Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 195 . mál.


Sþ.

220. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á kostnaði við kaup og rekstur dvergkafbáts.

Flm.: Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna kostnað við kaup og rekstur dvergkafbáts.

Greinargerð.


    Sumarið 1988 var fenginn hingað til lands dvergkafbátur til rannsókna við Kolbeinsey. Árangur þessa leiðangurs bendir til að vísindalegur og fjárhagslegur ávinningur yrði af rekstri dvergkafbáts. Það hefur víða færst í vöxt að slíkir bátar séu notaðir til rannsókna neðan sjávar og með góðum árangri. Þjóð, sem byggir afkomu sína að stórum hluta á öflun sjávarfangs, hlýtur að leggja vaxandi áherslu á rannsóknir til að auka sem mest afrakstur þess á komandi árum. Sú bylting, sem rannsóknir með dvergkafbát hefðu í för með sér, er augljós, en nú þegar hafa verið gerðar merkar rannsóknir neðan sjávar á hafsvæðum víða um heim sem ekki hefði verið unnt að framkvæma með öðrum hætti. Það má ekki gleyma hversu mikilvægt er að fylgjast með mengun og huga að mengunarhættu neðan sjávar en aðeins með varðveislu lífríkis sjávar er hægt að tryggja eðlilegan viðgang náttúrunnar í hafinu umhverfis landið. Einnig er ljóst að ný og óþekkt fyrirbæri í hafinu geta leitt til framfara og nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Og enn á ný má minna á leiðangurinn til Kolbeinseyjar þar sem áður óþekktar lífverur fundust sem ef til vill geta orðið grundvöllur nýs iðnaðar hér á landi.