Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 197 . mál.


Ed.

222. Frumvarp til laga



um Úreldingarsjóð fiskiskipa.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Stofna skal sjóð er nefnist Úreldingarsjóður fiskiskipa. Hlutverk Úreldingarsjóðs er að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Í þessu skyni skal sjóðurinn kaupa fiskiskip sem kunna að vera til sölu á hverjum tíma og selja þau úr landi eða eyða þeim. Þá er sjóðnum heimilt að veita styrki til úreldingar skipa, enda sé tryggt að í stað hinna úreltu skipa komi ekki ný skip í fiskiskipaflotann eða að afkastageta flotans aukist með öðrum hætti.

2. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skipar fimm menn í stjórn Úreldingarsjóðs til fjögurra ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn eftir sameiginlegri tilnefningu Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einn eftir tilnefningu Fiskveiðasjóðs Íslands, einn eftir tilnefningu Byggðastofnunar, en einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður sjóðsstjórnar.
    Nýti einhver tilnefningaraðila ekki rétt sinn til tilnefningar stjórnarmanns eða náist ekki samkomulag um sameiginlega tilnefningu skipar ráðherra stjórnarmann í hans stað. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og getur í 1. mgr.

3. gr.

    Stofnfé Úreldingarsjóðs skal vera:
1.    Þær eftirstöðvar eigna hins eldra Úreldingarsjóðs sem varðveittar eru í skuldabréfum skv. d-lið 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
2.    Eignir Aldurslagasjóðs fiskiskipa, sbr. II. kafla laga nr. 37/1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
3.    Söluandvirði eigna eða stofnana ríkisins sem lagt kann að verða til sjóðsins með sérstökum lögum.

4. gr.


    Eigendur fiskiskipa 10 brl. og stærri skulu árlega greiða gjald til Úreldingarsjóðs. Skal gjaldið nema 1.200 kr. af hverri brúttórúmlest en þó skal gjaldið aldrei vera hærra en 370.000 kr. fyrir hvert skip. Gjalddagi úreldingarsjóðsgjalds er 1. jan. ár hvert og greiðist gjaldið án tillits til þess hvort skipi er haldið til veiða eða ekki. Liggi brúttórúmlestamæling skips ekki fyrir skal miða gjaldið við brúttótonn.
    Gjald skv. 1. mgr. skal innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og skal hluti þess fjár sem greiðist inn á vátryggingarreikning skips skv. 2. tölul. 7. gr. laga nr. 24/1986 ganga til greiðslu gjaldsins. Skal Landssamband íslenskra útvegsmanna mánaðarlega skila þessum hluta til Úreldingarsjóðs uns fullnaðarskil vegna viðkomandi almanaksárs hafa verið gerð.
    Sé gjald ekki greitt fyrir lok álagningarárs skal greiða í Úreldingarsjóð dráttarvexti af því sem gjaldfallið er samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lögveð er í skipum fyrir úreldingarsjóðsgjaldi.
    Úreldingarsjóðsgjald skv. 1. mgr. er grunngjald. Ráðherra er heimilt að hækka gjald þetta allt að því að það hækki í réttu hlutfalli við þá hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í október 1989, þ.e. 153,7 stig.

5. gr.

    Stjórn Úreldingarsjóðs er heimilt árlega að taka lán vegna skipakaupa að fjárhæð allt að 80% af áætluðu samanlögðu kaupverði skipa á árinu eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lána þessara.
    Noti stjórn Úreldingarsjóðs heimild 1. mgr. að fullu, eða hluta, til yfirtöku áhvílandi lána á fiskiskipi við kaup ber ríkissjóður sjálfsskuldarábyrgð á endurgreiðslu eftirstöðva þeirra eftir að veði hefur verið fargað eða það selt úr landi. Fiskveiðasjóði Íslands er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 11. gr. laga nr. 44/1976, að tryggja lán með ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt þessari málsgrein í stað 1. veðréttar í skipi.

6. gr.

