Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 242 . mál.


Sþ.

373. Tillaga til þingsályktunar



um að flytja ráðuneyti Stjórnarráðsins frá Reykjavík.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort flytja megi einhver ráðuneyti Stjórnarráðsins frá Reykjavík í önnur byggðalög. Könnuninni skal lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.

Greinargerð.


    Reykvíkingar heyra oft talað um Reykjavíkurvaldið þegar deilt er um þjóðmál. Þá er látið eins og það sé stefna íbúa Reykjavíkurborgar að safna sem mestu valdi innan borgarmarkanna en það er ekki sannleikanum samkvæmt. Reykjavík er höfuðborg landsins og þar er Alþingi Íslendinga og því eru ráðuneytin og margar helstu stofnanir ríkisins í borginni. En það er ekkert lögmál að þessar opinberu stofnanir séu áfram innan borgarmúranna og sérstaklega ekki eftir að samgöngur hafa stórbatnað og ný tækni þróast stöðugt með farsímum og telefax-tækjum og öðrum búnaði.
    Fljótt á litið er auðvelt að ímynda sér ýmis ráðuneyti í öðrum byggðarlögum.
     Dæmi 1: Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mætti flytja til Selfoss. Þangað er greiður akvegur frá Reykjavík og fljótlegt að komast á milli. Ríkisfangelsi Íslendinga er í næsta nágrenni og því eðlilegt að hin nýja fangelsisstofnun fylgi með. Hugsanlegt er jafnvel að flytja kirkjumálaráðuneytið sérstaklega til Skálholts ásamt embætti biskups Íslands og endurreisa þannig hina fornu frægð staðarins og kirkjunnar þar eins og kirkjunnar fólk hefur lengi stefnt að. Enda virðist auðvelt að færa mest af störfum kirkjumálaráðuneytisins undir biskup Íslands og einfalda þar með reksturinn.
     Dæmi 2: Landbúnaðarráðuneytið mætti flytja í Borgarnes. Þangað er að mestu greiður akvegur frá Reykjavík og tíðar ferjusiglingar á milli Reykjavíkur og Akraness. Þá eru stöðugt ræddar hugmyndir um göng undir Hvalfjörð sem mundu stytta leiðina verulega og með því að flytja ráðuneytið í Borgarnes væri flýtt fyrir þeirri miklu samgöngubót. Með návistinni við bændaskólann og önnur umsvif að Hvanneyri yrði Borgarnes kjörinn vettvangur fyrir miðstöð landbúnaðarmála og því er eðlilegt að Búnaðarfélag Íslands ásamt fleiri stofnunum og félögum landbúnaðarins flytji með ráðuneytinu í Borgarnes eða að Hvanneyri.
     Dæmi 3: Sjávarútvegsráðuneytið mætti flytja til Keflavíkur eða Grindavíkur. Þangað eru greiðar samgöngur frá Reykjavík og fljótekið. Flutningur ráðuneytisins mundi væntanlega flýta fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar sem er mikið hagsmunamál fyrir íbúa á svæðinu og aðra vegfarendur.
    Þá er sjálfsagt að ýmsar stofnanir tengdar sjávarútvegi fylgi í kjölfarið og vel til fallið fyrir samtök hagsmunaaðila, svo sem fiskverkendur og útvegsmenn.
    Með þessu móti má dreifa stjórnardeildum ríkisins í fleiri kjördæmi án þess að rjúfa tengslin við Reykjavík og nágrenni. Þær vegalengdir, sem hér um ræðir, eru alls ekki miklu lengri en gerist og gengur innan marka höfuðborgarsvæðisins. Þá er ótalinn sá möguleiki að flytja stjórnardeildir á Seltjarnarnes, í Mosfellsbæ, á Kjalarnes, í Kópavog, í Garðabæ eða Hafnarfjörð.
    Þá er sjálfsagt að ráðherrar sitji ekki á Alþingi jafnframt ráðherradómi heldur kveðji til varamenn. Þannig gefst þeim betri tími til að sinna ráðuneytum sínum óskiptir og því minna um frávik. Þá má hugsanlega fækka þingmönnum, sem því nemur, en formenn viðkomandi þingnefnda taki við hlutverki ráðherra í umræðum á Alþingi.
    Einnig má flytja margar opinberar stofnanir lengra frá Reykjavík, t.d. Byggðastofnun til Akureyrar og Hafrannsóknastofnun til Ísafjarðar og rannsóknastofnanir landbúnaðarins að Hólum í Hjaltadal eða austur á Hérað.
    Þannig kemst á meira jafnvægi í byggð landsins og vinna eykst á landsbyggðinni. Þess vegna er eðlilegt að í kjölfarið fylgi batnandi atkvæðisréttur fyrir Reykvíkinga og fleiri þingsæti fyrir höfuðborgina, þ.e. með flutningunum minnka jafnframt rök fyrir því að dreifbýlisfólk búi áfram við margfaldan atkvæðisrétt á við Reykvíkinga. Þetta er því réttlætismál fyrir alla landsmenn.