Ferill 258. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 258 . mál.


Sþ.

457. Skýrsla



iðnaðarráðherra um stöðu og horfur í íslenskum skipaiðnaði.

(Lögð fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



Inngangur.


Staðan á árunum 1986–1989.
    Á árinu 1986 voru verkefni allgóð hjá skipasmíðastöðvunum, einkum í endurbótum og viðgerðum. Ljóst var að efla þurfti skipaiðnaðinn og leita leiða til að skipaiðnaðarverkefni færu ekki úr landi í óhóflegum mæli. Vorið 1986 sameinuðust aðilar málmiðnaðarins, þ.e. Samband málm- og skipasmiðja (SMS), Málm- og skipasmiðasamband Íslands (MSÍ) og iðnaðarráðuneytið um stofnun nefndar um þessi málefni. Þessi nefnd hefur verið kölluð K-nefndin.
    Á árinu 1987 hallaði nokkuð undan fæti hjá skipasmíðastöðvunum þó að nýsmíðar ykjust töluvert en þau verkefni voru að langmestu leyti unnin erlendis. Því var það mat K-nefndarinnar að full ástæða væri til að boða til ráðstefnu sem nefnd var „Íslenskur skipaiðnaður staða – framtíð“. Var hún haldin í mars það ár og stóðu að henni Félag dráttarbrauta og skipasmiðja, Háskóli Íslands, iðnaðarráðuneytið, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Málm- og skipasmiðasamband Íslands, Samband málm- og skipasmiðja og Verkfræðingafélag Íslands. Ráðstefnan tókst vel og voru mörg brýn mál iðnaðarins rædd og ályktanir og ábendingar sendar stjórnvöldum.
    Á árinu 1988 varð enn gífurleg þensla í nýsmíðum erlendis og var aðalástæða þess, eins og árið áður, velgengni sjávarútvegs og hátt raungengi íslensku krónunnar. Íslenskur skipaiðnaður hélt þó sínum hlut en missti af mestum hluta nýsmíðinnar.
    Ljóst var í upphafi þessa árs að verulegur samdráttur yrði á árinu bæði á endurbótum og nýsmíðum á þessu ári. Nýsmíðar hafa þó verið allmiklar erlendis en miklu minni innan lands. Á síðari hluta ársins hefur komið í ljós hve alvarlegt ástandið er þegar tvær af stærstu stöðvunum hafa sagt upp hundruðum manna vegna fyrirsjáanlegs verkefnaskorts.

Horfur á næsta ári.
    Horfurnar á næsta ári eru því miður enn alvarlegri. Er enn séð fram á samdrátt í verkefnum ef ekkert er að gert. Má gera ráð fyrir að á árinu 1990 verði ein mesta lægð í greininni um árabil en til þess að draga úr henni hafa stjórnvöld hafið ýmsar aðgerðir sem greint verður frá hér á eftir. Mikilvægt er að fram komi að almenn samkeppnisskilyrði innlendra skipasmíðastöðva hafa batnað verulega með hækkandi raungengi krónunnar á undanförnum missirum. Raungengi krónunnar er um þessar mundir 10–15% lægra en það var á fyrri hluta árs 1988 hvort sem miðað er við verðlag eða laun og er það nú svipað og að jafnaði á þessum áratug. Lækkun raungengisins styrkir stöðu innlendra skipasmíðastöðva í samkeppni við erlendar um verkefni á næstunni. Hins vegar er ljóst að verkefnin verða takmörkuð sérstaklega miðað við það sem verið hefur undanfarin ár. Þessar sveiflur í verkefnum og samkeppnisskilyrðum sem má að nokkru rekja til sjávarútvegsins eru skipaiðnaðinum afar erfiðar og er brýnt að reyna að jafna þær.

Appledore – skýrslan.


Aðdragandi.
    Í nóvember 1987 var breska ráðgjafarfyrirtækið A.P. Appledore fengið til að gera skipulega úttekt á íslenska skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðinum. Í júní 1988 var skipuð sérstök verkefnisstjórn sem hafði yfirstjórn og eftirlit verkefnisins með höndum og þá hófst formleg vinna að þessari úttekt. Að áðurnefndri verkefnisstjórn áttu eftirtaldir aðilar aðild: Iðnaðarráðuneytið, sem jafnframt gegndi formennsku, Landssamband iðnaðarmanna/Félag dráttarbrauta og skipasmiðja, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður, Fiskveiðasjóður, Byggðastofnun og Landssamband íslenskra útvegsmanna. Að stærstum hluta var verkið kostað af Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði, auk þess af iðnaðarráðuneytinu, Landssambandi iðnaðarmanna, Fiskveiðasjóði og Byggðastofnun. Skýrslan var afhent í apríl á þessu ári.

