Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 233 . mál.


Nd.

310. Frumvarp til laga



um lánskjör og ávöxtun sparifjár.

Flm.: Eggert Haukdal.



1. gr.

    Seðlabanki Íslands getur að fengnu samþykki viðskiptaráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að nafnvextir af útlánum verði eigi hærri en í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.

2. gr.

    Við gildistöku laga þessara lækki nafnvextir af óverðtryggðum útlánum í áföngum þannig að þeir verði innan 12 mánaða þar frá sambærilegir við hliðstæða nafnvexti í samkeppnislöndum okkar.

3. gr.

    Skammtímalán til allt að þriggja ára, þar með talin rekstrarlán, afurðalán, persónuleg lán og víxlar sem um er samið eftir gildistöku laganna, skulu fylgja sömu vaxtaprósentu og um getur í 2. gr.
    Lengri tíma lán, þar með talin íbúðalán, skulu einnig fylgja sömu vaxtaprósentu og um getur í 2. gr., þó með þeim fyrirvara að vextir af þeim mega að loknu vaxtaaðlögunartímabili vera allt að þremur prósentustigum hærri en vextir af skammtímalánum. Í stað 3% vaxtamismunar á lengri tíma lán má setja ákvæði í lánasamninga þess efnis að vexti lengri tíma lána megi endurskoða á þriggja ára fresti til samræmis við vexti sem þá gilda.

4. gr.

    Vextir af spariinnlánum skulu vera einu til tveimur prósentustigum neðar útlánsvöxtum. Af hlaupareikningum greiðast engir eða mjög lágir vextir, af öðrum veltiinnlánum lágir vextir. Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar skulu koma til framkvæmda á næstu tveimur árum eftir gildistöku laga þessara.
    Heimilt er við gildistöku laganna að gengistryggja bundin spariinnlán til eins árs eða lengur. Sama gildir um spariskírteini ríkissjóðs, enda séu þau ekki til skemmri tíma en eins árs.
    Í stað gengistryggingar er heimilt að greiða af spariinnlánum til eins árs eða lengur vaxtaauka í árslok er tryggi jákvæða ávöxtun þeirra.

5. gr.

    Seðlabanki Íslands ákveður í samráði við ríkisstjórn við hvaða gjaldmiðil eða gjaldmiðla skuli miða gengistryggingu skv. 4. gr. Nánari ákvæði um gengistrygginguna skulu sett í reglugerð.
    Kostnað af gengistryggingu spariinnlána má greiða að hluta með gengishagnaði, en hún greiðist að öðru leyti af viðkomandi innlánsstofnun. Ríkissjóður ber kostnað af gengistryggingu spariskírteina.

6. gr.

    Við gildistöku þessara laga hættir verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu. Þar með falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34.–47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Enn fremur ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/1986, sbr. 2. gr. laga nr. 11/1989, svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.

7. gr.