    Við kaup á skipum til úreldingar skal stjórn sjóðsins miða við að fiskiskipastóllinn þróist þannig að fiskstofnarnir séu nýttir með sem hagkvæmustum hætti, m.a. með tilliti til aldursdreifingar afla og aflameðferðar um borð.
    Aflaheimildir þeirra skipa, sem sjóðurinn kaupir, falla ekki niður þótt þeim skipum, sem þær höfðu, sé fargað. Flytjast þær til sjóðsins er ráðstafar þeim samkvæmt ákvæðum laga þessara að teknu tilliti til ákvæða laga um stjórn fiskveiða á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 3/1988. Kaupi Úreldingarsjóður skip sem stundar botnfiskveiðar með sóknarmarki er ráðherra heimilt á kaupári að breyta veiðiheimildum þess yfir í aflamark það er viðkomandi skip átti kost á í ársbyrjun.
    Aldrei skal Úreldingarsjóður þó fá ráðstöfunarrétt umfram 3% af heildaraflaheimildum af botnfiski eða 3% af heildaraflaheimildum af einstökum tegundum sérveiða. Hafi hlutdeild sjóðsins náð framangreindu hámarki skulu aflaheimildir þeirra skipa, sem úrelt eru, bætast hlutfallslega við aflaheimildir þeirra fiskiskipa sem viðkomandi veiðar stunda frá upphafi næsta árs eða næstu vertíðar. Hafi botnfiskheimildir sjóðsins náð fyrrgreindu hámarki skulu botnfiskveiðiheimildir úreltra báta þó eingöngu dreifast hlutfallslega á bátaflotann og heimildir úreltra togara með sama hætti eingöngu á togaraflotann. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að lækka hámark þeirra aflaheimilda sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar samkvæmt þessari málsgrein.
    Styrkir vegna úreldingar skipa, sbr. lokamálslið 1. gr., mega aldrei nema meira en 1 / 10 hluta húftryggingarverðs skips. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um úreldingarstyrki samkvæmt þessari málsgrein.

7. gr.

    Úreldingarsjóður skal við upphaf hvers almanaksárs eða veiðitímabils gefa þeim skipum, er tilteknar veiðar stunda, kost á að fá framseldar til sín gegn endurgjaldi heimildir til þeirra veiða sem sjóðurinn hefur forræði á, í hlutfalli við veiðiheimildir hvers skips. Skal endurgjaldið miðað við almennt gangverð á sams konar aflaheimildum að mati sjóðsstjórnar. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið lágmark þeirra aflaheimilda sem forkaupsréttur samkvæmt þessari málsgrein nær til.
    Þær veiðiheimildir, sem forkaupsréttur er ekki nýttur á skv. 1. mgr., skal sjóðsstjórn framselja hæstbjóðanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð. Sama gildir um framsal aflaheimilda á því almanaksári eða veiðitímabili sem fiskiskip er keypt.
    Stjórn sjóðsins getur við kaup á fiskiskipi samið svo um að seljandi njóti forkaupsréttar á aflaheimildum í tiltekinn tíma eftir kaupin gegn endurgjaldi er miðist við almennt gangverð á sams konar aflaheimildum að mati sjóðsstjórnar. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki meðan svo er ástatt.

8. gr.

    Fiskveiðasjóður Íslands annast reikningshald og rekstur Úreldingarsjóðs eftir nánara samkomulagi við sjóðsstjórn.
    Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Úreldingarsjóðs.
    Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Úreldingarsjóðs og greiðir þær ef eignir og tekjur sjóðsins hrökkva ekki til.

9. gr.

    Úreldingarsjóður fiskiskipa skal undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum, sem sjóðurinn veitir eða tekur, skulu undanþegin stimpilgjaldi.

10. gr.

    Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um Úreldingarsjóð fiskiskipa með reglugerð.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi II. kafli laga nr. 37 11. maí 1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Gjald skv. 4 gr. skal lagt á í fyrsta skipti fyrir árið 1990.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er efnislega samhljóða frumvarpi til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem flutt var á síðasta þingi en var ekki útrætt.
    Misræmi milli afrakstursgetu fiskstofnanna og afkastagetu fiskiskipaflotans hefur verið meginvandamál sjávarútvegs á Íslandi undanfarin ár. Þetta misræmi hefur dregið úr hagkvæmni veiðanna og m.a. valdið því að nauðsynlegt hefur reynst að setja víðtækar reglur um stjórn fiskveiða og takmarkanir á veiðiheimildir einstakra skipa.
    Þetta leiddi til þess að algjört bann var á sínum tíma lagt við innflutningi á fiskiskipum. Með lögum nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986–1987, og með reglugerð nr. 98/1986 um breytingu á reglugerð fyrir Fiskveiðasjóð Íslands um lánaflokka var mörkuð stefna varðandi endurnýjun fiskiskipaflotans. Í lögunum var kveðið á um að ný og nýkeypt skip kæmu því aðeins til greina við veitingu veiðileyfa að þau kæmu í stað sambærilegra skipa er hyrfu úr rekstri. Í reglugerðinni var sett sú meginregla að lán hvort sem var vegna nýsmíði, innflutnings eða endurbóta á fiskiskipum yrðu við það miðuð að afkastageta fiskiskipaflotans færi ekki vaxandi. Þrátt fyrir þessi ákvæði hafa breyttir útgerðarhættir og tækniframfarir við hönnun og smíði skipa leitt til þess að þau skip, sem lánað hefur verið til vegna nýsmíði eða endurbóta, hafa í mörgum tilfellum aukið afkastagetu fiskiskipaflotans.
    Með því að úthluta framseljanlegum veiðiheimildum í stað þess að takmarka sóknina með almennum reglum hefur tekist að auka hagkvæmni við veiðarnar. Sá árangur, sem náðst hefur á þessu sviði, er mikill en gæti þó verið mun meiri. Þessu veldur fyrst og fremst hve lagaákvæði um stjórn fiskveiða hafa verið sett til skamms tíma í einu. Á árunum 1984 og 1985 giltu um þetta efni ákvæði til eins árs í senn. Í árslok 1985 voru sett lagaákvæði um stjórn fiskveiða til tveggja ára og í ársbyrjun 1988 öðluðust gildi lög um stjórn fiskveiða næstu þrjú árin. Vegna óvissu um framtíðina hafa útvegsmenn ekki getað skipulagt reksturinn og nýtt sér kosti kvótakerfisins sem skyldi. Þar á meðal hefur kveðið sáralítið að viðleitni til að sameina aflaheimildir skipa þannig að takmarkaður afli sé sóttur með minni tilkostnaði. Þvert á móti hafa menn keppst um að endurnýja allar fleytur með eins stórum og afkastamiklum skipum og reglur framast leyfa. Það var fyrst á árinu 1988 þegar menn sáu fyrir hvaða reglur mundu gilda næstu þrjú árin að kveður að sameiningu veiðiheimilda skipa til að nýta betur sóknargetu þeirra. Það er hins vegar fullljóst að hvati til slíkrar sameiningar veiðiheimilda og fækkunar fiskiskipa í flotanum þverr því skemmri tími sem eftir lifir af gildistíma laganna um stjórn fiskveiða. Sjávarútvegsráðuneytið hefur jafnan hvatt til að lög um stjórn fiskveiða hefðu sem lengstan gildistíma, en þær tillögur hafa jafnan mætt harðri andstöðu á Alþingi og hjá sumum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi.