Markmið.
    Markmiðið með verkefninu var að kanna leiðir til að efla samkeppnishæfni innlendra skipasmíðastöðva á þeim sviðum sem styrkleiki og sérstaða þeirra fær sín best notið til lengri tíma með hliðsjón af hagsmunum skipaiðnaðar og útgerðar og þróun í alþjóðasamkeppni.

Tillögur.
    Skýrslan er mjög yfirgripsmikil og eru þar saman komnar miklar upplýsingar um stöðu iðnaðarins. Skýrslan er á ensku en helstu atriði og tillögur hennar voru þýdd á íslensku og gefin út fjölrituð í maí á þessu ári. Nefnist hún „ATHUGUN Á ÍSLENSKA SKIPASMÍÐA- OG SKIPAVIÐGERÐAIÐNAÐINUM MEÐ TILLITI TIL STEFNUMÖRKUNAR“. Útgefendur eru iðnaðarráðuneytið og Landssamband iðnaðarmanna. Var skýrslan send alþingismönnum með bréfi iðnaðarráðherra dags. 19. maí sl.
    Tillögur skýrslunnar eru tvíþættar, þ.e. gerðar eru tillögur um aðgerðir af hálfu ríkisins og um aðgerðir af hálfu Félags dráttarbrauta og skipasmiðja. Hvorri tillögugerðinni er skipt í tvennt, þ.e. það sem ekki á að gera og það sem á að gera. (Sjá fskj. I með þessari skýrslu.)
    Samhliða hinni almennu úttekt hefur A.P. Appledore einnig unnið að sérverkefnum fyrir einstök fyrirtæki í skipasmíðaiðnaði hér á landi.

Þingsályktun frá 6. maí 1989.


Um bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar.
    Alþingi samþykkti þann 6. maí sl. eftirfarandi þingsályktunartillögu:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita allra leiða til að efla og bæta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar til að sporna við því að verkefni fari úr landi.“
    Í greinargerð með þingsályktunartillögunni „… er því beint til stjórnvalda að þau geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að íslenskur skipaiðnaður geti keppt á jafnréttisgrundvelli við þær þjóðir sem í æ ríkara mæli taka að sér íslensk skipaiðnaðarverkefni og skapað fjölda manns atvinnu“.

Skipaiðnaðarnefnd.


Skipun nefndar.
    Eins og áður er greint frá var á fyrri hluta ársins ljóst að samdráttur væri fram undan í íslenskum skipaiðnaði en þó einkum á næsta ári. Með hliðsjón af þessu og í framhaldi af samþykkt ofangreindrar þingsályktunar skipaði iðnaðarráðherra nefnd um málið.
    Nefndin var skipuð 19. júlí 1989 en í skipunarbréfinu segir:
    „Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um og fylgja eftir málefnum skipaiðnaðarins í framhaldi af skýrslu A.P. Appledore um „Athugun á íslenska skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðinum með tilliti til stefnumörkunar“.
    Nefndin skal vera til ráðgjafar og fylgjast með framkvæmd tillagna og ábendinga sem fram koma í skýrslunni.
    Þá skal nefndin fylgjast með framkvæmd annarra tillagna og aðgerða til eflingar skipaiðnaðinum svo sem markaðssókn erlendis og útgáfu kynningarrits til dreifingar innan lands og utan.
    Í nefndina voru skipaðir: Páll Flygenring frá iðnaðarráðuneyti, formaður, Þorleifur Jónsson frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Sigurður G. Ringsted frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Örn Friðriksson frá Málm- og skipasmiðasambandi Íslands, Baldur Pétursson frá iðnaðarráðuneyti, starfar auk þess með nefndinni.

