. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. bætist nýr málsliður er orðast svo:
    Heimilt er að telja fram arð barns sérstaklega, sbr. 3. mgr. 65. gr.

3. gr.

    Við 65. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:
    Heimilt er að telja fram tekjur barns skv. 1. og 2. mgr. sérstaklega og skattleggja þær hjá því í samræmi við ákvæði 2. mgr. 67. gr.
    Tekjur barns, sem hefur misst báða foreldra sína og hefur eigi verið ættleitt samkvæmt ættleiðingarlögum, er heimilt að telja sérstaklega fram og skattleggja hjá því í samræmi við 2. mgr. 67. gr. Með tekjum barns í þessari málsgrein er átt við tekjur skv. 1. og 2. mgr. og tekjur sannanlega tengdar barninu er forráðandi kann að fá í sínu nafni.

4. gr.

    2. mgr. 67. gr. laganna orðast svo:
    Tekjuskattur af þeim tekjum barna, sem um ræðir í 65. gr., skal vera sami og í 1. tölul. 1. mgr. af tekjum umfram 250.000 kr.

5. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 82. gr. laganna:
a.     Aftan við greinina bætist nýr málsliður er orðast svo: Fari samanlagður eignarskattsstofn barna yfir 250.000 kr. hjá forráðendum er heimilt að telja fram eignir þeirra sérstaklega og skattleggja þær hjá þeim skv. 83. gr.
b.     Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
.      Allar eignir barns, sbr. 4. mgr. 65. gr., er heimilt að telja sérstaklega fram og skattleggja hjá því skv. 83. gr.

6. gr.


    122. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er að hækka eða lækka fjárhæðir sem um ræðir í 2. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 30. gr., 41. gr., 67. gr., 68. gr., 69. gr., 78. gr., 82. gr. og 83. gr. í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert, í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1990.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 1989.


Greinargerð.


    Við álagningu opinberra gjalda ársins 1989 komu greinilega í ljós þær stórauknu skattálögur er núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir á síðastliðnu þingi. Álögur þessar bitna oft mjög hart á þeim er síst skyldi.
    Með samþykkt núgildandi skattalaga hefur löggjafinn trúlega ekki ætlað að láta þau bitna eins illilega og þau gera nú á þeim sem hafa börn á framfæri sínu innan 16 ára aldurs er erft hafa eignir eftir látið foreldri eða foreldra eða aðra vandamenn.
    Eignatekjur og aðrar tekjur barna en launatekjur eru nú skattlagðar að fullu hjá foreldri eða hjá þeim er nýtur barnabóta vegna barnsins en hann getur verið því með öllu óskyldur, t.d. uppeldisforeldri.
    Eignir, að frádregnum skuldum, eru skattlagðar hjá forráðanda barns og bætast við skattstofn hans og geta valdið því að hann lendi í efstu skattþrepum vegna eigna sem hann á ekki.
    Í þeim breytingum, sem hér er lagt til að verði gerðar, felst lækkun skatta á forráðanda barns sem hefur misst annað foreldri sitt eða bæði. Lagt er til að heimilt sé að skattlagning færist af forráðanda yfir á barnið sjálft, enda sé það báðum aðilum til hagsbóta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Grein þessi fjallar í raun um skattskylduna, er að mestu samhljóða 6. gr. laganna, en við hana er bætt heimildarákvæði um sérsköttun barns, hvort heldur er launatekjur eða aðrar tekjur.

Um 2. gr.


    Árétting um að arð barns megi telja fram sérstaklega, sbr. 65. gr.

Um 3. gr.


    Hér er forráðanda heimilað að telja fram sérstaklega allar tekjur barns, launatekjur sem og aðrar tekjur. 4. mgr. greinarinnar gerir ráð fyrir að forráðandi barns, sem hefur misst báða foreldra, geti talið fram allar tekjur barns hjá því, einnig þær tekjur er hann fær í sínu nafni sem sannanlega eru tengdar barninu, t.d. frá lífeyrissjóði.

Um 4. gr.


    Með þessari grein er felldur niður gildandi 4% tekjuskattur. Þess í stað eru barni veitt ákveðin skattleysismörk. Þegar þeim tekjum er náð greiðist fullur skattur eins og hjá þeim sem orðnir eru 16 ára og eldri. Með takmörkuðum skattleysismörkum er hér reynt að koma í veg fyrir að þeir sem það geta færi tekjur á börn sín.

Um 5. gr.


    Hér er forráðanda barns heimilað að telja sérstaklega fram eignir barns hjá því nái þær ákveðnum viðmiðunarmörkum. Sett viðmiðunarmörk eru til að koma í veg fyrir að lágar upphæðir séu settar á sérstakt framtal barns. 2. mgr. gerir ráð fyrir því að forráðandi barns, sem hefur misst báða foreldra sína, geti talið fram allar eignir þess hjá því.

Um 6. gr.


    Hér er bætt inn 67. gr. og 82. gr., þannig að upphæðir í 4. gr. og 5. gr. frumvarps þessa taki hækkunum samkvæmt skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert.

Um 7. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Drög um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.


Í fylgiskjalinu eru skáletraðar þær breytingar á lögum nr. 75/1981,


um tekjuskatt og eignarskatt, sem verða ef þetta frumvarp verður að lögum.



6. gr.

(Skattskylda hjóna og barna.)