    Umframafkastagetu fiskiskipaflotans hefur á undanförnum árum verið beint að áður vannýttum tegundum og vegur þar þyngst aukin veiði á úthafsrækju og grálúðu. Er nú svo komið að fiskifræðingar óttast að of nærri þeim sé gengið og verulega hefur því þurft að takmarka sóknina í báða þessa stofna. Sú staðreynd, að flotinn er of stór, verður enn augljósari þegar verulegur niðurskurður þessara nýju veiðiheimilda verður samfara lækkun á heildarkvóta af þorski og karfa. Athuganir sérfræðinga hafa bent til að hægt væri að ná sama aflamagni með 70–80% af þeim fiskiskipaflota sem til er í landinu. Sóknardagar þeirra togara, sem sóknarmark velja, eru einungis 245 á árinu 1989. Þeir þurfa með öðrum orðum að liggja bundnir við bryggju í 120 daga á árinu. Það getur engum dulist að betri nýting á fjárfestingu í fiskiskipum er nauðsynleg og því ber að stefna að því að endurnýja ekki gömul og úrelt fiskiskip, en nota aflaheimildir þeirra þess í stað til að bæta rekstrargrundvöll flotans. Mikilvægt er að við sameiningu veiðiheimilda verði þess gætt að tekið sé tillit til hagkvæmustu samsetningar fiskiskipaflotans þegar til lengri tíma er litið. Á það bæði við hvað varðar hagkvæmustu nýtingu fiskstofna og rekstrarhagkvæmni í útgerð.
    Í ársbyrjun 1985 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að endurskoða sjóði sjávarútvegsins. Nefnd þessi vann mikið starf og skilaði fyrri hluta álits síns í aprílmánuði 1986. Lagði nefndin til að hið flókna sjóðakerfi sjávarútvegsins skyldi afnumið, en þess í stað tekið upp einfalt greiðslumiðlunarkerfi. Lagði nefndin m.a. til að Úreldingarsjóður fiskiskipa skyldi lagður niður. Nefndin ráðgerði þó að á síðara stigi skyldi sjóðurinn endurvakinn samhliða endurskoðun á lagaákvæðum um Aldurslagasjóð fiskiskipa, enda lagði hún til að megnið af eignum Úreldingarsjóðs skyldi varðveitt „… á bankareikningum og í skuldabréfum með bestu kjörum, þar til sett hafa verið ný lög um starfsemi hans og ákvæði um Aldurslagasjóð fiskiskipa í II. kafla, lög nr. 37/1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, hafa verið endurskoðuð.“ Féllst Alþingi á þessa tillögu og var hún lögfest með lögum nr. 24/1986. Með frumvarpi þessu er lagt til að þráðurinn verði tekinn upp aftur með svipuðum hætti og sjóðanefndin ráðgerði. Stofnaður verði að nýju Úreldingarsjóður fiskiskipa er taki við fjármunum hins eldra Úreldingarsjóðs og Aldurslagasjóðs. Sjóðnum verði fenginn tekjustofn sem er hliðstæður þeim tekjustofni sem Aldurslagasjóður hefur nú. Hlutverk sjóðsins verði að auka hagkvæmni í útgerð með því að laga afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu fiskstofnanna. Sjóðnum er ætlað að kaupa fiskiskip sem kunna að vera til sölu og eyða þeim eða selja úr landi. Ljóst er að með því stofnfé og þeim tekjustofnum, sem frumvarp þetta ráðgerir, mun sjóðurinn þess ekki megnugur að hafa mjög veruleg áhrif á stærð fiskiskipaflotans í einni svipan. Með því að heimila sjóðnum að yfirtaka áhvílandi lán á þeim skipum, sem hann kaupir eða taka að öðrum kosti lán fyrir 80% af kaupverðinu, er þó unnt að auka möguleika hans til skipakaupa á fyrstu starfsárunum. Þá getur sjóðurinn einnig rækt hlutverk sitt með því að veita styrki til úreldingar fiskiskipa, en slíkir styrkir eru að sjálfsögðu algerlega háðir því að skip sé úrelt án þess að nýtt skip komi í flotann í þess stað. Frumvarpið ráðgerir að Úreldingarsjóður ráðstafi gegn endurgjaldi veiðiheimildum þeirra skipa er hann kaupir og standi með þeim hætti undir greiðslu afborgana og vaxta af áhvílandi lánum og á síðara stigi undir fjáröflun til frekari skipakaupa. Er rétt að vekja á því sérstaka athygli að með frumvarpinu er ekki lagt til að sjóðnum verði í upphafi úthlutað neinum aflaheimildum. Einu aflaheimildirnar, sem sjóðurinn mun hafa ráðstöfunarrétt á, eru þær heimildir sem fylgja skipum sem sjóðurinn kaupir til úreldingar. Þá eru í frumvarpinu sett þau mörk að sjóðurinn megi aldrei hafa til umráða meira en 3% af botnfiskveiðiheimildum eða 3% af heildarveiðiheimildum einstakra sérveiða. Er ráðherra heimilað að lækka þetta hámark með reglugerð, enda eðlilegt að umsvif sjóðsins minnki ef honum tekst það markmið sitt að stuðla að hagkvæmri stærð fiskiskipaflotans.

Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um heiti sjóðsins, hlutverk hans og hvernig því skuli sinnt. Lagt er til að sjóðurinn hljóti sama nafn og sá sjóður sem niður var lagður með lögum nr. 24/1986. Hlutverk sjóðsins er að draga úr stærð fiskiskipaflotans og auka þar með hagkvæmni í útgerð þannig að dregið sé úr þörf á að halda skipum frá veiðum með opinberum boðum og bönnum. Þessu hlutverki skal sjóðurinn sinna með því að kaupa skip og selja þau úr landi eða eyða þeim. Sjóðurinn verður að leita eftir skipakaupum á hinum almenna markaði og nýtur engra forréttinda eða forkaupsréttar í þessum efnum. Það hlýtur því að ráðast af framboði á hverjum tíma hvernig kaupin ganga. Enda þótt tilgangur sjóðsins sé að fækka skipum í flotanum verður lokamálsliður 1. gr. ekki skilinn svo að hann leggi skilyrðislausa skyldu á sjóðsstjórn að farga öllum þeim skipum sem sjóðurinn kaupir. Sjóðnum væri þannig heimilt að skipta á skipi er hann hefði keypt og farga í þess stað öðru eldra og úreltara skipi, enda væri það sambærilegt að stærð og afkastagetu. Markmiði sínu getur sjóðurinn einnig náð með þvi að veita styrki til úreldingar skipa, enda sé tryggt að úreldingin leiði ekki til þess að ný skip bætist í flotann eða að endurnýjunarréttur verði nýttur með öðrum hætti.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að fimm menn verði í stjórn Úreldingarsjóðs. Formaður stjórnarinnar verði skipaður af ráðherra án tilnefningar, tveir stjórnarmenn verði skipaðir samkvæmt tilnefningu samtaka helstu hagsmunaaðila í fiskveiðum og tveir samkvæmt tilnefningu þeirra lánastofnana sem nátengdastar eru sjávarútveginum, þ.e. Byggðastofnunar og Fiskveiðasjóðs. Er lagt til að skipunartími stjórnar verði fjögur ár.