Markaðsátak.
    Í maí 1989 var hrundið af stað markaðsátaki í skipanýsmíði og skipaviðgerðum í samvinnu við Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband íslenskra útvegsmanna og fleiri aðila.
    Þessi vinna er í samræmi við niðurstöður Appledore-skýrslunnar og framangreindrar þingsályktunar um bætta samkeppnisstöðu skipaiðnaðarins.
    Fyrstu skref átaksins er útgáfa á kynningarriti um íslenskan skipaiðnað. Bæklingur þessi kom út í síðasta mánuði bæði á íslensku og ensku þar sem hann er ætlaður til dreifingar bæði innan lands og erlendis. Honum hefur nú þegar verið dreift til íslenskra útgerðaraðila og dreifing erlendis til ákveðinna markhópa er fram undan. Íslenska bæklingnum verður dreift með þessari skýrslu til alþingismanna.
    Skipaiðnaðarnefnd leggur til að næsta skref í markaðsátaki verði frekari kynning erlendis á íslenskum skipasmíðastöðvum og öðrum þeim fyrirtækjum sem framleiða vörur og tæki til sjávarúvegs. Það gæti gerst með því móti að útbúið væri heildartilboð í fiskiskip fullbúið til veiða í norðanverðu Atlantshafi og e.t.v. annað tilboð í skip fyrir veiðar í suðlægum höfum. Að slíku heildartilboði stæðu sem flestar af stærri stöðvunum hérlendis, svo og þeir sem framleiða vörur og tæki til sjávarútvegs. Til þess að hrinda slíku átaki í framkvæmd þarf að ráða mann með tækniþekkingu á skipasmíðum og tækjum til sjávarútvegs. Sá sem til þess yrði ráðinn þarf að vera óháður framleiðendum en hafa hæfileika til þess að laða þá til samvinnu um þetta markaðsátak. Eðlilegt er að forusta átaksins væri í höndum Sambands málm- og skipasmiðja. Áætla má að slíkt átak gæti kostað 10–12 m.kr. Brýnt er að það hefjist fljótlega á næsta ári og er það tillaga nefndarinnar að ríkisstjórnin leggi fram 8 m.kr. til þessa verkefnis gegn mótframlagi frá Sambandi málm- og skipasmiðja og Iðnlánasjóði.
    Næstu skref í markaðsátaki verða mótuð af skipaiðnaðarnefnd.

Tillögur nefndarinnar.
    Nefndin hefur lagt nokkrar tillögur fyrir iðnaðarráðherra í formi minnisblaða. Nefndin hefur haft það vinnulag að fjalla um einstakar tillögur og kynna þær ráðherra jafnóðum. Eru fimm minnisblöð prentuð sem fylgiskjöl með þessari skýrslu. Nefndin mun starfa áfram að tillögugerð með þessum hætti og eru nú til meðferðar hjá nefndinni ýmsar tillögur sem fram voru settar í Appledore-skýrslunni, svo og þær hugmyndir sem iðnaðarráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn og greint verður frá síðar.

Slippstöðvarstarfshópur.


Sala á raðsmíðatogara.
    Í byrjun október sl. skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til að aðstoða Slippstöðina við sölu á raðsmíðatogara sem þar hafði lengi verið í smíðum án þess að sala væri tryggð. Í starfshópinn voru tilnefnd: Páll Flygenring frá iðnaðarráðuneyti, Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti og Svanfríður Jónasdóttir frá fjármálaráðuneyti.
    Nýlega tókst Slippstöðinni að selja skipið til fyrirtækisins Meleyri á Hvammstanga með því skilyrði að notuð skip væru tekin sem greiðsla upp í.
Annað þeirra er trébátur sem verður úreltur en hitt skipið hyggst Slippstöðin endurbyggja. Leyfa þarf flutning á kvóta yfir á hið nýja skip, tryggja þarf að leyfi fáist til sölu á hinu notaða skipi eftir endurbyggingu þess og ýmis önnur atriði þarf starfshópurinn að aðstoða við að skjótt takist að leysa. Eru góðar horfur á að öll þessi mál leysist á farsælan hátt.

Tillögur iðnaðarráðherra.


