Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 208 . mál.


Nd.

394. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar (FrS, MB).



1.    Við 1. gr. Á eftir f-lið komi nýr stafliður er orðist svo:
         Á eftir 4. mgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
         Undanþegin virðisaukaskatti (innskatti) er þó lögskyld starfsemi sveitarfélaga sem ekki er rekin í samkeppni við starfsemi á almennum markaði, svo sem bygging og rekstur grunnskóla og dagheimila, gatna- og holræsagerð og viðhald þeirra mannvirkja og unglingavinna.
2.    Á eftir 5. gr. komi ný grein er orðist svo:
         Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðist svo:
         Skattskyld velta skiptist í veltu samkvæmt neðra þrepi, sem er skattskyld velta vegna sölu eða afhendingar í neðra þrepi, og almenna skattskylda veltu sem nær yfir alla aðra skattskylda veltu.
3.    Við 6. gr. Á undan a-lið komi tveir nýir stafliðir svohljóðandi:
    a.    Við 5. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðist svo: Eldsneyti í innanlandsförum.
    b.    Á eftir 8. tölul. 1. mgr. komi nýr töluliður er orðist svo:
             Veiðarfæri og brennsluolía fyrir fiskiskip.
4. Við 6. gr. Á eftir c-lið bætist nýr stafliður svohljóðandi:
         Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er verði 12. tölul. og orðist svo:
         Lögfræðiþjónusta.
5.    Við 6. gr. Á eftir c-lið bætist enn nýr stafliður svohljóðandi:
         Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er verði 13. tölul. og orðist svo:
         Byggingarkostnaður gistihúsa.
6.    Við 6. gr. Á eftir c-lið komi enn nýr stafliður er orðist svo:
         Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein svohljóðandi:
         Halda skal skattskyldri veltu samkvæmt neðra þrepi aðgreindri frá annarri skattskyldri veltu. Sala eða afhending neyslumjólkur, dilkakjöts, neyslufisks og fersks innlends grænmetis skal vera í neðra þrepi. Fjármálaráðherra skal í reglugerð setja nánari skýringar á því hvað flokkast undir veltuna í neðra þrepi.
7.    Við 7. gr.
    a.    A-liður orðist svo:
             Í stað „81,97%“ í 3. mgr. komi: 81,97% vegna almennrar skattskyldrar veltu og 86,96% vegna veltu samkvæmt neðra þrepi.
    b.    1. og 2. tölul. 5. mgr. orðist svo:
             1. 81,97% þeirrar fjárhæðar sem hann endurgreiðir viðskiptavinum sínum vegna endursendra vara þegar um almenna skattskylda veltu er að ræða en 86,96% vegna veltu samkvæmt neðra þrepi.
             2. 81,97% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til almennrar skattskyldrar veltu. Fáist fjárhæðin síðar greidd skulu 81,97% hennar talin með skattskyldri veltu á því tímabili þegar hún fæst greidd. Þegar velta samkvæmt neðra þrepi á í hlut er hlutfall þetta 86,96%.
8.    Við 8. gr. Greinin orðist svo:
         14. gr. laganna orðist svo:
         Virðisaukaskattur af almennri skattskyldri veltu skal vera 22% og af veltu samkvæmt neðra þrepi 15%. Skal virðisaukaskattur renna í ríkissjóð.
9. Við 9. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi:
         Við 5. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Enn fremur skal sérstaklega koma fram hver fjárhæð virðisaukaskatts er, þannig að virðisaukaskattur sé 18,03% af heildarverði þegar um almenna veltu er að ræða en 13,04% af heildarverði þegar matvælavelta á í hlut.
10.    Við 10. gr. Greinin orðist svo:
         Síðari málsliður 3. mgr. 26. gr. laganna orðist svo: Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum er heimilt að skuldajafna á móti endurgreiðslu við reglulegt uppgjör enda eigi viðkomandi fyrirtæki ekki á sama tíma kröfur á ríkissjóð fyrir seldar vörur og þjónustu.
11.    Við 11. gr. Greinin falli brott.
12.    Við 12. gr. bætist ný málsgrein er verði 1. mgr. svohljóðandi:
         Nú telur einhver vafa leika á um skattskyldu, skattstofn eða annað það sem áhrif hefur á skattinn og getur hann þá leitað bréflega eftir skýringum ríkisskattstjóra og skal afstaða hans liggja fyrir innan tveggja vikna frá móttöku fyrirspurnar.
13.    Við síðustu málsgrein 12. gr. bætist: Þó er óheimilt að stöðva atvinnurekstur skv. 4. mgr. 27. gr. ef deila um skattskyldu eða skattstofn er til meðferðar hjá ríkisskattstjóra, ríkisskattanefnd eða dómstólum og skattaðila verði ekki gefin sök á töfum á efnisúrlausn deilunnar.
14.    Á eftir 12. gr. komi ný grein svohljóðandi:
         3. mgr. 34. gr. laganna orðist svo:
         Innheimta skv. 1. mgr. skal framkvæmd með þeim hætti að innflytjandi eigi kost á greiðslufresti til loka næsta mánaðar eftir innflutningsmánuð. Skal eigi krafist tryggingar né settar aðrar takmarkanir á greiðslufresti nema innflytjandi hafi ekki staðið í skilum eða að rökstudd ástæða sé til að ætla að hann muni ekki standa í skilum. Fjármálaráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um greiðslufresti.
15.    Við 13. gr., a-lið (ný 42. gr.).
    a.    1. mgr. fellur brott.
    b.    Á eftir orðunum „á byggingarstað“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: og af hönnunarkostnaði.
    c.    3. málsl. 2. mgr. orðist svo: Jafnframt er heimilt að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna við meiri háttar viðhald og endurbætur þess, enda sé heildarkostnaður a.m.k. 4,0% af fasteignamati húseignarinnar í ársbyrjun.
16.    Á eftir 15. gr. komi ný grein er orðist svo:
         48. gr. laganna, er verður 50. gr., sbr. lög nr. 110/1988, orðist svo:
         Lög þessi öðlast þegar gildi en skattheimta samkvæmt þeim kemur eigi til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1990. Frá þeim tíma falla úr gildi lög nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Ákvæði þeirra laga skulu þó gilda um söluskatt af sölu til og með 30. júní 1990.
17.    Við 17. gr. Fyrir „16. nóvember“ kemur: 1. september.