Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 234 . mál.


Ed.

323. Frumvarp til laga



um skattskyldu orkufyrirtækja.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Orkufyrirtæki skulu, með þeim takmörkunum er síðar greinir, skyld til þess að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Til skattskyldra orkufyrirtækja samkvæmt lögum þessum teljast héraðsrafmagnsveitur, sbr. IV. kafla orkulaga nr. 58/1967, hitaveitur, sbr. V. kafla þeirra laga, Rafmagnsveitur ríkisins, sbr. IX. kafla þeirra laga, Hitaveita Reykjavíkur, sbr. lög nr. 38/1940, Hitaveita Suðurnesja, sbr. lög nr. 100/1974, Orkubú Vestfjarða, sbr. lög nr. 66/1976, Landsvirkjun, sbr. lög nr. 42/1983, og Andakílsárvirkjun.
    Skattskyldan tekur til þessara aðila sem lögaðila skv. 2. gr. laga nr. 75/1981 þrátt fyrir undanþáguákvæði 4. gr. sömu laga eða ákvæði annarra laga sem kunna að hafa undanþegið einstök orkufyrirtæki og stofnanir opinberum gjöldum og sköttum.

2. gr.

    Sé orkufyrirtæki lagt niður þannig að það sé algjörlega sameinað öðru slíku fyrirtæki, ríkisstofnun eða hlutafélagi þá skulu slitin sjálf ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann aðila sem við tekur og heldur ekki fyrir þann sem slitið var. Við slíkan samruna skal sá aðili, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess orkufyrirtækis sem slitið var.

3. gr.

    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990. Ákvæði til bráðabirgða IV kemur þó til framkvæmda í fyrsta skipti vegna tekna á árinu 1989.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Á árinu 1990 skulu aðilar, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum þessara laga, framkvæma endurmat á þeim fyrnanlegu eignum, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem voru í eigu þeirra í byrjun þess árs.
    Endurmatið skal framkvæma þannig að kostnaðarverði (stofnverði) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár. Kostnaðarverð, þannig framreiknað, myndar fyrningargrunn sem fyrning reiknast af, í fyrsta sinn á árinu 1990.
    Til frádráttar framreiknuðu stofnverði reiknast sá hundraðshluti fyrninga af stofnverðinu sem um getur í 38. gr. laga nr. 75/1981, eftir því sem við á, hvert ár frá og með kaup- eða byggingarári til ársloka 1989. Samtala þessara fyrninga telst fengin heildarfyrning, en hún skal þó aldrei vera hærri en 90% af framreiknuðu stofnverði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981.
    Mismunur fyrningargrunns, sbr. 2. mgr. þessa ákvæðis, og framreiknaðra fyrninga, sbr. 3. mgr., telst eftirstöðvar fyrningarverðs. Fyrningargrunnur og fengnar fyrningar breytast síðan árlega, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981.
    Ríkisskattstjóri skal reikna verðbreytingarstuðul fyrir eignir sem aðili skv. 1. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis hefur eignast á árunum 1975 til 1989. Stuðullinn reiknast í samræmi við ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum nr. 75/1981, sbr. 26. gr. sömu laga. Hafi skattaðili eignast fyrnanlegar eignir skv. 1., 3., 4. eða 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, fyrir ársbyrjun 1975, skulu þær ekki endurmetnar samkvæmt þessu ákvæði. Þegar endurmetnar eru eignir skv. 2. tölul. greindrar 32. gr. sem verið hafa í eigu skattaðila í fimmtán ár eða lengur skal ríkisskattstjóri reikna stuðul til notkunar í því sambandi, og skal hann hafa sömu viðmiðun og um getur í upphafi þessarar málsgreinar. Liggi byggingarvísitala ekki fyrir skal stuðullinn reiknaður eftir hliðstæðum upplýsingum og skal ríkisskattstjóri hafa samráð við Hagstofu Íslands við útreikninginn.
    Endurmatsverð mannvirkja, sbr. 2. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, er skattaðila heimilað að ákveða jafnt gildandi fasteignamati í árslok 1990 í stað framreiknaðs kostnaðarverðs (stofnverðs). Sé þessi heimild notuð myndar fasteignamatið nýjan fyrningargrunn. Sé fasteignamatið notað sem fyrningargrunnur samkvæmt þessari málsgrein reiknast ekki fyrningar skv. 3. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis fyrir liðinn tíma.
    Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi má víkja frá skyldu til endurmats samkvæmt ákvæði þessu að því er varðar eignir skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981 og veitir ríkisskattstjóri heimild til slíkra frávika.
    Reglur þessa ákvæðis gilda einnig um endurmat ófyrnanlegra eigna eftir því sem við á. Aðilar skv. 1. mgr. þessa ákvæðis, sem eiga eignir í ársbyrjun 1990 sem ber að endurmeta, skulu senda skattstjóra, eigi síðar en með skattframtali 1991, greinargerð um endurmatið í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Endurmatsbreyting samkvæmt þessu ákvæði telst ekki til tekna heldur færist í sérstakan reikning, endurmatsreikning, sem telst til eigin fjár.