Bréf til lánastofnana og fjárfestingarsjóða.
    Viðskiptaráðherra ritaði þann 14. júlí sl. öllum bönkum, sparisjóðum og fjárfestingarlánasjóðum bréf þar sem í upphafi var vitnað í nýsamþykkta þingsályktun um bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar.
    Þá segir í bréfinu:
    „Í nefndaráliti atvinnumálanefnda sameinaðs þings um tillöguna kemur fram að hún væntir þess að eftirtalin atriði verði höfð í huga við framkvæmd þingsályktunarinnar:
1.     Ríkisstjórnin reyni að tryggja að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppa á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. hvað snertir meðferð tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu.
2.     Tilboð verði metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar.
3.     Settar verði staðlaðar reglur um útboð, veðskilmála og tilboð í skipaiðnaðarverkefni.
4.     Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankar veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis.
    Viðskiptaráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji beita sér fyrir því að jafn aðgangur verði að fjármagni hvort sem skipaiðnaðarverkefni eru unnin hér á landi eða erlendis og hafa í framhaldi af því verið heimilaðar erlendar lántökur í þessu skyni eftir því sem þörf hefur verið á. Varðandi ábyrgðir hefur hann bent á að óeðlilegt sé að innlendir aðilar, sem verið hafa í traustum viðskiptasamböndum, geri kröfur um bankaábyrgðir, en hins vegar verði að leggja áherslu á að bankar og fjárfestingarsjóðir mismuni ekki viðskiptavinum sínum eftir því hvort verkefni eru unnin innan lands eða utan.
    Þess er hér með farið á leit við yður að þér gerið allt, sem í yðar valdi stendur, til þess að stuðla að því að skipaiðnaðarverkefni fyrir íslenska útgerðaraðila fari ekki úr landi.“
    Þá ritaði viðskiptaráðherra bankaráðum allra bankanna og stjórn Sambands íslenskra sparisjóða bréf 27. nóv. sl. þar sem vitnað er í ofangreint bréf frá 14. júlí og m.a. minnt á það atriði í nefndaráliti atvinnumálanefndar sameinaðs þings að „ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankar veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis.“
    Í þessu síðara bréfi segir m.a.:
    „Í framangreindu bréfi, þ.e. bréfinu frá 14. júlí, var m.a. getið þeirrar yfirlýsingar minnar að „óeðlilegt sé að innlendir aðilar, sem verið hafa í traustum viðskiptasamböndum, geri kröfur um bankaábyrgðir, en hins vegar verði að leggja áherslu á að bankar og fjárfestingarsjóðir mismuni ekki viðskiptavinum sínum eftir því hvort verkefni eru unnin innan lands eða utan.“
    Að gefnu tilefni skulu þessi orð nú ítrekuð og þess er hér með farið á leit við bankaráð að þau gæti þess að eigi sé stuðlað að því að skipaiðnaðarverkefni fyrir íslenska aðila fari úr landi vegna mismunar í fyrirgreiðslu bankanna varðandi ábyrgðir eftir því hvort verkefnin eru unnin af innlendum eða erlendum fyrirtækjum. Skal í því efni vitnað til 5. mgr. 21. gr. viðskiptabankalaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 32 12. maí 1989, en þar segir m.a. að bankaráð setji almennar reglur um ábyrgðir banka.“