Um 3. gr.


    Eftirstöðvar eigna hins eldra Úreldingarsjóðs skyldu skv. d-lið ákvæðis til bráðabirgða III í lögum nr. 24/1986 varðveittar „... á bankareikningum og í skuldabréfum með bestu kjörum þar til sett hafa verið ný lög um starfsemi hans og ákvæði um Aldurslagasjóð fiskiskipa í II. kafla laga nr. 37/1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, hafa verið endurskoðuð“. Þessar eignir hafa verið varðveittar í samræmi við þessi lagafyrirmæli. Nemur höfuðstóll þeirra að viðbættum verðbótum og vöxtum til 31. des. sl. rúmlega 80 millj. kr. Er í 1. tölul. kveðið á um að þessar eignir renni sem stofnfé til hins nýja sjóðs.
    Í 2. tölul. er lagt til að eignir Aldurslagasjóðs fiskiskipa renni einnig til Úreldingarsjóðs, en með 12. gr. frumvarpsins er lagt til að Aldurslagasjóður fiskiskipa verði lagður niður og ákvæðin um hann í II. kafla laga nr. 37/1978 afnumin. Eignir þessa sjóðs nema nú nálægt 310 millj. kr. Eru þær að mestu myndaðar með álagningu hins sérstaka skatts til Aldurslagasjóðs skv. 10., sbr. 14. gr. laga nr. 37/1978. Sýnist stjórnskipulega ekkert því til fyrirstöðu að verja eftirstöðvum eigna Aldurslagasjóðs með þessum hætti. Í því sambandi má og benda á að tilgangur hins nýja sjóðs er um margt eðlislíkur tilgangi Aldurslagasjóðs.
    Þá er kveðið á um að til stofnfjár sjóðsins teljist andvirði eigna og stofnana ríkisins sem seldar kunni að verða með því fororði.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að sérstakt gjald til Úreldingarsjóðs verði lagt á fiskiskipaflotann. Er gjald þetta hliðstætt gjaldi sem nú rennur til Aldurslagasjóðs og lagt er á sama gjaldstofn. Lagt er til að gjaldið verði árlega 1.200 kr. á hverja brúttórúmlest, en þó aldrei hærra en 370.000 kr. fyrir hvert skip. Gjaldið hefði skilað Úreldingarsjóði um það bil 90 millj. kr. á þessu ári, en til samanburðar er rétt að benda á að gjald til Aldurslagasjóðs er á þessu ári nálægt 60 millj. kr.
    Á árinu 1987 var reglum um mælingar skipa breytt nokkuð. Tekin var upp ný mælieining, brúttótonn, í stað brúttórúmlesta. Tiltölulega fá skip hafa enn verið mæld í samræmi við hinar nýju reglur. Stefnir Siglingamálastofnun að því að ljúka endurmælingum á fiskiskipaflotanum fyrir 1. jan. 1994. Brúttórúmlestamæling mun a.m.k. til þess tíma verða til fyrir nær öll skip í fiskiskipaflotanum. Til öryggis er þó kveðið á um það í lokamálslið 1. mgr. að liggi brúttórúmlestamæling ekki fyrir skuli þess í stað miðað við brúttótonn.
    Með 2. gr. er lagt til að úreldingarsjóðsgjaldið verði innheimt með tilstyrk greiðslumiðlunarkerfis sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 24/1986. Verði gjaldið tekið af þeim 6% af hráefnisverði sem skv. 2. tölul. 7. gr. greiðist inn á vátryggingarreikning hvers skips hjá LÍÚ, en þetta er sá háttur sem nú er hafður á með gjald til Aldurslagasjóðs. Mundi LÍÚ síðan skila mánaðarlega greiðslum til sjóðsins með svipuðum hætti og nú er gert varðandi Aldurslagasjóðsgjaldið, sbr. lög nr. 17/1976.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að dráttarvextir af vangreiddu gjaldi skuli ekki reiknaðir fyrr en eftir lok álagningarársins. Það skiptir því ekki máli gagnvart dráttarvaxtatöku hvernig aflaverðmæti og þar með greiðslur gegnum greiðslumiðlunarkerfið dreifast innan álagningarársins.
    Í lokamálsgrein greinarinnar eru ákvæði er heimila ráðherra að ákveða hækkun gjalds í hlutfalli við almennar verðhækkanir þannig að það haldist óbreytt að raungildi. Eru hliðstæð ákvæði víðar í lögum þar sem gjaldstofn miðast við aðra mælikvarða en fjárhæðir (magngjöld).