II.


    Við ákvörðun á söluhagnaði eigna, sem skattaðili skv. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I hefur eignast fyrir árið 1990, skal stofnverð þeirra framreiknað eftir sömu verðbreytingarstuðlum og með sama hætti og endurmetið er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I, eftir því sem við á. Eftir þann tíma gilda ákvæði 26. gr. laga nr. 75/1981, um beitingu verðbreytingarstuðuls. Sé um sölu á fyrnanlegum eignum að ræða fer á sama hátt um framreikning fyrninga umræddra eigna.
    Þegar eignir skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, sem aðili eignast fyrir ársbyrjun 1975, eru seldar skal framreikna stofnverð þeirra frá kaupári til söluárs með verðbreytingarstuðli kaupárs og telst söluhagnaður þá mismunur á söluverði og 10% af þannig framreiknuðu stofnverði.
    Nú hefur ríkisskattstjóri veitt undanþágu frá endurmati eigna, sbr. 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, og telst þá söluverð þeirra að fullu til tekna á söluári.

III.


    Aðilar, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. þessara laga, skulu reikna verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í fyrsta sinn vegna ársins 1990, miðað við stöðu eigna og skulda í lok ársins 1989.

IV.


    Á árinu 1990 skulu skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum greiða sérstaka fyrirframgreiðslu vegna væntanlegrar álagningar skatta samkvæmt lögum þessum. Kemur hún í stað fyrirframgreiðslu skv. 110. gr. laga nr. 75/1981.
    Stofn sérstakrar fyrirframgreiðslu skal vera nettótekjur viðkomandi fyrirtækis á árinu 1989. Skal fyrirframgreiðslan innt af hendi á tímabilinu ágúst til desember 1990 með fimm jöfnum greiðslum. Gjalddagi fyrirframgreiðslunnar er 15. dagur hvers mánaðar og eindagi 10 dögum síðar. Greiðslu skal fylgja greinargerð skattskylds aðila í því formi er fjármálaráðuneytið ákveður.
    Ákvæði laga um launaskatt, að því er varðar vanskil, viðurlög vegna vanskila, könnun á skilum, ákvörðun skila vegna vanrækslu eða vanskila á greinargerð, greiðsluskrár, kærufresti, úrskurði á kærum og áfrýjun þeirra, skulu gilda um fyrirframgreiðslu skv. 2.–5. mgr. eftir því sem við á.
    Fyrirframgreiðsla hvers mánaðar skal nema 10% af stofni og skal hún ganga upp í álagningu á árinu 1991 vegna tekna ársins 1990.
    Komi í ljós við álagningu 1991 að skattskyldur aðili hafi greitt meira í fyrirframgreiðslu en nemur álögðum gjöldum samkvæmt lögum þessum skal ríkissjóður þegar endurgreiða það sem umfram er. Reynist álögð gjöld hærri en fyrirframgreiðsla skal það sem vangreitt er innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrsta hvers mánaðar það sem eftir lifir álagningarársins.
    Frá og með gjaldárinu 1991 skal fara um greiðslur aðila, sem skattskyldir eru samkvæmt lögum þessum, eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 75/1981, með síðari breytingum. Ákvæði þess kafla gilda einnig um innheimtu á mismun álagningar og fyrirframgreiðslu á árinu 1990, eftir því sem við getur átt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með samþykkt ríkisstjórnarinnar 30. nóv. sl. var ákveðið að leggja til að felld yrði niður undanþága orkufyrirtækja frá tekjuskatti. Með þessari ákvörðun er enn fækkað undanþágunum frá tekjuskatti fyrirtækja, en rétt er að minnast þess að stutt er síðan allir bankar og peningastofnanir voru undanþegin tekjuskatti og eignarskatti.
    Enda þótt það kunni að hafa verið færð fyrir því ákveðin rök á sínum tíma að undanþiggja orkufyrirtæki tekjuskatti eru skilin milli þessara fyrirtækja og annarra fyrirtækja, sem eru að fullu skattskyld, ekki glögg. Orkufyrirtæki greiða t.d. launaskatt og önnur launatengd gjöld, söluskatt af rekstrarvörum og fleiri gjöld af því tagi. Auk þess er rétt að hafa í huga að auk opinberra orkufyrirtækja standa einstaklingar að félögum um byggingu og rekstur hitaveitna sem eru skattskyld með venjulegum hætti.
    Í frumvarpi þessu er gerð tillaga um að skattskyldan taki fyrst til rekstrarársins 1990 og álagning fari fram þess vegna 1991. Jafnframt er þó gert ráð fyrir að innheimt verði fyrirframgreiðsla vegna þessarar álagningar á síðari hluta árs 1990. Fyrirframgreiðslan taki mið af framtöldum tekjum ársins 1989. Hér er í reynd fetað í sömu fótspor og gert var með bankana á sínum tíma.
    Með þessum aðdraganda er fyrirtækjunum gefið tækifæri til að laga bókhald og uppgjörsvenjur að breytingunni þannig að reikningsskil þeirra verði í samræmi við skattareglur.
    Vakin er á því athygli að ekki er að svo stöddu gerð tillaga um að fella niður undanþágu orkufyrirtækja frá eignarskatti, enda eignamyndunin talsvert stærri í sniðum en gengur og gerist. Þennan þátt þarf því að skoða sérstaklega.
    Gert er ráð fyrir því að fyrirframgreiðsla skattsins á næsta ári skili a.m.k. 250 m.kr. í ríkissjóð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að orkufyrirtæki verði skattskyld til tekjuskatts með sama hætti og almennir rekstraraðilar. Ekki er ætlað að þau verði eignarskattsskyld. Um skattlagningu skulu gilda öll ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt. Leiðir þessi regla til þess að orkufyrirtækjum ber að haga reikningsskilum sínum með þeim hætti er skattalög áskilja, m.a. að því er varðar ákvörðun um hvað teljist tekjur og gjöld. Reglur almennra skattalaga um endurmat eigna, fyrningar, söluhagnað og verðbreytingarfærslur koma því til með að gilda um skattaleg reikningsskil orkufyrirtækja. Einnig eiga við almennar reglur um framtalsskil, álagningu, yfirferð og úrskurði á sama hátt og hjá öðrum lögaðilum. Sama á og við um greiðslur skatta, gjalddaga og innheimtu.
    Í 2. mgr. eru þeir aðilar, stofnanir og fyrirtæki tilgreind er skattskyld verða. Hér er um að ræða öll fyrirtæki er selja orku hvort sem um er að ræða raforku eða varmaorku. Rafmagnsveitur og hitaveitur eru háðar eftirliti og leyfum frá iðnaðarráðuneyti samkvæmt orkulögum, nr. 50/1967, og á því að liggja ljóst fyrir hvaða stofnanir og fyrirtæki starfa á því sviði sem hér er til umfjöllunar. Hitaveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Andakílsárvirkjun starfa eftir sérstökum lögum. Ljóst er að um er að ræða fjölbreyttan hóp aðila, allt frá tiltölulega smáum héraðsrafveitum til stórfyrirtækja á borð við Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun.
    Í 3. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að skattfrelsisákvæði, 4. gr. skattalaga um opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu hins opinbera o.s.frv., svo og annarra laga, eigi ekki við lengur varðandi orkufyrirtæki.