Minnisblað til ríkisstjórnarinnar.
    Iðnaðarráðherra lagði ítarlegt minnisblað fyrir ríkisstjórnina 24. nóv. sl. um „Ráðstafanir vegna innlends skipasmíðaiðnaðar“ þar sem greint var frá undirbúningi ráðstafana sem unnið er að á vegum iðnaðarráðuneytisins sem grípa mætti til í því skyni að styrkja samkeppnishæfni íslenskra skipasmíðastöðva. Greint var frá að þeirri vinnu hafi verið hraðað á undanförnum vikum vegna þeirra erfiðleika sem við blasa í skipaiðnaði með minnkandi verkefnum í nýsmíði og endurbótum á næstunni.
    Þá segir í minnisblaðinu að meðal almennra ráðstafana, sem til greina koma til að styrkja stöðu innlends skipaiðnaðar, séu eftirfarandi:
1.     Lánafyrirgreiðsla vegna verkefna hjá innlendum skipasmíðastöðvum verði bætt meðal annars með breytingum á lánareglum Fiskveiðasjóðs Íslands.
2.     Leitast verði við að tryggja að lánastofnanir veiti sams konar ábyrgðir vegna verkefna hjá innlendum skipasmíðastöðvum og þær veita vegna verkefna erlendis.
3.     Reglum um skipti á notuðum og endurbyggðum skipum verði breytt þannig að innlendum skipasmíðastöðvum verði gert kleift að taka notuð skip upp í kaupin á endurbyggðum skipum.
4.     Stjórnvöld beiti sér fyrir því að Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samband málm- og skipasmiðja komist að samkomulagi um samræmingu á tilhögun útboða og verksamninga. Fiskveiðasjóði verði falið að framfylgja útboðsreglum við lánveitingar úr sjóðnum.
5.     Iðnaðarráðuneyti tilnefni fulltrúa fyrir skipaiðnaðinn í stjórn Fiskveiðasjóðs.
6.     Iðnaðarráðuneytið í samvinnu við samtök fyrirtækja í greininni stuðli að samstarfi skipasmíðastöðva um tiltekin stór verkefni.
7.     Nýsmíða- og viðgerðarverkefnum opinberra aðila verði flýtt og beint til innlendra skipasmíðastöðva eftir því sem kostur er.
8.     Iðnaðarráðuneyti í samvinnu við fyrirtæki í greininni og lánasjóði beiti sér fyrir kynningar- og markaðsátaki fyrir skipasmíðaiðnaðinn jafnt innan lands sem erlendis, m.a. með dreifingu á sérstökum nýútkomnum kynningarbæklingi.
9.     Skipasmíðastöðvum verði veitt aðstoð við verkefnaleit erlendis og til þess veitt sérstaklega fé.
10.     Heimildir erlendra fiskiskipa til að sækja þjónustu til innlendra aðila verði rýmkaðar.

Tillögur í ríkisstjórn.
    Í framhaldi af minnisblaði til ríkisstjórnarinnar frá 24. nóv. sl. lagði iðnaðarráðherra 15. des. sl. eftirfarandi tillögu til ákvörðunar fyrir ríkisstjórnina:
1.     Ríkisstjórnin leggi fram 8 m.kr. til sérstaks markaðsátaks erlendis sem felist í því að útbúa heildarsölutilboð í fullbúin fiskiskip.
        Tillaga þessi er nánar reifuð í skýrslunni í kaflanum Markaðsátak.
2.     Munur á lánahlutfalli til nýsmíði skipa verði aukinn eftir því hvort þau eru smíðuð innan lands eða erlendis sem verði hvati til að skip verði smíðuð innan lands. Gerð er grein fyrir þessari tillögu í minnisblaði nr. 4 frá skipaiðnaðarnefnd sem er fylgiskjal með skýrslunni.
3.     Ríkisstjórnin stuðli að átaki til hagræðingar og framleiðniaukningar í skipasmíðastöðvum með því að leggja fram 30 m.kr. hvort ár á næstu tveimur árum gegn jafnháu framlagi frá sjóðum og fyrirtækjum. Gerð er grein fyrir þessari tillögu í minnisblaði nr. 5 frá skipaiðnaðarnefnd sem er fylgiskjal með skýrslunni.
    Iðnaðarráðherra ráðgerir að flytja tillögu til þingsályktunar um málefni skipaiðnaðarins að loknu þinghléi eftir áramót. Samþykki Alþingi tillöguna er gert ráð fyrir að nauðsynleg fjárframlög fáist vegna þátttöku iðnaðarráðuneytisins í framleiðni- og markaðsátaki fyrir skipaiðnaðinn í fjáraukalögum 1990. Þetta mál hefur verið kynnt fjárveitinganefnd en kom því miður of seint fram til að fá afgreiðslu með fjárlögum 1990.


Flýting á verkefnum fyrir opinbera aðila.



Viðgerð á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni.
    Nýlega fór fram útboð á viðgerð og endurbótum á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni og bárust eftirtalin tilboð:

        Innlend tilboð    Erlend tilboð
        M.kr.    M.kr.
1 Pólland ......................             43,29
2 England, Appledore ...........             52,71
3 Þorgeir og Ellert ............         56,52
4 Stál, Seyðisfirði ............         57,42
5 Slippstöðin ..................         57,62
6 Stálsmiðjan ..................         59,20
7 Noregur, Flekkefjord .........             61,30
8 Njarðvík .....................         63,06
9 Héðinn, Garðabæ ..............         64,90
10 Danmörk, Karstensen ..........             70,00
11 Danmörk, Alkab ...............             70,40
12 Danmörk, Morsö ...............             75,70
13 England, Tyne Dock ...........             75,70
14 Danmörk, Raum Byberg .........             80,60
15 Holland, Swev ................             83,91
16 England, Ritchard ............             111,00
                    ————
     Meðaltal         59,80    72,46