Um 5. gr.


    Með þessari grein er lagt til að Úreldingarsjóði verði heimiluð árleg lántaka er nemur 80% af samanlögðu áætluðu kaupverði skipa á árinu og fjármálaráðherra verði heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á þeim lánum. Með því að fjármagna skipakaupin að 4 / 5 hlutum með lánsfé er sjóðnum að sjálfsögðu gert kleift að nýta stofnfé sitt til kaupa á fleiri skipum á fyrstu starfsárum sínum. Áhrifum af starfsemi sjóðsins á stærð fiskiskipaflotans er þar með flýtt. Sjóðurinn ætti samkvæmt þessu að geta verið nokkuð virkur á skipamarkaði fyrstu tvö til þrjú starfsárin. Þar á eftir kemur að líkindum tímabil þar sem sjóðurinn þarf að verja verulegum hlutum tekna sinna til greiðslu afborgana og vaxta af lánum. Í 2. mgr. eru ákvæði er lúta að yfirtöku lána er kunna að hvíla á skipi við kaup. Gæti í mörgum tilvikum verið hagfellt fyrir sjóðinn að yfirtaka slík lán.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. eru gefnar almennar leiðbeiningar um hvert sjóðurinn skuli stefna með kaupum sínum á fiskiskipum. Eru sett fram tvö markmið sem stefna beri að. Annars vegar að skipakaupum sé hagað þannig að líklegt sé að afli dreifist á þá árganga nytjastofnanna sem hámarksafrakstur gefa. Samkvæmt þessu ætti sjóðurinn ekki síður að stefna að því að kaupa togara en báta til úreldingar. Hins vegar ber að stefna að bættri aflameðferð og því ætti sjóðurinn fremur að beina kaupum sínum að skipum sem ekki fullnægja nýjustu kröfum um meðferð afla. Að sjálfsögðu verða sjónarmið sem þessi ekki tæmandi talin og aldrei verða þau annað en leiðbeinandi fyrir sjóðsstjórn. Ástand á skipamarkaði hlýtur alltaf að ráða mestu um hvaða skip verða keypt til úreldingar.
    Í 2 mgr. eru ákvæði er lúta að aflaheimildum sem fylgja skipum er sjóðurinn kaupir. Er lagt til að þær flytjist til sjóðsins og hann ráðstafi þeim gegn endurgjaldi. Verður endurgjald fyrir þessar heimildir annar aðaltekjustofn sjóðsins. Um veiðiheimildir þessar og framsal þeirra mundu að öðru leyti gilda almennar reglur laga um stjórn fiskveiða á hverjum tíma. Þó er lagt til að ráðherra verði í þessum tilvikum heimilað að breyta sóknarmarki yfir í aflamark á kaupári til að gera eigendum sóknar- og aflamarksskipa ekki mishátt undir höfði gagnvart möguleikum á að selja sjóðnum skip sín.
    Úreldingarsjóði er einungis ætlað það takmarkaða hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa. Honum er ekki ætlað að kaupa til sín aflaheimildir umfram það sem nauðsynlegt er í því skyni. Í 3. mgr. eru því sett efri mörk á þær aflaheimildir sem sjóðurinn getur eignast. Verði skipakaup sjóðsins til þess að honum áskotnist yfir 3% af heildaraflaheimildum skal bæta því sem umfram er hlutfallslega við veiðiheimildir alls flotans frá upphafi næstu vertíðar. Þetta hefur því sömu áhrif á veiðiheimildir flotans og að um væri að ræða aukningu á heimiluðum heildarafla af viðkomandi tegund. Í lokamálslið greinarinnar er ráðherra heimilað að lækka 3%-hámarkið. Slíkt getur orðið nauðsynlegt þegar betra samræmi hefur náðst milli stærðar flota og fiskstofna en nú er. Er þá einfalt að draga úr starfsemi sjóðsins með lækkun þessa hámarks.
    Sjóðurinn getur einnig rækt hlutverk sitt með því að veita styrki til úreldingar fiskiskipa. Slíkir styrkir verða að sjálfsögðu algerlega háðir því að skipi sé fargað án þess að nýtt skip komi í flotann í þess stað og án þess að endurnýjunarréttur þess sé nýttur með öðrum hætti, t.d. til stækkunar annarrar nýsmíðar. Þessum styrkjum er ætlað að vera hvati til að útvegsmenn sameini veiðiheimildir skipa, sem úrelt eru, veiðiheimildum annarra skipa sem fyrir eru í flotanum. Styrkir þessir mundu einungis nema litlu broti af markaðsverði viðkomandi skips og er 1 / 10 hluti af húftryggingarmati sett sem algert hámark. Ráðherra er ætlað að kveða nánar á um úreldingarstyrki þessa með reglugerð. Hann gæti m.a. sett ákvæði er lytu að því að úreldingarstyrkir greiddust því aðeins að veiðiheimildir flyttust yfir til skipa er sambærilegar veiðar stunda.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um með hvaða hætti sjóðurinn skal ráðstafa þeim aflaheimildum er honum hafa áskotnast við skipakaup. Er meginreglan sú að útgerðum þeirra skipa, sem tilteknar veiðar stunda, skal gefinn forkaupsréttur á veiðiheimildum sjóðsins í hlutfalli við veiðiheimildir skipsins. Ljóst er að með þessari aðferð kemur tiltölulega lítið magn í hlut hvers og eins. Er ráðherra heimilað að ákveða með reglugerð að setja lágmark á þá viðbótarkvóta sem bjóða ber forkaupsrétt á. Forkaupsréttinn geta útgerðir nýtt sér á fyrir fram ákveðnu verði. Er sjóðsstjórn falið að ákveða það verð jafnhátt gangverði sams konar aflaheimilda.
    Þær aflaheimildir, sem forkaupsréttur er ekki nýttur á, skal selja hæstbjóðanda skv. 2. mgr. greinarinnar. Líklegt er að þetta verði tiltölulega lítill hluti þeirra heimilda er sjóðurinn ræður yfir. Er lagt til að ráðherra verði með reglugerð falið að setja nánari reglur um hvernig að þessum viðskiptum skuli staðið.
    Í 3. mgr. er sjóðnum heimilað að semja um að seljendur skips haldi forkaupsrétti að aflaheimildum þess tiltekinn tíma eftir kaupin. Með þessu ætti það að verða fýsilegra fyrir ýmsa aðila að selja sjóðnum skip ef jafnhliða er hægt að tryggja að aflaheimildir haldist í þeirra höndum á meðan þeir aðlaga aðra þætti rekstrar síns að breyttum aðstæðum.

Um 8. gr.


    1. og 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um óbeina ábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins. Er þetta ákvæði í samræmi við það sem almennt gildir um sjálfstæðar stofnanir í eigu ríkisins. Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaklega athygli á því að í 5. gr. frumvarpsins eru ákvæði um ríkari ábyrgð ríkissjóðs á tilteknum skuldbindingum Úreldingarsjóðs.

Um 9. gr.


    Grein þessi, sem á sér hliðstæður í lögum fjölmargra opinberra sjóða og stofnana, þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Gert er ráð fyrir að á árinu 1990 falli niður álagning gjalds til Aldurslagasjóðs samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1978. Þess í stað er gert ráð fyrir að gjald skv. 4. gr. frumvarpsins verði lagt á á því ári. Að öðru leyti þarfnast grein þessi ekki skýringa.