Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 322 . mál.


Sþ.

564. Tillaga til þingsályktunar



um vöruþróunarsjóð.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagafrumvarp sem heimilar að leggja ósótt orlofsfé til launþega hjá Pósti og síma og gleymdar innstæður hjá bönkum og sparisjóðum í sérstakan sjóð til að efla þróun á nýjum framleiðsluvörum hér á landi. Verkinu sé lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.

Greinargerð.


    Víða liggja óhafnir peningar í kerfinu og koma þjóðfélaginu að litlum notum. Í haust er leið var upplýst að um 50 millj. kr. væru í vörslu Póstgíróstofunnar vegna orlofsfjár til launþega sem ekki hefur verið sótt. Þá er vitað að í hverjum banka og sparisjóði og í fleiri sjóðum eru innstæður og eru eigendur þeirra ýmist látnir eða hafa gleymt þeim af ýmsum orsökum.
    Það er skoðun flutningsmanns að þessum peningum sé best varið til að þróa nýjar vörur til að flytja út frá Íslandi. Þannig eflist atvinnulífið og landsframleiðslan eykst. Skotið yrði nýjum stoðum undir útflutning og þjóðarhagur bættur.
    Íslenskir hugvitsmenn búa við þröngan kost hér á landi og hafa því mjög takmarkað svigrúm til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd — láta draumana rætast. Oft á tíðum luma menn á góðum og nýtilegum hugmyndum sem aldrei komast af teikniborðinu vegna peningaskorts. Það verður verkefni þessa sjóðs að leggja eitthvað af mörkum til að hugvitið verði í askana látið um síðir.
    Í stjórn sjóðsins þarf að skipa menn frá samtökum útflytjenda, framleiðenda og iðnrekenda, ásamt Verslunarráði og Félagi hugsvitsmanna. Sjóðurinn heyri undir viðskiptaráðherra og verði honum falið að semja reglugerð um sjóðinn og skipa oddamann í stjórnina.