Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 334 . mál.


Sþ.

582. Tillaga til þingsályktunar



um einkavæðingu.

Flm.: Kristinn Pétursson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna nú þegar til samkeppni um tillögur um einkavæðingu með sölu ríkisfyrirtækja og hvernig skuli að henni staðið.

Greinargerð.


    Öllum er ljós sá vandi sem við blasir í ríkisfjármálum. Til þess að leysa hluta þessa vanda er nærtækt ráð að selja ríkisfyrirtæki og því er þessi tillaga flutt.
    Eðlilegt er að standa að þessu með því að efna til samkeppni um tillögur um hvaða ríkisfyrirtæki skuli seld og hvernig skuli að því staðið. Einkarekstur hefur í hinum vestræna heimi reynst bestur kostur til að ná mestri hagkvæmni; þannig hafa lífskjör borgaranna í þessum heimshluta stórbatnað.
    Það er mjög þýðingarmikið í ljósi nýafstaðinna kjarasamninga að leitað verði sem flestra leiða til þess að minnka fjárlagahallann. Sala á ríkisfyrirtækjum er mjög auðveld leið til þess að rétta af fjárlagahalla og því eðlilegt að efna til samkeppni nú þegar um hvaða fyrirtæki skuli seld og hvernig skuli að því staðið. Samkeppni um þetta mál tryggir að margar góðar hugmyndir komi fram og þannig yrði hér um vandaða málsmeðferð að ræða. Eðlilegt væri að forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherra skipi einn mann hver í nefnd sem sæi um framkvæmd málsins.