    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi 1987–1988 og var þá vísað til ríkisstjórnarinnar eftir miklar umræður. Frumvarpið fékk mikinn stuðning úti í þjóðfélaginu, en minni hjá ráðandi mönnum. Þó er það staðreynd að síðan frumvarpið var lagt fram hefur verið að nokkru unnið samkvæmt því, þ.e. reynt að lækka vextina. Gagnvart lánskjaravísitölunni hefur hins vegar lítið verið aðhafst nema talað.
    Frumvarpið var endurflutt á síðasta löggjafarþingi 1988–1989 og hlaut þá eftirfarandi afgreiðslu, sbr. svohljóðandi nefndarálit:
    Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar 19. maí 1989:
    „Nefndin hefur athugað frumvarpið á fundum sínum og telur að í því sé að finna mjög þarfa ábendingu um afnám lánskjaravísitölu.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið í stjórnarsáttmála sínum að koma í veg fyrir víxlhækkun verðlags og lánskjara. Það verður ekki gert nema með afnámi lánskjaravísitölu. Þess vegna leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“ Undir álitið skrifa Páll Pétursson, form., frsm., Matthías Bjarnason, með fyrirvara, Ragnar Arnalds og Guðmundur G. Þórarinsson.
    Frumvarpið er nú flutt í þriðja sinn.
    Sjálfkrafa hækkun fjármagnskostnaðar samkvæmt lánskjaravísitölu, sem er verðbólguvísitala, fær ekki staðist lengur. Hún bitnar þyngst á útflutningsframleiðslunni. Það stafar í fyrsta lagi af því að hún er fjármagnsfrek og skuldug og í öðru lagi af hinu að hún ræður ekki verðinu á vörum sínum sem seldar eru á heimsmarkaði. Hækkun lánskjaravísitölu um fáein prósentustig eykur skuldabyrði útflutningsframleiðslunnar um milljarða króna. Útgerð og fiskvinnsla, sem standa undir meginverðmætasköpun í þjóðfélaginu, riða nú til falls, svo sem fjöldagjaldþrot og greiðslustöðvanir bera vott um. Sérhver hækkun lánskjaravísitölu krefst gengisleiðréttingar ef ekki á illa að fara. Hún krefst jafnframt hærra kaupgjalds fyrir launþega svo að þeir geti staðið í skilum með íbúðalán o.fl. Á meðfylgjandi töflu er sýnt með raunhæfum tölum hvernig verðtrygging íbúðaláns hrifsar á fáum árum allar árstekjur launþega ef laun hans hækka ekki samhliða vísitölunni. Fjöldi heimila hefur þegar misst húsnæði sitt. Má af þessu ljóst vera að lánskjaravísitalan er rót vaxta- og verðlagsskrúfunnar sem hér hefur verið í gangi í áratug.
    Hér er því lagt til að lánskjaravísitalan verði lögð niður og verðtryggingu hvers konar fjárskuldbindinga samkvæmt henni hætt svo að möguleiki skapist til þess að stemma stigu við frekari verðbólgu, vanskilum og annarri óreiðu. Hins vegar hæfir gengistrygging á lengri tíma spariinnlánum, sbr. um 4. gr.
    Þetta frumvarp er flutt gagngert til þess að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda. Hagsmunir þeirra hafa ekki verið tryggðir og verða aldrei tryggðir með lánskjaravísitölu sem eykur skuldabyrðina stanslaust og skapar verðbólguvítahring. Gengistryggingin samkvæmt frumvarpinu er hins vegar borin af bankakerfinu sjálfu og hefur engin verðbólguáhrif út í þjóðfélagið.
    Þess má geta í lokin að allur almenningur er orðinn þreyttur á að hafa peninga sína annars vegar og skuldir hins vegar háðar kaffiverði í Brasilíu og timburverði í Finnlandi, auk vínverðs á Íslandi, eða öðrum slíkum síbreytilegum þáttum. Því mun hann taka þessu frumvarpi vel ef samþykkt verður.
    Einstakar greinar frumvarpsins verða nú túlkaðar nokkru nánar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hún felur í sér breytingu á 2. mgr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 9. gr. þeirra laga ber bankanum að tryggja að raunvextir af útlánum innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum okkar. Það táknar að vextir af útlánum innlánsstofnana skuli elta verðbólguna, hver svo sem hún verður, og að raunvextir, eins og þeir kunna að vera í viðskiptalöndum okkar, komi þar til viðbótar.
    Einmitt þessi skrúfuhækkun vaxta hefur verið helsti verðbólguvaldurinn hérlendis upp á síðkastið. Vaxtahækkanir á þensluskeiði leiða til hækkana á verði vöru og þjónustu innan lands. Fyrirtæki, sem flytja framleiðslu sína út og keppa erlendis, ráða ekki verði á heimsmarkaði og geta því ekki bætt hærri vaxtaprósentu við verðið þar. Skiptir í því tilviki ekki máli hvort við köllum hluta vaxtanna „verðbótaþátt“. Nafnvextir verða að vera svipaðir og í viðskiptalöndum okkar til að jafna samkeppnisstöðu innlendra atvinnuvega við þá erlendu. Að öðrum kosti verður að jafna mismuninn með endurteknum gengisfellingum.

Um 2. gr.


    Vextir af útlánum, sem ekki eru í viðjum verðtryggingar, skulu lækkaðir þegar frá gildistöku laganna. Þetta er orðið aðkallandi eins og segir í greinargerð hér að framan. Hins vegar er óæskilegt að gera snöggar vaxtabreytingar og því er lagt til að þær komi í áföngum.

Um 3. gr.


    Frá sama tíma skal að því stefnt að lágvextir gildi um öll skammtímlán til allt að þriggja ára, þar með talin rekstrarlán, afurðalán, persónuleg lán og víxla. Vextir af þessum lánum hafa beinust áhrif á framleiðslukostnað í landinu og á samkeppnisstöðu atvinnuveganna út á við, svo og á verð vöru og þjónustu almennt.
    Varðandi lán til lengri tíma er settur sá fyrirvari að þau megi vera á vöxtum allt að þremur prósentustigum hærri en almennir útlánsvextir. Þetta er í samræmi við hefðir sem gilda í vestrænum ríkjum. Miðað við aðstæður ytra núna væru vextir af þessum langtímalánum mest 15% á ári. Ætti að vera vel mögulegt að halda verðbólgu langt fyrir neðan þau mörk þegar vísitölufarganinu er aflétt.

