Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 200 . mál.


Sþ.

232. Tillaga til þingsályktunar



um að tvískipta starfi ráðuneytisstjóra.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að breyta skipulagi ráðuneyta svo að framvegis verði tveir ráðuneytisstjórar í hverju ráðuneyti. Annar starfi á faglegum grunni en hinn stjórni fjármálum sem undir ráðuneytið og stofnanir þess og fyrirtæki heyra. Þessi skipulagsbreyting falli inn í þær breytingar á Stjórnarráði Íslands sem nú er unnið að.

Greinargerð.


    Næstum öll fjárlög íslenska ríkisins fara um ráðuneyti Stjórnarráðsins og stofnanir þess og fyrirtæki. Mikil og vaxandi umsvif kalla á sífellt meira fjármagn og krefjast um leið aukins aðhalds og eftirlits. Þrátt fyrir það eru yfirmenn í æðstu stjórn ráðuneytanna ekki sérhæfðir á sviði fjármála. Mikilvægi fjármálanna er því vanmetið hjá hinu opinbera.
    Ýtrustu sparsemi er þörf í starfi ráðuneyta því að með aukinni hagsýni má fjölga þeim verkefnum sem hægt er að standa straum af. Sérstaklega er mikilvægt að verja vel peningum úr ríkissjóði þegar harðnar á dalnum eins og núna og hvarvetna er samdráttur í þjóðfélaginu. Við það minnka tekjur hins opinbera og sértekjur stofnana og fyrirtækja ríkisins en kröfur og beiðnir um fjárveitingar úr ríkissjóði aukast.
    Því er nauðsynlegt að í hverju ráðuneyti starfi yfirmenn sem stjórna þeim fjármálum sem undir ráðuneytin heyra. Eðli málsins samkvæmt er rétt að staða þeirra heyri beint undir ráðherra og þess vegna þarf að breyta skipulagi ráðuneytanna. Framvegis verði ráðuneytisstjórarnir tveir í hverju ráðuneyti og annar gegni faglegum störfum en hinn sé ráðuneytisstjóri fjármála.
    Þessi tvískipting í stjórnun er afar algeng í rekstri fyrirtækja og félaga og það færist stöðugt í vöxt að ráðnir séu fjármálalegir framkvæmdastjórar við hlið þeirra faglegu. Sem dæmi má nefna sjúkrahús, sjávarútvegsfyrirtæki, sveitarfélög og margs konar annan rekstur. Nýlega var t.d. ráðinn vanur
fjármálastjóri til Alþingis og er starf hans þegar farið að bera ávöxt. Því er ekki seinna vænna að ráðuneytin feti í fótspor þingsins; breyting af þessu tagi borgar sig fljótt.
    Ráðuneytisstjórar fjármála mundu starfa náið með fjármálaráðuneytinu, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Ríkisendurskoðun og fjárveitinganefnd Alþingis. Þannig væri skotið nýjum stoðum undir fjármálastjórn íslenska ríkisins. Í framhaldi af því er síðan auðvelt að gerbreyta allri fjármálastefnu ríkisins þannig að framvegis fái hvert ráðuneyti eina heildarfjárhæð sem það skiptir sjálft á milli þeirra fjárlagaliða sem undir það heyra. Með því vex fjárhagsleg ábyrgð innan ráðuneytanna og hvert ráðuneyti fyrir sig ákveður forgang verkefna eftir því sem lög leyfa.
    Þetta fyrirkomulag má svo þróa smám saman fyrir landshlutana þannig að þeir fái á sama hátt aukið sjálfræði með sín verkefni. Þar með er dregið stórlega úr miðstjórn og ábyrgð eykst heima í héraði að sama skapi.