    Að meðaltali eru erlendu tilboðin 21,2 % hærri en þau íslensku.
    Hæsta tilboðið er 96,4 % hærri en lægsta íslenska tilboðið.
    Lægsta tilboðið er 23,4 % lægra en lægsta íslenska tilboðið.
    Í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar dags. 21. nóv. 1989 um að viðgerð á Árna Friðrikssyni verði framkvæmd hér á landi. Í tillögunni segir m.a.:
    „Fyrirsjáanlegur verkefnaskortur er í íslenskum skipasmíðaiðnaði á næstu missirum og hefur fjölda starfsmanna skipasmíðastöðva verið sagt upp störfum. Hætta er á því að umtalsvert atvinnuleysi verði í þessari grein ef svo fer sem horfir og jafnframt gæti mikilvæg verkþekking glatast.
    Ég hef beðið Þjóðhagsstofnun að áætla hversu stór hluti af greiðslum til íslenskra skipasmíðastöðva félli aftur til ríkissjóðs, bæjarsjóða eða annarra opinberra aðila í formi skatta, tolla, útsvara eða annarra opinberra gjalda ef svo færi að verkið yrði unnið hér á landi og hversu mikið gæti sparast í greiðslum atvinnuleysisbóta.
    Í hjálögðu svari Þjóðhagsstofnunar kemur fram að hér er um að ræða fjárhæð sem gæti numið allt að 12–13 milljónum króna. Þessi niðurstaða er þó mjög háð því hversu margir starfsmanna skipasmíðastöðvarinnar, sem fengi þetta verkefni, yrðu að öðrum kosti atvinnulausir um skeið. Ef helmingur þeirra yrði atvinnulaus en hinn helmingurinn fyndi sér annan starfa lækkar þessi fjárhæð í 6–7 milljónir króna.
    Vegna hins alvarlega ástands, sem nú er í atvinnumálum víða um land, er allt eins líklegt að það fólk, sem nú hefur verið sagt um störfum í skipasmíðastöðvum, ætti í erfiðleikum með að finna sér önnur störf. Því virðist sem beint og óbeint tekjutap hins opinbera af því að umrætt viðgerðarverkefni fari til útlanda gæti orðið af svipaðri stærðargráðu og munurinn sem virðist vera á erlenda og innlendu tilboðunum í viðgerðirnar á Árna Friðrikssyni. Hér þarf einnig að hafa í huga ýmsan ófyrirséðan kostnað sem jafnan virðist fylgja verkefnum af þessu tagi erlendis.“
    Í framhaldi af þessu ákvað ríkisstjórnin að endurbætur á Árna Friðrikssyni skyldu fara fram innan lands. Eru allar horfur á að það verk verði unnið í skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi.

Smíði á mælingaskipi fyrir Landhelgisgæsluna.
    Þá hefur útboð á mælingaskipi Landhelgisgæslunnar farið fram. Allmörg tilboð bárust og hefur forstjóra Landhelgisgæslunnar verið falið að hefja samninga við Vélsmiðju Seyðisfjarðar og að skipið verði smíðað þar.

Fylgiskjal I.

(Texti fylgiskjals er ekki til tölvutækur.)


    Blaðsíður 4, 5, 6 og 7 úr Appledore-skýrslunni: Samandregnar niðurstöður.
    Tillögur Appledore um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Tillögur Appledore um aðgerðir af hálfu Félags dráttarbrauta og skipasmiðja.
Fylgiskjal II.

(Texti fylgiskjals er ekki til tölvutækur.)
    Stöplarit og línurit yfir hlutdeild innlendra og erlendra skipasmíðastöðva í viðgerðum og nýsmíðum, svo og töflur um sama efni.

Fylgiskjal III.

(Texti fylgiskjals er ekki til tölvutækur.)
    Minnisblöð skipaiðnaðarnefndar nr. 1, 2, 3, 4 og 5 til iðnaðarráðherra.