Um 4. gr.


    Gengistrygging hæfir lengri tíma spariinnlánum. Hún sér fyrir því að króna sparifjáreigandans haldi verðgildi sínu þó að gengið sé lækkað. Slík gengistrygging er óþörf á skammtímainnlán sem bíða aðeins gróðatækifæris í bönkum eða sparisjóðum. Viðskiptareikningar mynda yfirleitt um tvo þriðju hluta af innlánum viðskiptabanka og yfir 90% af rekstrarkostnaði bankanna fer í að þjónusta þá reikninga. Þess vegna greiða erlendir bankar litla eða enga vexti af veltiinnlánum. Það hjálpar þeim til að greiða hærri vexti af langtímaspariinnlánum.
    Spariskírteini ríkissjóðs skulu vera gengistryggð, enda sé gildistími þeirra ekki skemmri en eitt ár. Þau geta gegnt miklu hlutverki við stjórn peningaframboðs og mega því hafa sérstöðu.
    Önnur verðbréf og skuldabréf séu hins vegar ekki gengistryggð. Markaðsverð þeirra ákvarðast eftirleiðis af afföllum í stað verðtryggingar. Útgefandi veit þá frá byrjun að hverju hann gengur, en með verðtryggingu samkvæmt vísitölu er hann í stöðugri óvissu.
    Gagnvart greiðslu vaxtaauka geta innlánsstofnanir baktryggt sig með kaupum á spariskírteinum ríkissjóðs.

Um 5. gr.


    Gengistrygging spariinnlána, sem staðið hafa óhreyfð í eitt ár eða lengur, skal nánar skilgreind í reglugerð, svo sem segir í frumvarpinu. Þannig skal t.d. ákveða við hvaða gjaldmiðil eða gjaldmiðla skuli miða.
    Varðandi kostnað af gengistryggingunni skal þetta tekið fram:
1.     Með gengishagnaði er átt við verðhækkun á birgðum útflutningsvara sem til eru í landinu þegar gengi er lækkað. Eðlilegt er að ríkissjóður ráðstafi honum. Gengislækkunin sjálf er hins vegar til þess að bæta rekstrarafkomu útflutningsatvinnuveganna. Hér er lagt til að hluta af gengishagnaði megi verja til að rétta hlut sparifjáreigenda þegar verðgildi krónunnar fellur.
2.     Þeir sem eiga stórar fjárhæðir í lausu fé ávaxta það gjarnan á verðbréfamarkaði, í viðskiptum eða í fasteignum. Einnig af þessari ástæðu er ekki að vænta mikils kostnaðar við gengistryggingu. Það er einkum gamla fólkið sem lætur fé liggja lengi inni á sparisjóðsbókum og hag þess verður að tryggja.
3.     Vextir af almennum spariinnlánum, svo og af þriggja og sex mánaða spariinnlánum, ættu gjarnan að vera hinir sömu og af spariinnlánum til eins árs eða lengur. Það dregur úr hinum síðastnefndu sem ein eru gengistryggð og lækkar því gengistryggingarkostnaðinn.
4.     Sú staðreynd, að engir vextir eru greiddir af veltiinnlánum (tékkareikningum) og að spariinnlánin bera til jafnaðar vexti einu prósentustigi neðar almennum útlánsvöxtum, gerir allsherjarvaxtamun banka og sparisjóða (svonefndan „spread“) meiri en áður og það auðveldar innlánsstofnunum að standa straum af gengistryggingunni.
5.     Ætla má að fasteignalán banka og sparisjóða muni í framtíð nema, eins og í öðrum löndum, um 20% heildarútlána. Þar sem slík langtímalán mega bera allt að 3% hærri vexti en önnur lán hefur það líka þau áhrif að auka allsherjarvaxtamuninn og arðsemi innlánsstofnananna.

Um 6. gr.


    Við gildistöku laga þessara hættir verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu. Gildir einu hvort til þeirra er stofnað hjá bönkum, sparisjóðum, fjárfestingarsjóðum, lífeyrissjóðum, verðbréfamörkuðum eða í öðrum viðskiptum.



Fylgiskjal.


(Texti er ekki til tölvutækur.)