    Barn, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, telst ekki sjálfstæður skattaðili sé það á framfæri foreldra sinna (þar með taldir kjörforeldrar, sjúpforeldrar, fósturforeldrar). Þó skal heimilt að telja sérstaklega fram fyrir barn innan 16 ára aldurs, sbr. 65. gr. og 82. gr. Þó skulu þær tekjur barns sem um ræðir í 1. tl. A-liðar 7. gr. ávallt skattlagðar sérstaklega.

30. gr.

(Frádráttur manna frá tekjum utan atvinnurekstrar.)


    Frá tekjum manna skv. II. kafla laga þessara, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga:

A


1.    Útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.
2.    Launatekjur sem greiddar eru embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum enda sé kveðið á um skattfrelsið í samningum sem Ísland er aðili að.
3.    Tekjur skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða ákvörðun fjármálaráðherra, sbr. ákvæði 120. gr.

B


1.    Vaxtatekjur, afföll og gengishagnað skv. 8. gr. enda séu tekjur þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
2.    Fenginn arð, sbr. 9. gr., að hámarki 10% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs eða hlutar, þó að hámarki 90.000 kr. hjá einstaklingi og 180.000 kr. hjá hjónum. Til arðs í þessu sambandi teljast þó ekki fengin jöfnunarhlutabréf umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. 9. gr. Arður barns innan 16 ára aldurs sem er á framfæri foreldra sinna (þ.m.t. kjörforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra) telst með arði foreldris, sbr. 1. mgr. 65. gr., og gilda framangreindar hámarksfjárhæðir um samanlagðan arð foreldris og barns. Heimilt er að telja fram arð barns sérstaklega, sbr. 3. mgr. 65. gr.
3.    Fé það sem fært hefur verið félagsmanni í félagi skv. 2. tl. 1. mgr. 2. gr. til séreignar í stofnsjóði hans á árinu, að hámarki 7% af viðskiptum hans utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi.
4.    Fé það sem varið er til aukningar á fjárfestingu í atvinnurekstri á árinu samkvæmt lögum um frádrátt frá tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 72.000 kr. hjá einstaklingi og 144.000 kr. hjá hjónum.

    Hafi maður beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna skv. 1. tl. A-liðar 1. mgr. 7. gr., án þess að hún verði talin falla undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skulu ákvæði 1. mgr. 1. tl. 31. gr. samt sem áður gilda um slíkan kostnað eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Útleiga manns á íbúðarhúsnæði telst ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi í þessu sambandi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans í árslok nemi 15.400.000 kr. eða meira ef um einstakling er að ræða, en 30.800.000 kr. er hjón, sbr. 63. gr. eiga í hlut.

65. gr.


(Tekjuskattstofn hjóna og barna.)


    Tekjur barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., skulu teljast með tekjum þess foreldris sem hærri hefur hreinar tekjur skv. 1. tl. 1. mgr. 63. gr. ef foreldrar þess eru skattlagðir sem hjón en ella með tekjum þess foreldris eða manna sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. 69. gr. A.
    Þær tekjur barns, sem um ræðir í 1. tölul. A-liðar 7. gr. að frádregnum frádrætti skv. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr., skulu þó skattlagðar sérstaklega hjá því í samræmi við ákvæði 2. mgr. 67. gr.
     Heimilt er að telja fram tekjur barns skv. 1. og 2. mgr. sérstaklega og skattleggja þær hjá því í samræmi við ákvæði 2. mgr. 67. gr.
    Tekjur barns, sem hefur misst báða foreldra sína og hefur eigi verið ættleitt, samkvæmt ættleiðingarlögum, er heimilt að telja sérstaklega fram og skattleggja hjá því í samræmi við 2. mgr. 67. gr. Með tekjum barns í þessari málsgrein er átt við tekjur skv. 1. og 2. mgr. og tekjur sannanlega tengdar barninu er forráðandi kann að fá í sínu nafni.

67. gr.

(Skattstigi manna.)


    Tekjuskattur þeirra manna, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga þessara og hafa verið heimilisfastir hér á landi allt tekjuárið, skal reiknast af tekjuskattsstofni þeirra skv. 1. og 3. tölul. 62. gr. sem hér segir:
1.    Af tekjuskattsstofni reiknast 28,5%.
2.    Frá reiknaðri fjárhæð skv. 1. tölul. dregst persónuafsláttur skv. A-liðar 68. gr.
3.    Frá reiknaðri fjárhæð skv. 1. tölul. dregst auk persónuafsláttar skv. 2. tölul.
    Sjómannaafsláttur skv. B-lið 68. gr.
Sú fjárhæð, sem þannig fæst, telst tekjuskattur ársins.
     Tekjuskattur af þeim tekjum barna, sem um ræðir í 65. gr., skal vera sami og í 1. tölul. 1. mgr. af tekjum umfram 250.000 kr.

82. gr.


    Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. 69. gr. A. Gilda ákvæði 78. gr. einnig um þar greindar eignir barns. Fari samanlagður eignarskattsstofn barna yfir 250.000 kr. hjá forráðendum er heimilt að telja fram eignir þeirra sérstaklega og skattleggja þær hjá þeim skv. 83. gr.
    Allar eignir barns, sbr. 4. mgr. 65. gr., er heimilt að telja sérstaklega fram og skattleggja hjá því skv. 83. gr.

122. gr.

    Skylt er að hækka eða lækka fjárhæðir sem um ræðir í 2. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 30. gr., 41. gr., 67. gr., 68. gr., 69. gr., 78. gr., 82. gr. og 83. gr. í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert, í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1990.