Um 2. gr.


    Hér er að finna ákvæði er samsvarar reglum þeim er settar eru í 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981, um sameiningu félaga. Rétt þykir að hafa í lögum sambærilega heimild er taki til stofnana þeirra er hér um ræðir.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa, en gera verður ráð fyrir að ráðherra eigi þess kost að útfæra í reglugerð nánar ýmsa þætti er snerta framkvæmd og fyrirkomulag skattlagningarinnar.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I–III.


    Með ákvæðum til bráðabirgða I, II og III er gert ráð fyrir að fram fari endurmat eigna, jafnt mannvirkja sem lausafjár er mynda fyrningarstofn hjá hinum skattskyldu aðilum. Er þessum atriðum hér skipað á sama hátt og gert var við upptöku núverandi fyrirkomulags skattalegra ársreikninga. Einnig eru sérákvæði um ákvörðun á söluhagnaði og sérstaklega tekið á því með hvaða hætti skuli haga verðbreytingarfærslu.
    Ljóst er að reikningsskil og framsetning ársreikninga orkufyrirtækja er á ýmsan hátt frábrugðin reikningsskilum og þeirri framsetningu er við eiga í skattskilum almennra fyrirtækja. Óhjákvæmilegt er að samræma þessi atriði skattalögum og er endurmatið o.fl. liður í þeirri samræmingu. Ýmsar eignir orkufyrirtækja, t.d. orkuvirki, lagnir og sérhæfður búnaður, eru sérstaks eðlis og án almenns markaðsgildis en eigi að síður er rétt að hefðbundnum aðferðum skattskila sé beitt við ákvörðun á fyrningarverði þeirra, stofnverði til ákvörðunar á söluhagnaði o.s.frv.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Hér er sett fram regla um fyrirframgreiðslu er til fellur á árinu 1990. Greinin þarfnast ekki skýringa.