Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 333 . mál.


Nd.

581. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987.

Flm.: Guðmundur G. Þórarinsson, Guðni Ágústsson,


Ólafur Þ. Þórðarson, Alexander Stefánsson.



1. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna komi ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:
    Greiða skal sérstakt innflutningsgjald — hóffjaðragjald — af hóffjöðrum. Gjald þetta skal nema 2 kr. á hverja hóffjöður. Innlendir framleiðendur skulu einnig greiða hóffjaðragjald. Innflutningsgjaldið skal greitt í tolli en gjalddagar innlendra framleiðenda skulu vera tveir, 1. janúar og 1. júlí ár hvert, en eindagi mánuði síðar.
    Hóffjaðragjald skal fylgja vísitölu byggingarkostnaðar.

2. gr.

    2. gr. laganna, sem verður 3. gr. orðist svo:
    Gjöld samkvæmt ákvæðum 1. og 2. gr. skulu innheimt til ríkissjóðs. Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun nema tekjum skv. 2. gr. sem skal varið til að gera reiðvegi samkvæmt reiðvegaáætlun sem samgönguráðherra lætur gera til fjögurra ára í senn í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga. Ríkissjóður skal að auki leggja til gerðar reiðvega jafnvirði hóffjaðragjalds næsta ár á undan.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi um breytingu á vegalögum og þingsályktunartillögu um gerð reiðvegaáætlunar.
    Með frumvarpi til breytinga á vegalögum er Vegagerð ríkisins ótvírætt falið það verkefni að sjá um gerð reiðvega samkvæmt reiðvegaáætlun sem samgönguráðherra lætur gera í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga. Sú áætlun á að fela í sér forgangsröðun verkefna og vera gerð til fjögurra ára í senn.
    Það frumvarp, sem hér er flutt, nær til tekjuöflunar vegna reiðvegagerðar. Reiðvegafé 1989 er um það bil 4 millj. kr. og engan veginn nægjanlegt til framkvæmda þegar hestamennska er svo vinsæl og vaxandi sem raun ber vitni og umferð ríðandi manna eykst jafnhliða umferð bifreiða.
    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að lagt verði á sérstakt „hóffjaðragjald“. Gera má ráð fyrir að 7–8 þúsund manns stundi hestamennsku nú um þessar mundir og eigi hver að meðaltali um fjóra hesta. Ef gert er ráð fyrir að 30 hóffjaðrir fari í járningu og járnað sé að jafnaði fimm sinnum á ári gæti tveggja króna gjald á hverja hóffjöður gefið tekjur til reiðvegagerðar sem nema um 10 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að gjaldið fylgi byggingarvísitölu. Þannig gæti féð ásamt reiðvegafé á fjárlögum bætt mjög úr og aukið framkvæmdir, en gera verður ráð fyrir að sveitarfélög verji nokkru fé einnig til reiðvegagerðar.